Nefnd sem menntamálaráðherra skipaði til að vinna að stefnumótun í menntunarmálum fanga lítur svo á að nám í fangelsi, ásamt öðrum meðferðarúrræðum sem í boði eru, gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og bendir á að margar rannsóknir sýni fram á að menntun í fangelsi hafi fyrirbyggjandi áhrif.

Hún leggur því til að fangar verði hvattir til að nýta tímann í fangelsi til náms og þeim standi til boða kynning á námsmöguleikum, mat á fyrra námi, mat á raunfærni, áhugasviðsrannsókn, aðstoð við gerð námsáætlunar og við að skipuleggja frekara nám.

 

Telur nefndin þýðingarmikið að boðið sé upp á öfluga sérkennslu og einstaklingsmiðaða ráðgjöf. Góð aðstaða til að stunda nám þurfi að vera til staðar í öllum fangelsum og tryggja þarf föngum aðgang að náms- og starfsráðgjöf, tölvum, bókasafni og nettengingu þar sem það á við.

Leggur til að Fjölbrautarskóli Suðurlands gegni áfram lykilhlutverki

Nefndin leggur til að Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi gegni áfram lykilhlutverki í menntun fanga á Litla-Hrauni og að skólanum verði einnig falið það hlutverk að sjá til þess að föngum almennt standi til boða að stunda nám. Til að ná þessum markmiðum leggur nefndin til að náms- og starfsráðgjafi verði ráðinn að Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi hið fyrsta, sem veiti jafnframt náms- og starfsráðgjöf til fanga á öllu landinu.

Leggur til að nettenging verði heimiluð í öllum fangelsum

Nefndin telur að erfitt sé að stunda nám í dag nema hafa aðgang að Netinu og leggur til að takmörkuð nettenging verði fyrir hendi í öllum fangelsum og rýmri heimildir í opnum fangelsum. Rýmka þurfi heimild til netnotkunar í lögum um fullnustu refsinga.

Nefndin telur að bæta þurfi aðstöðu til verknáms og starfsþjálfunar í fangelsum og skapa þarf störf sem geta nýst til starfsþjálfunar og þannig verið hluti af námi. „Föngum sem kjósa að stunda verknám verði gefið tækifæri til starfsþjálfunar utan fangelsis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá beri að leita til atvinnufyrirtækja í nánasta umhverfi fangelsa um starfsnám fyrir þá fanga sem hafa leyfi til náms utan fangelsis."

Íslenskukennsla fyrir útlenda fanga

Hugað verði að íslenskukennslu fyrir erlenda fanga sem dvelja um langan tíma í íslenskum fangelsum og að möguleikum fanga af erlendum uppruna sem munu fara úr landi að lokinni afplánun á að stunda fjarnám við menntastofnanir í heimalöndum sínum.

Í nefndinni áttu sæti Ásgerður Ólafsdóttir, sérfræðingur, menntamálaráðuneyti, formaður, Dís Sigurgeirsdóttir, lögfræðingur, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur, Fangelsismálastofnun ríkisins og Sigurður Sigursveinsson, skólameistari, Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Menntamálaráðherra og dóms-og kirkjumálaráðherra kynntu skýrslu nefndarinnar á fundi ríkisstjórnar Íslands í morgun. Strax verður hafist handa við að hrinda tillögum nefndarinnar í framkvæmd og fyrsta verkið verður að fela Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi að auglýsa stöðu náms- og starfsráðgjafa, sem eingöngu vinni að málefnum fanga.