Um þessar mundir minnist fangahjálpin Vernd fjörutíu og fimm ára afmælis síns en hún var stofnuð 1. febrúar 1960. Það voru konur sem áttu stærstan þátt í því að fangahjálpinni var ýtt úr vör og munaði þar mestu um styrka forystu frú Þóru Einarsdóttur. Mikilvægt er að gæta ætíð að upphafinu og hafa göfug markmið frumherjanna að leiðarljósi í starfi Verndar.

 
Fangahjálpin Vernd hefur eins og nafnið ber með sér það m.a. að markmiði að liðsinna föngum svo þeir geti fótað sig betur úti í lífinu í lok afplánunar. Þess vegna hefur Vernd rekið eigið áfangaheimili nánast allt frá fyrstu tíð og til þessa dags í dag.


 
Á áfangaheimili Verndar dvelja þau sem eru að koma úr fangelsum eða standa á einhvers konar tímamótum í lífi sínu og þurfa á aðstoð að halda. Síðustu tíu árin hafa fangar getað lokið afplánun sinni að hluta til á áfangaheimilinu og sumir allt að átta mánuðum. Um þetta var gerður á sínum tíma þjónustusamningur við Fangelsimálastofnun ríkisins en samstarf Verndar við hana hefur verið farsælt. Þetta fyrirkomulag styrkir fanga á göngunni út í lífið og eflir ábyrgð þeirra.
 
Þau sem dvelja á áfangaheimili Verndar stunda vinnu af krafti úti í þjóðfélaginu eða eru í skóla. Á þessum áratug sem þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði hafa á fimmta hundrað fangar dvalið á áfangaheimilinu um lengri eða skemmri tíma og hefur þeim farnast alla jafna vel. Úrræði sem þetta hefur sýnt sig og sannað og verður ekki frá því snúið heldur það aðeins bætt því alltaf má gera betur. Það er ekki aðeins fjárhagslegur ábati samfélagsins af vist fanga á áfangaheimilinu því fangelsisrekstur kostar sitt heldur og góður kostur fyrir fanga og fjölskyldur þeirra. Samfélagið hefur því í öllu tilliti verulegan hag af því að þessi kostur sé fyrir hendi og að vel og myndarlega sé að áfangaheimilinu staðið.
 
Áfangaheimilið er að flestu leyti sem hvert annað heimili þar sem heimilisfólk gegnir ákveðnum skyldum og verður að virða ákveðnar grundvallarreglur svo allt fari vel. Þá gangast fangar einnig undir ákveðin skilyrði sem lúta að dvöl þeirra á áfangaheimilinu og séu þau rofin lýkur viðkomandi afplánun sinni í fangelsi.
 
Mörg þeirra er hefja afplánun í fangelsi horfa strax í upphafi fangavistar til þessa möguleika og hefur hann því fólgna í sér mjög jákvæða hvatningu til að láta afplánunina í fangelsinu ganga vel fyrir sig enda kemst fangi ekki á áfangaheimilið hafi hann t.d. gerst nýlega brotlegur við reglur fangelsis. Tilvist áfangaheimilis Verndar hvetur þá til dáða innan fangelsis sem utan svo þeir verði nýtir þegnar samfélagsins og geti lifað hamingjusömu lífi.
 
Fangahjálpin hefur gefið út á fjórða áratug Verndarblaðið þar sem fjallað er um málefni fanga og fangelsa og kemur það að jafnaði út einu sinni á ári. Í því má finna margvíslegan fróðleik m.a. fræðigreinar, viðtöl og almennar fréttir sem snúa að málum fanga og fangelsa. Síðasta blað fjallaði einkum um konur og fangelsi.
 
Öllum þeim er vilja kynna sér nánar starfsemi Verndar er bent á heimasíðuna: vernd.is
 
Farsælt starf Verndar byggir á trausti félagsmanna, almennings, stjórnvalda og fanga. Fyrir það er þakkað af heilum huga á þessum tímamótum.
 
Sjá frétt http://www.kirkjan.is