1. gr.

Dómþoli, sem afplánar fangelsisrefsingu eða vararefsingu fésektar getur sótt um að afplána hluta hennar á áfangaheimili Verndar, Reykjavík. Að jafnaði skal dvalartími á áfangaheimilinu ekki vera styttri en 3 vikur og skal dómþoli hafa afplánað a.m.k. 1/3 hluta afplánunartímans í fangelsi eða með samfélagsþjónustu áður. Þó er heimilt að leyfa dómþola að fara fyrr þegar svo stendur á sem greinir í 1. mgr. 5. gr. reglna þessara.

Þegar dæmd refsing er eitt ár eða minna getur dvalartími á áfangaheimilinu orðið allt að 3 mánuðir. Þegar dæmd refsing er yfir eitt ár lengist dvöl á áfangaheimilinu um 2,5 daga fyrir hvern dæmdan mánuð og getur orðið 7 mánuðir við 5 ára fangelsisrefsingu. Eftir það lengist dvölin um 5 daga fyrir hvern dæmdan mánuð og getur orðið að hámarki 18 mánuðir þegar dæmd refsing er 10 ára og 6 mánaða fangelsi.

2. gr.

Aðili sem afplánar refsivist á áfangaheimili Verndar skal reglulega stunda vinnu, nám, starfs­­þjálfun eða meðferð sem Fangelsismálastofnun hefur samþykkt og er liður í aðlögun hans að sam­félaginu að nýju. Vinnuveitanda, skólayfirvöldum eða meðferðaraðilum skal gert ljóst að við­kom­andi sé að afplána refsivist og hafi samþykkt að eftirlit verði haft með því að hann stundi vinnu, nám, starfs­þjálfun eða meðferð.

Aðili skal greiða dvalar- og fæðiskostnað til áfangaheimilisins eins og hann er ákveðinn hverju sinni. Sama gildir um greiðslu annars kostnaðar sem hlýst af því að stunda vinnu, nám, starfs­þjálfun eða meðferð s.s. ferðakostnað og námsgögn.

3. gr.

Umsókn um afplánun hluta refsivistar á áfangaheimili Verndar, skal senda til Fangelsismála­stofnunar ríkisins. Í umsókn skal m.a. tilgreina væntanlegan vinnustað eða fyrirhugað nám, starfs­þjálfun eða meðferð. Áður en umsókn er tekin til endanlegrar ákvörðunar skal leggja fram skriflega staðfestingu vinnuveitanda um ráðningu umsækjanda eða sambærilegar upplýsingar um nám, starfs­­þjálfun eða meðferð.

Fangelsismálastofnun metur hvort umsækjandi uppfylli skilyrði til afplánunar á áfangaheimil­inu. Telji stofnunin umsækjanda ekki uppfylla skilyrði til vistunar þar er sú ákvörðun kæranleg til dómsmálaráðuneytisins. Auk samþykkis Fangelsismálastofnunar er afplánun á áfangaheimilinu háð því skilyrði að húsnefnd Verndar samþykki umsóknina. Telji húsnefnd umsækjanda ekki hæfan til afplánunar á áfangaheimilinu er sú ákvörðun endanleg.

Það er forsenda fyrir því að aðili fái að afplána á áfangaheimilinu að hann samþykki þau skil­yrði sem gilda um vistun þar og undirriti samning þar um.

4. gr.

Skilyrði þess að unnt sé að fallast á afplánun á áfangaheimili Verndar eru:

  1. Að aðili hafi ekki gerst sekur um agabrot í refsivistinni síðustu 3 mánuðina og að hegðun hans hafi að öðru leyti verið til fyrirmyndar.
  2. Strjúki aðili úr gæsluvarðhaldi eða afplánun í fangelsi skulu líða a.m.k. tvö ár þar til hann telst hæfur til dvalar á Vernd.
  3. Að í refsivörslukerfinu sé ekki til meðferðar mál þar sem aðili er kærður fyrir refsiverðan verknað.
  4. Að aðila hafi að jafnaði ekki verið vikið af áfangaheimilinu í núverandi afplánun.
  5. Að aðili teljist hæfur til dvalar á áfangaheimilinu.
  6. Að ekki mælist áfengi í öndunarsýni eða ólögleg ávana- eða fíkniefni greinist í þvagprufu aðila sem hann afhendir áður en til vistunar á áfangaheimilinu kemur.

Víkja má frá skilyrðum a-, b- og c-liðar ef mjög sérstakar ástæður mæla með því, s.s. ungur aldur fanga, mjög smávægileg agabrot í refsivistinni eða ef mál í refsivörslukerfinu hafa dregist óhóf­lega og drátturinn er ekki af völdum fangans. Það sama á við ef líklegt er að mál endi með skilorðs­bundnum dómi eða sekt.

Víkja má frá skilyrðum d-liðar hafi hegðun aðila verið með ágætum í a.m.k. þrjá mánuði eftir komu í fangelsið á ný, hann þegið viðeigandi meðferð í afplánun og tekist á við vímuefnavanda sinn, hafi hann verið til staðar og að uppfylltum öllum öðrum skilyrðum 4. gr. fyrir vistun á áfanga­heimilinu.

5. gr.

Miða skal við að aðili hefji dvöl á áfangaheimili Verndar á mánudegi eða fimmtudegi kl. 18.00. Ef hámarkstími á Vernd reiknast vera frá:

Þriðjudegi, skal vistunartími vera frá mánudeginum á undan.
Miðvikudegi, skal vistunartími vera frá mánudeginum á undan. 
Föstudegi, skal vistunartími vera frá fimmtudeginum á undan.
Laugardegi, skal vistunartími vera frá fimmtudeginum á undan.
Sunnudegi, skal vistunartími vera frá fimmtudeginum á undan.

Forsvarsmaður Verndar tekur á móti aðila, kynnir honum húsreglur og vísar til herbergis.

Aðila er óheimil útivist alla daga frá kl. 23.00 – 07.00.

Aðila er óheimilt að fara af landi brott meðan á dvöl á Vernd stendur. Geri hann það verður litið á slíkt sem strok úr afplánun.

Aðili sem afplánar refsivist á áfangaheimilinu skal fylgja öllum almennum húsreglum sem þar gilda auk eftirfarandi reglna:

  1. Aðili skal mæta í hús á kvöldverðartíma mánudaga til föstudaga fyrir kl. 18.00 og dvelja þar til kl. 19.00.
  2. Ef aðili sækir ekki vinnu, nám, starfsþjálfun eða meðferð á virkum degi vegna veikinda eða af öðrum ástæðum er honum óheimilt að yfirgefa áfangaheimilið nema í samráði við hús­vörð og þá í skamman tíma.
  3. Aðila er óheimilt að neyta áfengis, ávana- og fíkniefna meðan hann dvelur á áfangaheimil­inu. Jafnframt eru öll lyf óheimil nema þau sem ávísað er af lækni á viðkomandi fanga og samþykkt af Vernd.
  4. Aðila er skylt að hlíta fyrirmælum húsvarðar, framkvæmdastjóra Verndar og/eða Fangelsis­mála­stofnunar.
  5. Aðila er skylt að láta í té öndunar- og/eða þvagsýni vegna áfengis- eða vímuefnaeftirlits þegar þess er óskað.

Heimilt er, þegar sérstaklega stendur á, að setja það sem skilyrði að aðili hafi á sér búnað svo unnt sé að fylgjast með ferðum hans.

Almenn ákvæði laga um fullnustu refsinga og reglugerða settra samkvæmt þeim gilda um afplánun á áfangaheimili Verndar.

Brot á reglum þessum, húsreglum Verndar svo og kæra fyrir refsiverða hegðun getur leitt til þess að Fangelsismálastofnun ákveði að flytja aðila til áframhaldandi afplánunar í fangelsi.

6. gr.

Reglur þessar eru settar af Fangelsismálastofnun ríkisins og byggjast á heimild í 3. mgr. 31. gr., sbr. 3. mgr. 98. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 og gildandi samkomulagi milli stofn­unar­­innar og félagasamtakanna Verndar á hverjum tíma og öðlast þær þegar gildi.

Jafnframt eru felldar úr gildi reglur nr. 331/2018um afplánun á áfangaheimili Verndar.

Fangelsismálastofnun ríkisins, 8. apríl 2021.

Páll E. Winkel.

 

Smelltu hér til að niðurhala pdf skrá.