Komið er upp hópsmit í fangelsinu að Litla Hrauni. Fangar eru afar ósáttir við þær sóttvarnaaðgerðir sem verið er að grípa til og sætta sig illa við einangrun.

Þetta er samkvæmt heimildum Vísis en staðan í fangelsinu í morgun var sú að föngum var ekki hleypt út úr klefum sínum í morgun. Og fylgdir það sögunni að þeir hafi ekki fengið morgunmat á þeim tíma sem þeir eru vanir.

„Staðan er þannig, svo það sé sagt hreint út, að það er komið upp hópsmit meðal fanga á Litla-Hrauni. Það sem verið er að gera núna er að kortleggja stöðuna, gera sér grein fyrir útbreiðslunni og á meðan það er í gangi takmörkum við samband milli deilda og húsa,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við Vísi.

Hann segir að þeir sem greinst hafi smitaðir séu 15 til 20 en enn er verið að taka sýni. Smitið var að koma upp og ráðstafanir sem gerðar eru séu í samráði og samstarfi við sóttvarnalækni.

„Við útfærum við þetta eins og frekast er unnt í samræmi við meðalhóf þó þannig að við tryggjum sem kostur er að smit berist ekki víðar.“

Sem þýðir þá hvað fyrir fangana?

„Þetta þýðir fyrir fangana sama og fyrir fólkið í landinu. Þeir sem eru smitað-ir af covid þurfa að einangra sig með sama hætti og annar staðar en við erum að athuga hvort unnt sé að flytja þá saman á deild sem eru með smit, þannig að þeir þurfi ekki að vera einangraðir inni á klefum.“

 

Ljósmynd Egill