Skynsamlegt væri að leita til einkaaðila um fjármögnun og byggingu nýs húsnæðis fyrir fangelsi á Hólmsheiði, ef farið yrði af stað með þá framkvæmd bráðlega, eins og staðan er í ríkisfjármálum í dag, að sögn Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Þetta sagði hann í morgunútvarpi Rásar 2 á föstudaginn.
Í fréttaskýringu um fangelsismálin í Morgunblaðinu í dag segir, að þetta stangist á við það sem Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og flokksbróðir Steingríms, hefur sagt um fangelsið, en í aprílbyrjun vísaði hann fréttum þess efnis á bug og sagði ekki stefnt að öðru en opinberri framkvæmd.
Strax þá hermdu heimildir Morgunblaðsins að ágreiningur væri um málið milli ráðuneyta þeirra Steingríms og Ögmundar. Útboðsgögn hafa nú verið tilbúin í marga mánuði og beðið hefur verið eftir útboðinu.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir aðspurður að mikið hagræði yrði að nýju og stóru fangelsi en segir það ekki sitt hlutverk að hafa skoðun á fjármögnun þess.
 
Frétt mbl.is