Uppreist æra

 

Mikil óvissa eftir afnám uppreistrar æru

Samkvæmt rannsókn laganema við HA skapaði afnám lagaákvæða um uppreista æru óvissu, bæði fyrir þá sem ljúka afplánun í dag og þá sem höfðu áður fengið borgaraleg réttindi sín til baka.

Óvissa ríkir um borgaraleg réttindi brotamanna eftir afplánun og embætti túlka lögin á mismunandi hátt. Þetta kemur fram í lokaritgerð Jóhönnu Óskar Jónasdóttur við lagadeild Háskólans á Akureyri, um áhrif afnáms lagaákvæða um uppreista æru. Málþing verður haldið um málefnið þann 17. september í skólanum og streymt á netinu.

Uppreist æra var afnumin úr hegningarlögum árið 2017 eftir að mál kynferðisafbrotamannanna Roberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar komust í hámæli og felldu að lokum ríkisstjórnina. Löggjöfin var aðlöguð að þessu en með misjöfnum árangri, að mati Jóhönnu.

„Í sumum lögum segir að menn geti fengið réttindi sín aftur að fimm árum liðnum, en ekki í öðrum, sem þýðir að skerðingin er ævilöng,“ segir hún og nefnir dæmi úr lögreglunni. Lögreglumaður sem fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir breytinguna hélt sínu starfi, á meðan annar sem framdi brot með sömu refsingu eftir breytinguna missti það.

Áður fengu einstaklingar sjálfkrafa óflekkað mannorð fimm árum eftir afplánun og öll borgaraleg réttindi ef dómur var óskilorðs-bundinn í 4 til 12 mánuði. Ef dómur fór fram úr því þurfti að sækja um uppreista æru.

„Það er óvissa um hvernig eigi að túlka lögin. Fyrst það er orðið matskennt hjá hverjum og einum hvort skýra eigi refsidóm sem einungis óskilorðsbundinn dóm eða einnig skilorðsbundinn, er verið að skerða réttindi einstaklinga án þess að það sé lagagrundvöllur fyrir því,“ segir Jóhanna.

 Hvert tilfelli sé metið

Áhrifin af því að missa sín borgaralegu réttindi, jafnvel fyrir lífstíð, eru margvísleg, samkvæmt ritgerðinni. Hið augljósasta er líklegast skerðing á atvinnufrelsi sem sé varið í stjórnarskránni. Þá geti það verið vandkvæðum háð að bjóða sig fram í kosningum, eins og Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, komst að í vetur. Ekki megi heldur vanmeta það að fólk upplifi beiskju og að það sé útilokað frá samfélaginu.

„Mér finnst eðlilegt að hvert tilfelli sé metið, í stað þess að fólk sé útskúfað það sem eftir er,“ segir Jóhanna. Til dæmis að horft sé til þess hversu langt sé um liðið og hvort viðkomandi hafi snúið lífi sínu við. „Það er eins og ákvæðinu um uppreista æru hafi verið sópað undir borðið og ekkert spáð í framhaldinu, því þessi heildarendurskoðun laganna í kjölfarið skilur eftir sig bæði skerðingu á réttindum og óvissu.“

Þó að Jóhanna telji ákvæðið hafa verið afnumið í flýti og hugsunarleysi, telur hún ekki líklegt, í ljósi þess sem á undan er gengið, að það rati aftur inn í löggjöfina. Mikilvægt sé þó að leysa úr óvissunni, meðal annars gagnvart þeim sem áður hafa fengið uppreista æru.

„Hópur einstaklinga sem áður hafði öðlast óflekkað mannorð sjálfkrafa eða hlotið uppreista æru er nú í óvissu,“ segir hún. „Þegar lagaákvæði eru túlkuð sem svo að viðkomandi má ekki hafa hlotið refsidóm, er horft á feril viðkomandi frá því hann varð 18 ára, óháð því hvort hann hafi öðlast óflekkað mannorð í eldri tíð laga, því má ætla að verið sé að beita afturvirkni laga.“

 Fólk sé frekar stutt aftur út í samfélagið

F13061017 guðnijohan 02 (2).jpg

 

„Spurningin er hvort við viljum taka aftur við fólki inn í samfélagið eða hvort búið sé að taka upp þá stefnu að þeir sem hafa brotið af sér eigi aldrei afturkvæmt inn í mannlegt samfélag,“ segir Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, sem flytur erindi á málþinginu. „Ég er talsmaður þess að við styðjum fólk frekar til að koma aftur.“

Áður fyrr hafi brotamenn verið brennimerktir án möguleika á að verða fullgildir meðlimir samfélagsins, með tilheyrandi eymd og félagslegum vandamálum.

„Ég tel ekki rétt að útiloka fólk alfarið út frá afbrotunum sjálfum, heldur ætti að horfa á hvar einstaklingurinn er staddur í sinni betrun,“ segir Arnar.

Prófessor segir afnám réttinda refsiauka

F07120118 Erla Bolla  02.jpg

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði, sem meðal annars mun fjalla um ítrekunartíðni, segir hlutverk viðurlagakerfisins tvenns konar. Annars vegar að refsa til að fæla fólk frá afbrotum og hins vegar að endurhæfa og betra fólk. „Þetta er að sumu leyti mótsagnakennt og getur grafið hvort undan öðru,“ segir hann.

Segir hann umræðuna um uppreista æru mest megnis snúast um kynferðisbrotamenn. Afnám borgaralegra réttinda væri í raun refsiauki, líkt og löggjöf í Bandaríkjunum og fleiri löndum um skráningar kynferðisbrotamanna. „Sumir hafa talað fyrir þessari leið hérna, en rannsóknir erlendis frá sýna að skráningin veitir falskt öryggi og geri viðkomandi aðeins útskúfaðri og hættulegri,“ segir Helgi.

Nefnir hann að til dæmis í Bretlandi hafi verið komið á sérstökum stuðningsúrræðum fyrir slíka brotamenn er kallast Circles.

Tags