Barnið er iðulega fórnarlamb aðstæðna sem hinir fullorðnu skapa því. Kjör barna eru harla ólík. Áföll í lífi þeirra geta verið margvísleg og misalvarleg. Þau alvarlegustu eru vitaskuld dauði foreldra og annnarra nákominna, sjúkdómar og slysfarir. Fangelsisvist foreldra, föður eða móður, er þungbært áfall og því þyngra sem afplánun stendur lengur yfir; er röskun á öllum högum barnsins; hún vegur að tilfinningum, samskiptum og ytri kjörum þess. Fangelsið er aðskilnaður barns og foreldris sem verður að bregðast við með einhverjum hætti.