Fá allir að vera með?

HH

Þegar einstaklingar ljúka afplánun í fangelsi standa þeir oft frammi fyrir miklum áskorunum við að snúa aftur til samfélagsins. Ein stærsta hindrunin er að finna vinnu. Fordómar og vantraust í samfélaginu gera það að verkum að margir atvinnurekendur veigra sér við að ráða fólk sem hefur afplánað dóm, jafnvel þótt viðkomandi hafi tekið sig á og vilji byggja upp nýtt líf. Þetta veldur vítahring þar sem einstaklingar sem vilja breyta til fá ekki tækifæri, sem eykur hættuna á að þeir lendi aftur í afbrotum. Hér þarf breyting að eiga sér stað, og fyrirtæki og stofnanir þurfa að axla meiri samfélagslega ábyrgð. Ef við skoðum myndina hér að neðan má sjá hlutfall þeirra einstaklinga sem lenda aftur í fangelsi, eru dæmdir að nýju eða koma aftur við sögu lögreglu. Það sést greinilega að stór hluti snýr aftur inn í réttarkerfið. Hins vegar lækkar þetta hlutfall verulega ef viðkomandi afplánar refsingu með samfélagsþjónustu. Hvað segir þetta okkur?

Það bendir til þess að samfélagsþjónusta gefi einstaklingnum tilgang – eitthvað jákvætt til að stefna að. Á Norðurlöndunum hafa ýmsar lausnir verið innleiddar til að auðvelda endurkomu einstaklinga í samfélagið eftir afplánun. Dæmi verða tekin frá okkar helstu fyrirmyndum. Í Danmörku er í gangi verkefnið High:five, sem hófst árið 2006 og tengir fyrrverandi fanga við fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu fá fjárhagslega hvata frá danska ríkinu, svo sem skattaívilnanir og styrki. Verkefnið hefur skilað góðum árangri: Um 70% þeirra sem fara í gegnum verkefnið fá fasta vinnu eða hefja nám. Þetta hefur leitt til þess að færri falla aftur í afbrot, sem sparar ríkinu stórar fjárhæðir í fangelsiskostnaði. Í Noregi er mikil áhersla lögð á endurhæfingu frekar en refsingu, og verkefni eins og WayBack veita einstaklingum með sakaferil stuðning í atvinnuleit og húsnæðismálum. Í Svíþjóð vinnur sænska fangelsismálastofnunin Kriminalvården náið með atvinnulífinu til að tryggja að fangar fái starfsþjálfun sem nýtist þeim þegar þeir ljúka afplánun. Þar hafa sum sveitarfélög einnig tekið upp þá stefnu að setja kvóta á ráðningar fyrrverandi fanga í opinber störf. Dæmi um ferlið hjá Dönum High:five hefur samband við yfirvöld í þeim landshluta þar sem starf býðst og er þeim gert að skipuleggja tveggja vikna ólaunað þjálfunartímabil sem hefst við lausn brotamanns.

Á sama tíma útvegar High:five fjármagn til að styðja við starfandi leiðbeinanda á vinnustaðnum meðan á þessu tímabili stendur. Yfirvöld undirbúa skrifleg gögn en High:five aðstoðar fyrirtækið við undirskriftir og skil á skjölum til viðeigandi yfirvalda. Vinnustaðurinn úthlutar leiðbeinanda sem hefur fengið viðeigandi þjálfun. Hann sér um að aðstoða einstaklinginn á upphafsstigi starfsins og gengur úr skugga um að allt gangi samkvæmt áætlun. Verkefnastjóri viðheldur reglulegu sambandi við leiðbeinandann. Eftir tvær vikur tilkynnir fyrirtækið/stofnunin High:five um að það hyggist ráða einstaklinginn og þurfi ekki frekari aðstoð. Fyrirtækinu/ stofnuninni er þó gert ljóst að það geti ávallt haft samband við High:five ef upp koma óvænt vandamál í tengslum við nýja starfsmanninn. Þetta virkar Tölulegar upplýsingar sýna að þessar aðferðir virka. Þær minnka líkur á endurkomu og stuðla þar af leiðandi að betra samfélagi. Það er einnig hagkvæmara fyrir samfélög að auðvelda einstaklingum að finna vinnu en að loka þá aftur inni, en endurkomutíðni fyrri fanga er oft há hjá þeim sem fá ekki stuðning eftir afplánun. Ef fyrirtæki og stofnanir tækju meiri samfélagslega ábyrgð væri það ekki aðeins til góðs fyrir einstaklingana sjálfa heldur einnig fyrir efnahag og samfélagslega velferð. Af hverju ættu íslensk fyrirtæki og stofnanir að taka meiri ábyrgð?

Á Íslandi eru að meðaltali 120-140 fangar í afplánun hverju sinni, og árlega ljúka tugir einstaklinga afplánun. Þrátt fyrir að margir þeirra vilji snúa við blaðinu og hefja nýtt líf standa þeir frammi fyrir fordómum og skorti á atvinnu- og menntunartækifærum. Ríkið gæti hvatt fyrirtæki með skattaafslætti, líkt og gert er í Danmörku. Fangelsin gætu veitt markvissari starfsþjálfun svo að einstaklingar komi út með færni sem nýtist á vinnumarkaði. Að lokum mætti efla fræðslu og vitundarvakningu um að fólk sem hefur afplánað dóm hafi rétt á nýju upphafi. Samfélagið á ekki að dæma fólk til ævilangrar útilokunar frá vinnumarkaði fyrir mistök sem það hefur gert í fortíðinni. Við eigum að leggja okkur fram við að skapa samfélag sem styður fólk til að gera betur og gefur því tækifæri til að byggja sig upp og koma inn í samfélagið á ný sem virkir og ábyrgir einstaklingar. Það er kominn tími til að íslensk fyrirtæki og stofnanir axli meiri samfélagslega ábyrgð og veiti fólki sem hefur lokið afplánun raunverulegt tækifæri til að byrja upp á nýtt. Einfaldar aðgerðir gætu skipt miklu máli Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi hafa mikið svigrúm til að gera betur í þessum málum. Það er hægt að fara eftir fyrirmynd nágrannaþjóða okkar, sem oft eru töluvert á undan í þróun úrlausna þess málaflokks sem um ræðir. Eins er mikilvægt að nefna atriði á borð við skattaafslátt fyrir fyrirtæki sem ráða fyrrverandi fanga, starfsþjálfun og menntun innan fangelsa, þannig að fangar útskrifist með atvinnuhæfa færni. Aukinn stuðningur við atvinnuleit eftir afplánun væri einnig jákvætt skref. Að lokum Ef Ísland ætlar að minnka endurkomu og hjálpa þessum viðkvæma hópi að fóta sig í samfélaginu þarf að gera breytingar. Það er ekki nóg að sleppa fólki út úr fangelsi án stuðnings. Við þurfum að tryggja að það hafi raunveruleg tækifæri á vinnumarkaði og geti byggt sér betra líf. Það er kominn tími til að íslensk fyrirtæki og stofnanir axli meiri samfélagslega ábyrgð.

Allir eiga skilið annað tækifæri – leyfum öllum að vera með! Gréta Mar Jósepsdóttir Höfundur er stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur og sjálfboðaliði Rauða kross Íslands.

 

Þráinn Farestveit

Sr. Hjalti Jón Sverrisson nýr fangaprestur

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti í starf fangaprests þjóðkirkjunnar.

Sr. Hjalti Jón Sverrisson hefur verið ráðinn í stöðuna.

Hann er fæddur í Reykjavík þann 13. júlí árið 1987.

Foreldrar hans eru Ásta María Hjaltadóttir og Sverrir Gestsson.

Maki hans er Eva Björk Kaaber og dóttir hennar er Theodóra Guðrún Kaaber.

Hjalti Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2007.

Hann lauk embættisprófi í guðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands árið 2018.

Hann var vígður til prestsþjónustu við Laugarneskirkju árið 2018.

Árið 2020 lauk Hjalti Jón viðbótardiplómunámi í sálgæslufræðum við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Hann var ráðinn sjúkrahúsprestur árið 2021 og starfaði á Landspítala til ársins 2024.

Auk þess sinnti hann afleysingu sem prestur í Laugardalsprestakalli veturinn 2023-2024.

Hjalti kom um árabil að starfi Seekers undir handleiðslu sr. Toshiki Toma og hefur í starfi sínu látið sig varða málefni fólks á flótta.

Hann hefur leyst af sem fangaprestur frá því í september 2024.

Hjalti Jón hefur um árabil komið að hópastarfi með syrgjendum á vettvangi Sorgarmiðstöðvar sorgarmidstod.is og Arnarins arnarvaengir.is

Hjalti hefur komið að málefnum Verndar frá því í september 2024 og setið í húsnefnd samtakanna frá þeim tíma. Hjalti hefur á þessum tíma sýnt að hann

hefur ástríðu fyrir starfi sínu.

 

Þráinn Farestveit

Fangelsin eru sprungin

„Ég hef aldrei séð þetta svona svaka­legt“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar 25. apríl 2025 19:01

Heiðar Smith formaður fangavarða segir fangelsin á landinu sprungin.Vísir

Fangelsin eru sprungin og full af fólki sem á ekki heima þar, eins og einstaklingum sem á að vísa úr landi og fólki með alvarlegar geðraskanir að sögn formanns Félags fangavarða. Ástandið hafi aldrei verið eins slæmt. Yfirvöld þurfi að bregðast við því öryggi fanga, starfsmanna og almennings sé ógnað.

Fangelsismálastofnun rekur fjögur fangelsi með tæplega hundrað og sextíu aplánunarplássum. Heiðar Smith formaður fangavarða segir þau öll sprungin.

„Það er allt yfirfullt hjá okkur. Það er nánast ekkert laust fangapláss á landinu. Þetta hættuleg staða því ef það koma upp alvarleg atvik þar sem fólk þarf að sitja í fangelsi þá höfum við ekki pláss til að taka á móti því,“ segir Heiðar.

Hann segir einkum tvær ástæður fyrir stöðunni. 

„Fólki sem hefur verið vísað frá landinu er látið bíða í fangelsum eftir brottvísunum í stað þess að stjórnvöld komi á öðru brottvísunarúrræði. Þetta fólk á ekki heima í fangelsum landsins. Þá eru ákveðnir einstaklingar með alvarlegar og fjölþættar geðraskanir inni í fangelsiskerfinu sem við höfum margoft bent á að séu ekki hæfir til þess og þyrftu að vera í annars konar úrræðum,“ segir Heiðar.  

Hann segir ástandið skapa aukið álag á allt kerfið. 

„Fangaverðir eru ekki sérfræðingar í geðheilbrigðisfræðum. Við höfum ekki tíma eða þekkingu til að sinna þessum veiku einstaklingum sem býr svo aftur til aukið álag fyrir þá og samfanga þeirra og okkur,“ segir hann. 

Fram hefur komið að sárlega vantar úrræði fyrir einstaklinga í slíkri stöðu. 

Tifandi tímasprengjur á götum borgarinnar - Vísir

Koma hefði mátt í veg fyrir manndráp hefði hið opinbera gert viðeigandi ráðstafanir í málum veikra einstaklinga að mati formanns Afstöðu. Hann fagnar því að ríkisstjórnin ætli að bjóða upp á fleiri úrræði fyrir hópinn og byggja sérstaka öryggisstofnun.

visir.is/Nov 4

Úrræðin komi of seint

Ríkisstjórnin kynnti á dögunum áætlanir um byggingu öryggisstofnunar fyrir fólk með metið er hættulegt sér eða umhverfi sínu og glímir við fjölþættar alvarlegar geðraskanir. Þá á að fjölga plássum á réttaröryggisdeild. Áætlaður kostnaður til ársins 2030 er 20 milljarða króna samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu. Þar af fara um 14 milljarða í byggingu og reksturs öryggisstofnunar. 

Áætluð framlög ríkisstjórnarinnar vegna öryggisvistanna. samkvæmt upplýsingum forsætisráðuneytisins.Vísir

Heiðar segir að slíkar áætlanir hafi lítið að segja í núverandi stöðu.

„Við höfum rætt við flest ráðuneytin um málaflokkinn sem hafa sýnt þessu skilning. Eina ráðuneytið sem hefur hins vegar hafnað fundi er heilbrigðisráðuneytið. Við þurfum að heyra betur í þeim því þurfum miklu meiri aðgang að geðdeildum, geðlæknum og geðheilbrigðiskerfinu í heild sinni vegna þeirra einstaklinga sem eru hjá okkur sárveikir,“ segir Heiðar.

Ný öryggisúrræði taki við hjá „hættu­legum“ föngum eftir af­plánun - Vísir

Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna öryggisvistanna verði tvöfalt hærri á árinu en gert hafði verið ráð fyrir. Stórauka á framlög til málaflokksins á næstu árum og bæta lagaramma.

visir.is/

Man ekki eftir öðru eins

Hann segist ekki muna eftir öðru eins ástandi. 

„Ég hef aldrei séð þetta svona svakaleg,“ segir hann. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru dæmi um að fangaverðir séu hættir að tilkynna ofbeldi sem þeir verða fyrir af hálfu ákveðinna fanga, í von um að afplánunartími þeirra lengist ekki.

Heiðar segir að ástandið í í fangelsunum varasamt fyrir alla.

„Þegar fangelsin eru yfirfull getur skapast meira hættuástand í þeim. Þá er almennt meiri pirringur í öllu kerfinu en áður vegna of mikils álag,“ segir Heiðar að lokum. 

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar 25. apríl 2025 19:01

 

Þráinn Farestveit

Gjöf sem nýtist þeim sem eru í lokuðum fangelsum

Stuðningur við fanga.
 
Vernd og Afstaða gáfu alls 14 stk air fryer í lokuðu fangelsin í dag. Nýr air fryer fór á alla ganga á Hólmsheiði og Litla hrauni
Eitt af því sem mest hefur verið beðið um af föngum undanfarin misseri er air fryer og því þótti okkur hjá Afstöðu og Vernd gott mál að gefa saman slík heimilistæki.
Á myndini eru Guðmundur Ingi formaður Afstöðu, Þráinn Farestveit framkvæmdastjóri Verndar,
 
 
Þráinn Farestveit

Eru afbrot afleiðing vímuefna?

Notkun vímuefna hefur aukist gríðarlega síðustu áratugi og er mikið vandamál innan samfélagsins í heild. Vímuefni eru þau efni sem koma manni í vímu eins og nafnið gefur til kynna. Þau breyta starfsemi heilans og geta ýmist haft örvandi eða slævandi áhrif. Þar með geta þau breytt skynjun, meðvitund, skapi og hegðun einstaklings. Í vímu finna einstaklingar oft fyrir vellíðunar tilfinningu en stundum sjá þeir og hugsa hluti sem eru andstæðir raunveruleikanum. Þar af leiðandi gera einstaklingar stundum hluti sem þeir myndu annars ekki gera og í kjölfarið sjá þeir eftir því þegar efnin eru hætt að virka. Algeng vímuefni sem hafa slævandi áhrif er alkóhól, kannabis og ópíóðar. Aftur á móti eru þau vímuefni sem hafa örvandi áhrif meðal annars MDMA, kókaín og amfetamín. Ásamt því er vert er að nefna að hver sem er óháð bakgrunni, fjárhagsstöðu, aldri, kyni og samfélagslegri stöðu getur þróað með sér vímuefnavanda.

Margir dómþolar eiga sér erfiða sögu að baki og glíma þeir þar af leiðandi við ýmsan vanda s.s vímuefnavanda sem getur verið ástæða afbrotahegðunar þeirra. Þar af leiðandi eru þeir oft jaðarsettir fyrir afplánun og jafnvel enn meira við lok afplánunar. Því er gríðarlega mikilvægt að þessir einstaklingar fái viðeigandi meðferð og þjónustu til að styrkja verndandi þætti þeirra og þar með draga úr áhættuþáttum til að koma í veg fyrir frekari afbrot.

Margir íslenskir dómþolar hafa greint frá því að afbrotahegðun þeirra hafi stafað af vímuefnaneyslu og telja að hún hafi verið upphaf afbrotaferils þeirra. Samkvæmt niðurstöðum úr könnun á meðal þeirra sem hafa dvalið á áfangaheimilinu Vernd er greint frá því að um helmingur þeirra hafa viðurkennt að eiga við vímuefnavanda að stríða. Ásamt því svarar meirihluti því játandi að hafa ekið undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Þar að auki er meiri en helmingur sem hefur misst ökuréttindi sín vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Að því sögðu er vert að nefna að árið 2023 voru rúmlega 1.700 brot skráð þar sem ekið var undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Vímuefnaneysla hefur því ekki aðeins alvarleg áhrif á einstaklinga heldur einnig á samfélagið í heild. Hér kemur samfélagsleg ábyrgð sterk inn þar sem það skiptir máli að leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið að betri stað. Með aukinni fræðslu, forvörnum og markvissri endurhæfingu er mögulegt að draga úr vímuefnavanda og afleiðingum hans og þar af leiðandi stuðla að betra og öruggara samfélagi í heild.

 

Hvert er hægt að leita við áfengis og vímuefnavanda?

Ef einstaklingar eru undir 18 ára:

  • Stuðlar
  • Meðferðarheimilið Bjargey
  • Barna- og fjölskyldustofa
  • Heilsugæslustöðvar
  • Umboðsmaður barna
  • Hjálparsími Rauða krossins
  • Bergið
  • Sjálfstætt starfandi sálfræðingar og annað fagfólk

 

Ef einstaklingar eru eldri en 18 ára:

  • Vogur
  • Krýsuvík
  • Samhjálp
  • SÁÁ
  • AA-samtökin
  • Göngudeild á Akureyri
  • Heilsugæslustöðvar
  • Vímuefnadeild Landspítalans
  • Hjálparsími Rauða krossins
  • Sjálfstætt starfandi sálfræðingar og annað fagfólk

 

Amíra og Rakel

Skrifað af vettvangsnemum á Vernd

 

Heimildir

 

https://skemman.is/bitstream/1946/43709/1/Lokaritger%c3%b0.%20Lja%cc%81um%20fyrrverandi%20fo%cc%88ngum%20ro%cc%88dd.pdf

https://www.logreglan.is/arid-i-hnotskurn-bradabirgdatolfraedi-logreglu-2023/

https://skemman.is/bitstream/1946/22838/2/baeklingur.pdf

https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/afengi-og-tobak/adstod-vid-ohoflegri-afengisdrykkju/medferdarurraedi-fyrir-fullordna/

https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/afengi-og-tobak/adstod-vid-ohoflegri-afengisdrykkju/medferdarurraedi-fyrir-born/

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Felagsmalaraduneytid/Sk%C3%BDrsla%20st%C3%BDrih%C3%B3ps%20um%20ma%CC%81lefni%20fanga-heildarsky%CC%81rsla.X.pdf

 

Þráinn Farestveit