„Við erum að vinna við að greina þessar upplýsingar og við munum á næstu vikum taka ákvarðanir um hvort að við þurfum að fá frekari upplýsingar um þessi atriði sem ég er að skoða," segir Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis, um heimsókn sína á Litla-Hraun.Róbert fundaði með starfsfólki fangelsisins, heilbrigðisstarfsfólki sem sinnir heilbrigðisþjónustu í fangelsinu, fulltrúum frá Fangelsismálastofnun og innanríkisráðuneytinu og Afstöðu, félagi fanga.Tilgangur heimsóknarinnar er að leggja mat á hvort aðstæður í fangelsinu, aðbúnaður fanga og verklag við ákvörðunartöku um réttarstöðu þeirra samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, Mannréttindasáttmála Evrópu, laga og reglugerða um fullnustu refsinga auk meginreglna stjórnsýsluréttar. Hann hafði til hliðsjónar skýrslu CPT-nefndarinnar (Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu) sem gerð verður opinber á næstu vikum.Róbert hitti einnig að máli fanga sem óskuðu eftir samtali. Hann segist vera að íhuga hvort tilefni sé til að eiga frekari fundi. „Þá með fulltrúum fangelsisyfirvalda og þá hugsanlega innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins og þá sérstaklega hvað varðar heilbrigðismálefni fanga."