Framkvæmdastjóri Verndar Þráinn Farestveit ásamt einum stjórnarmanni samtakanna Guðrúnu Þorgerði Ágústsdóttir höfðu mælt sér mót við forstöðumann Batahúss Agnar Bragason og Jón Ólafsson. Áfangaheimilið stendur við Ránargötu 11 en forstöðumaður heimilisins segir að markmiðið sé að hjálpa fyrrverandi dómþolum að aðlagast samfélaginu á ný og koma í veg fyrir endurtekin afbrot. Búsetu í Batahúsi er ætlað að hjálpa þeim þar búa að afla sér fræðslu/menntunar til að auðvelda þeim aftur innkomu á vinnumarkað. Átta herbergi og stúdíóíbúð í og við Batahús eru mjög snyrtileg og mikill áhugi fyrir velferð og stöðu þeirra sem þar búa. Agnar forstöðumaður Batahússins segir að tilgangurinn sé að bjóða fyrrverandi dómþolum upp á húsaskjól og stuðning. Þar verður þeim einnig boðið upp á aðstoð til að vinna gegn fíknivanda og endurteknum afbrotum. Einnig er þar í boði hugleiðsla, bataganga, núvitund og „svett“ sem eru nokkur af þeim lykil atriðum sem nefnd voru í þessu létta spjalli sem við áttum við þá félaga. Batahús er einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar þar sem einstaklingum er boðin heimilisaðstaða til allt að tveggja ára eða eftir atvikum til skemmri tíma segir Agnar. Unnið er með einstaklingum á jafningjagrundvelli út frá hugmyndum um áfallamiðaða nálgun. Eitt af megin markmiðum Batahúss er að skapa aðstæður þannig að einstaklingur geti beint sjónum sínum frá neyslu og afbrotum að sjálfsstyrkingu, vinnu, námi og samfélagslegri virkni. Aðstæður eru skapaðar með virðingu og kærleika að leiðarljósi. Félagið Bati sem stendur að baki Batahúss eru frjáls félagasamtök. Stofnun Batahússins byggir á skýrslu sem starfshópur á vegum félagsmálaráðherra skilaði árið 2019. Þar var talin þörf á frekari úrræðum fyrir dómþola eftir að afplánun lýkur. Agnar segir að með Batahúsinu sé fyrst og fremst verið að skapa jarðveg sem notendur verða sjálfir að rækta. Vernd fangahjálp og Batahús ræddu um mikilvægi þess að samþætting ólíkra kerfa væri komið á í ljósi reynslunnar og nauðsynlegt væri að fá alla að sama borði til þess að skapa grunn að frekari endurhæfingu dómþola. Þess ber að geta að eitt af áfangaheimilum Verndar var um árabil rekið að Ránargötu 10 sem er húsið sem stendur beint á móti Batahúsi.