Alvarlegt ástand ríkir innan fangelsa hér á landi vegna fjölda alvarlega geðsjúkra einstaklinga sem vistaðir eru þar.

Þetta segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri. Hann segir Fangelsismálastofnun hafa rætt vandann árum saman fyrir daufum eyrum ráðamanna.

Sigurður Örn Hektorsson, yfirlæknir nýs geðheilbrigðisteymis fangelsa á Íslandi, benti á vandann í nýjasta tölublaði Læknablaðsins en hann segir fjölda alvarlega geðsjúkra einstaklinga í fangelsunum hafa komið að óvart. Hann telur vanta úrræði fyrir þennan hóp, fangelsi séu ekki góður staður fyrir veikt fólk.

 

Óboðlegt fyrir aðra fanga

 

Páll tekur heilshugar undir með Sigurði og segir stofnun geðheilbrigðisteymisins vera rétt skref.

„Þetta er alvarlegt ástand og óboðlegt fyrir aðra vistmenn, aðra fanga. Þetta er óboðlegt fyrir fangaverði sem eru ekki menntaðir heilbrigðisstarfsmenn en fyrst og síðast er þetta óboðlegt fyrir þá sjúklinga sem dvelja á okkar vegum en ættu með réttu að vera á viðeigandi stofnun vegna þeirra sjúkdóms,“ segir Páll sem vonast eftir að niðurstöður nýja geðheilbrigðisteymið hreyfi við málunum.

Þeir sjúklingar sem þurfi á aðstoð allan sólarhringinn fái hana. „Fangelsin eru ekki rekin þannig að boðið sé upp á heilbrigðisþjónustu allan sólarhringinn. Fangelsi eru ekki sjúkrastofnun.“

 

Tveir til átta hverju sinni

 

Aðspurður hversu margir alvarlega geðsjúkir einstaklingar séu innan veggja fangelsanna segir Páll það mismunandi eftir tímum. Þeir séu þó á bilinu tveir til átta að hverju sinni og að það hafi skapað töluverð vandamál í fangelsiskerfinu.

„Það þarf að veita mjög sérhæfa þjónustu fyrir einstaklinga sem eru í geðrofi eða sem hafa bæði verið í neyslu vímuefna og glíma þar að auki við alvarlega geðræna sjúkdóma. Við getum ekki boðið upp á þannig þjónustu í fangelsunum,“ segir Páll.

 

Ógnar öryggi starfsfólks

 

Fjögur fangelsi eru rekin á Íslandi og þar séu allskonar fangar vistaðir. „Það er erfitt að bjóða öðrum föngum upp á að vistast með einstaklingum sem eru alvarlega andlega veikir,“ segir Páll og bendir sérstaklega á veika einstaklinga sem hafa verið dæmdir fyrir alvarleg ofbeldisbrot.

„Þetta hefur ógnað öryggi starfsfólks hjá mér og fangaverðir eru hvorki menntaðir né launaðir til að takast á við þess lags áskoranir,“ segir Páll en hann er bjartsýnn á að fundin verði lausn á vandamálinu. Það liggi á því þar sem vandinn er aðkallandi.