Í Viku 43 -vímuvarnaviku 2008 var alþingismönnum afhent hvatning um að halda vörð um velferð barna þegar kæmi að vímuefnavörnum. Það var Katrín Júlíusdóttir alþingismaður sem tók við áskoruninni fyrir hönd alþingismanna en Katrín er einnig stjórnarmaður í Vímulausri æsku / Foreldrahúsi. Starfsmaður Viku 43, Guðni Björnsson hitti Katrínu í Alþingishúsinu föstudaginn 24. október en 43. viku ársins lýkur með fyrsta vetrardaginum 25. október. Á skjalinu sem Katrín tók við, og er undirritað af 20 grasrótarsamtökum er eftirfarandi texta:

 

 
Hvatning til alþingismanna:
 
„Velferð barna

- stöndum vörð um það sem virkar

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skulu börn eiga rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska. Í því felst að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.

Neysla áfengis og annarra vímuefna raskar uppvexti og ógnar velferð margra barna. Sum bíða ævarandi tjón. Það er bitur reynsla að sjá barn sitt lenda í fjötrum vímuefnaneyslu og villast á brautir glæpa og ofbeldis.

Rannsóknir staðfesta að opinber stefna í forvörnum hér á landi er vænleg til árangurs, s.s.
 
- 20 ára aldursmark til áfengiskaupa,
 
- bann við auglýsingum á áfengi og
 
- bann við sölu áfengis í almennum verslunum.
 

Þessum þáttum ber að viðhalda í þágu barna og ungmenna og efla þá sem miða að þvi að börn og ungmenni fái notið sín.

Oft var þörf en nú er nauðsyn að slá skjaldborg um börn okkar og ungmenni. Þeirra hagsmunir eiga að sitja fyrir öðrum og veigaminni."

Bandalag Íslenskra skáta, Barnahreyfing IOGT á Íslandi, Biskupstofa, BRAUTIN - bindindisfélag ökumanna, FÍÆT - félag Íslenskra æskulýðs- og tómstundafulltrúa, FRÆ - fræðsla og forvarnir, Heimili og skóli, Hvítabandið, IOGT á Íslandi, ÍSÍ – Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍUT-forvarnir, KFUM-K, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Kvenfélagasamband Íslands, SAMFO-Samstarf um forvarnir, SAMFÉS, Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum, Samtök skólamanna um bindindisfræðslu – SSB, UMFÍ, Ungmennahreyfing IOGT á Íslandi, VÍMULAUS ÆSKA – Foreldrahús og Vernd – fangahjálp.