Ofbeldi og vopnaburður meðal fanga hefur aukist mjög innan veggja fangelsa landsins síðastliðin ár. Hafa bæði fangar og fangaverðir orðið fyrir alvarlegu heilsutjóni. Uppi er hávær krafa um aukinn varnarbúnað meðal fangavarða, högg- og hnífavesti, auk þess sem rætt hefur verið um aðgengi að rafbyssum, svokölluðum Ta
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir nýjan veruleika tekinn við, vopn finnist nú reglulega í klefum og sameiginlegum rýmum fangelsa.
„Fyrir nokkrum árum var þetta nánast óþekkt. Mér ber fyrst og fremst skylda til að gæta öryggis míns starfsfólks. Við höfum mjög takmarkaðan áhuga á að vopnast í fangelsunum en þurfum augljóslega að endurskoða verklag okkar. Og hugsanlega þurfum við að breyta reglum hvað viðkemur umgengni við tiltekna hópa, það er að segja þá sem eru að búa til heimagerð vopn og bera á sér,“ segir hann og bendir á að vopnin séu oft búin til úr plexíglersbrotum, sagarblöðum, skrúfjárnum, skrúfum og nöglum. Í raun megi segja að allt sé notað, komist fangar í íhluti.
„Þetta eru oftar en ekki vopn sem hægt er að bana mönnum með, hið minnsta valda alvarlegu líkamstjóni,“ segir Páll og bendir á að seinast hafi verið ráðist á fangavörð fyrir um mánuði og átti sú árás sér stað á Litla-Hrauni. Vopnum hefur þó til þessa enn ekki verið beitt gegn fangavörðum.
Páll segir nú til skoðunar að fangaverðir klæðist högg- og hnífavesti við almenn störf. Er um að ræða varnarbúnað áþekkan þeim sem lögreglumenn klæðast. „En þetta kallar á fjármagn eins og allt annað,“ bætir hann við.
Ungir ofbeldismenn
Morgunblaðið sótti fangelsið á Hólmsheiði heim sl. þriðjudag í þeim tilgangi að kynna sér starfsumhverfi fangavarða.
Halldór Valur Pálsson forstöðumaður fangelsisins segir kynslóðaskipti nú eiga sér stað meðal afbrotamanna. Ungir íslenskir karlmenn, fæddir um og eftir árið 2000, hiki ekki við að beita grófu líkamlegu ofbeldi og grípi þá ósjaldan til vopna. „Það er meira norm í dag að bera vopn en áður. Þessir menn telja einnig mikilvægt að láta aðra vita að þeir séu alla jafna með vopn á sér.“
Þá var hópur fanga staðinn að því að undirbúa árás á fangavörð með því að ætla að skvetta á hann heitri olíu í sameiginlegu rými.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/11/24/vopnaburdur_storaukist_medal_fanga/