Fanga­prest­ur Þjóðkirkj­unn­ar, fór í guðfræði vegna þess að hún taldi það vera gott al­hliða nám en fann sterka köll­un og lít­ur á starf sitt sem al­gjör for­rétt­indi. Hún hef­ur kynnst starfi Sam­hjálp­ar frá nokkr­um hliðum og tók meðal ann­ars þátt í kvenn­a­starf­inu Dorkas, sem hafði mik­il áhrif á hana. Stein­gerður Stein­ars­dótt­ir ræddi við hana í Sam­hjálp­ar­blaðinu. 

Hvernig stóð á því að ung­ur guðfræðinemi fór á sam­kom­ur hjá Fíla­delfíu­kirkj­unni og hóf að vinna með kvenna­hópi inn­an Hvíta­sunnusafnaðar­ins?

„Sam­hjálp á alltaf stórt pláss í hjarta mínu,“ seg­ir hún. „Ég kem sveita­stelpa ofan af Lauga­vatni árið 1985 til að hefja nám í guðfræði í Há­skól­an­um. Ég vissi ekki hvað ég vildi og fannst námið fjöl­breytt og spenn­andi. Þá var ekki al­veg eins mikið í boði að fara í heims­reisu meðan maður hugsaði sig um, svo að mín heims­reisa varð guðfræðin. Þar kynnt­ist ég Gunn­björgu Óla­dótt­ur, en hún og fjöl­skylda henn­ar störfuðu hjá Sam­hjálp. Þegar við höfðum kynnst bet­ur bauð hún mér á sam­kom­ur og mér fannst þetta ótrú­lega spenn­andi, fram­andi og ger­ólíkt því sem ég hafði al­ist upp við. Stund­um hef ég sagt að ég hafi farið í guðfræði því það vantaði svo mikið í þenn­an þátt. Á Laug­ar­vatni var eng­in kirkja í minni æsku, mess­ur voru haldn­ar í barna­skól­an­um á stór­hátíðum og svo fermd­ist ég í Skál­holti. En allt trú­ar­líf var mjög hefðbundið og gam­aldags. Í sveit­inni var kirkju­kór og bóndi úr sveit­inni, hann Andrés á Hjálms­stöðum, var org­an­isti. Þetta hafði vissu­lega sinn sjarma og var held ég nokkuð hefðbund­in ís­lensk trú­ar­upp­lif­un. Á sam­kom­un­um var hins veg­ar mikið fjör, tromm­ur, bassi og gít­ar og fólk söng af hjart­ans lyst.

Í fram­haldi af því að ég fór á sam­kom­ur buðu Gunn­björg og Ásta Jóns­dótt­ir mamma henn­ar mér að koma á Dorkas-fund. Þeir voru haldn­ir einu sinni í mánuði og það sem ég upp­lifði þar hafði djúp áhrif á mig. Þetta var svo hlýtt, nota­legt og fal­legt sam­fé­lag. Í hópn­um voru alls kon­ar kon­ur. Kon­ur sem störfuðu hjá Sam­hjálp, kon­ur sem sóttu sam­komurn­ar, kon­ur úr Hvíta­sunnu­söfnuðinum og kon­ur sem höfðu farið í gegn­um ótalmargt og glímt við fíkn. Ásta var líka eins og mamma okk­ar allra sem tók­um þátt í þessu starfi, ráðagóð og hlý. Þarna voru kon­ur sem höfðu verið í fang­elsi, verið heim­il­is­laus­ar og lent í mikl­um hremm­ing­um. Þær gáfu svo mikið af sér. Það eru þess­ar sig­ur­sög­ur sem hvetja mig áfram í starfi. Það er svo mik­il­vægt að missa aldrei sjón­ar á því að við meg­um aldrei gef­ast upp á nokk­urri mann­eskju.

Við lás­um sam­an upp úr Biblí­unni og svo voru vitn­is­b­urðir og fyr­ir­bæn­ir. Ég segi al­veg full­um fet­um að þarna lærði ég fyrst að biðja upp­hátt með öðrum. Margt gott og gagn­legt lærði ég í guðfræðinni sem mér þykir ákaf­lega vænt um en að biðja upp­hátt fyr­ir öðrum lærði ég í Sam­hjálp. Það hef­ur reynst mér ákaf­lega vel í öllu mínu starfi. Ég fann að þetta var ekki neitt yf­ir­nátt­úru­legt eða skrýtið held­ur bara opið sam­tal við Guð, að biðja fyr­ir öðrum og fá fyr­ir­bæn­ir. Það hef­ur borið mig í gegn­um starfið alla tíð.“

 

„Helgi­haldið er auðvitað stór hluti af starf­inu og rétt eins og ann­ars staðar er messa á jól­um og pásk­um og svo að meðaltali einu sinni í mánuði.“ Ljós­mynd/​Heiða Helga­dótt­ir

Köll­un­in er mjög sterk

En svo varðst þú sókn­ar­prest­ur og hvað tók þá við?

„Ja, ég varð eig­in­lega alls kon­ar prest­ur,“ seg­ir Sigrún og bros­ir. „Ég vígðist tutt­ugu og sex ára til Laug­ar­nes­kirkju sem aðstoðarprest­ur, eins og það hét þá. Í dag heit­ir það bara prest­ur. Mjög fljótt fann ég köll­un til að starfa utan safnaðar­ins í sérþjón­ustu og fékk tæki­færi til að leysa af á Land­spít­al­an­um um tíma. Það sann­færði mig um að þetta vildi ég gera, svo ég fór út til Nor­egs og lærði sál­gæslu.

Við vor­um mun leng­ur en við ætluðum okk­ur í Nor­egi, sex ár. Þegar við kom­um heim varð ég prest­ur í Árbæj­ar­kirkju og var þar í fimmtán ár. Eft­ir það ætlaði ég að hætta að vera prest­ur og sagði starfi mínu lausu. Fór að reka versl­un og vann á út­far­ar­stofu en svo er það þessi köll­un, hún er mjög sterk og ég fann að mig langaði aft­ur til baka í prests­starfið. Mig langaði hins veg­ar ekki í hefðbundið safnaðarstarf, þannig að þegar starf fanga­prests var aug­lýst fann ég að þetta var það sem ég vildi.“

Þú byrjaðir hálfó­viss í guðfræðinni en fannst svo þessa sterku köll­un. Var ein­hver tíma­punkt­ur þar sem þú sann­færðist eða viss­ir að þetta væri það sem þú vild­ir?

„Ég var mikið á báðum átt­um,“ seg­ir hún. „Ég fann strax að mig langaði að halda áfram í nám­inu, bæði vegna þess að þetta var áhuga­vert og út af fé­lags­skapn­um, það var svo skemmti­legt fólk þarna. Það var eig­in­lega ekki fyrr en á síðasta ár­inu að ég fann sterkt að þetta væri það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf verið sann­færð um að lífið hef­ur upp á ótal mögu­leika að bjóða og ég vissi strax að þetta nám er það fjöl­breytt að það nýt­ist í margt. Ég sá fyr­ir mér að ég gæti farið að kenna, farið í ráðgjöf eða eitt­hvað slíkt. Tíðarand­inn var raun­ar ann­ar þá og ekki marg­ar kon­ur sem voru fyr­ir­mynd­ir í prests­starf­inu. Það er svo­lítið sú deigl­an líka og gerði starfið spenn­andi fyr­ir mér.“

Er þetta enn mikið karlastarf eða hef­ur það breyst?

„Þær ræt­ur eru mjög sterk­ar. Til að mynda áttaði ég mig ekki á því sjálf að gagn­vart mínu starfi sem fanga­prest­ur var til staðar ákveðið glerþak og marg­ir urðu mjög hissa og sum­ir jafn­vel reiðir þegar ég var ráðin. Ef eitt­hvert starf í kirkj­unni er frá­tekið fyr­ir karla er það þetta, var sagt, og það kom mér mjög á óvart þegar ég heyrði það. Hélt að það væri ekki leng­ur svo árið 2020. En það var ekki eins og ég væri fyrsta kon­an til að starfa í fang­elsi.“

Hrein og tær ein­lægni

„Sér­stak­ur fanga­prest­ur hef­ur verið starf­andi frá ár­inu 1970. Starfs­vett­vang­ur fanga­prests eru fang­els­in og þjón­usta við fanga, aðstand­end­ur þeirra og aðra er láta sig eitt­hvað varða um hag þeirra,“ seg­ir í starfs­lýs­ingu á vefn­um kirkj­an.is. Hvað finnst þér helst fel­ast í starf­inu?

„Lang­stærsti hlut­inn er sál­gæsla og sam­töl. Að fá að vera prest­ur með þetta er­indi í þessu starfi er al­gjör for­rétt­indi og líka að fá að koma þarna inn og fá að vera sam­ferða fólk­inu ein­hvern smá­spöl. Sum­ir vinna við að dæma og aðrir að greina en ég kem þarna og er bara sam­ferða stutt­an veg­spotta. Trú­in er auðvitað mitt leiðarljós en það er ekki þar með sagt að við séum alltaf að tala um trúna. Við töl­um al­veg eins um veðrið og lífið í allri sinni mynd.“

Hef­ur þú ein­hvern tíma haldið at­hafn­ir í fang­els­inu?

„Helgi­haldið er auðvitað stór hluti af starf­inu og rétt eins og ann­ars staðar er messa á jól­um og pásk­um og svo að meðaltali einu sinni í mánuði. Þær eru mjög vel sótt­ar og fólk er ekk­ert að velta fyr­ir sér trú­ar­deild­um eða öðru, það bara mæt­ir til að eiga sam­an góða stund. Er­indið er alltaf það sama en þetta er að sumu leyti ólíkt. Oft er þar meiri hreyf­ing á fólki út og inn en líka þessi djúpa ein­lægni sem ég tengi við Dorkas-hóp­inn, þessi hreina tæra ein­lægni í trúnni sem er svo fal­leg. En varðandi gift­ing­ar eða aðrar at­hafn­ir mæli ég með að fólk bíði nema um al­var­leg veik­indi eða eitt­hvað slíkt sé að ræða. Að eiga þann dag og þá stund í frels­inu skipt­ir svo miklu máli.“

Þakka Sam­hjálp lífs­björg­ina

Sérðu fyr­ir þér að halda áfram lengi í þessu starfi?

„Nei, ekki endi­lega. Það eru heil­mikl­ar fram­kvæmd­ir að fara í gang á Litla-Hrauni. Meðal ann­ars er verið að koma upp betri aðstöðu til að tala við fólk í ein­rúmi og mig lang­ar að vera með í þeim breyt­ing­um. Hvað sjálfa mig varðar held ég að ekki sé heppi­legt að vera allt of lengi í þessu starfi, en það eru ákveðnir þætt­ir sem mig lang­ar að sjá verða að raun­veru­leika áður en ég hætti.“

Sam­hjálp gef­ur öll­um föng­um á land­inu jóla­gjaf­ir. Hef­ur þú í starfi þínu orðið vör við viðbrögð við því?

„Sam­hjálp vinn­ur ein­fald­lega svo merki­legt starf. Í því sem að mér snýr er teng­ing­in við Kaffi­stof­una sterk. Starfið þar er lífs­björg fyr­ir svo marga. Við höf­um öll þess­ar grunnþarf­ir og ég heyri talað af svo mik­illi hlýju og virðingu um mót­tök­urn­ar þar. Svo eru auðvitað þau sem fá að ljúka afplán­un í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Fólk sem fer í meðferð þar fær að upp­lifa eitt­hvað al­veg sér­stakt. Það eru ýmis tengsl við fang­els­in og sum­ir fang­ar tala um Sam­hjálp sem al­gjöra lífs­björg. Ég finn líka að fólk sem vill fá fyr­ir­bæn kem­ur oft úr þessu um­hverfi og það er svo fal­legt,“ seg­ir Sigrún að lok­um.