Mynd: Rakel Jóna B. Davíðsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Amíra Sól Jóhannsdóttir
Fangelsiskerfið á mannamáli
Fangelsiskerfið á Íslandi er umfangsmikið og flókið, sem gerir það að verkum að almenningur getur átt erfitt með að skilja það. Einnig er lagamál sem notast er við í lögum og reglugerðum ekki auðlesanlegt sem getur skapað mikla óvissu og erfiðleika við að leita réttar síns. Markmið þessarar greinar er því að auðvelda aðgengi að þessum málum og útskýra kerfið á mannamáli.
Hver er tilgangur refsinga?
Hugtakið refsing getur verið notað á margvíslegan hátt en í sambandi við fangelsisrefsingu er átt við að ef einstaklingur brýtur lög samfélagsins er hægt að bæta upp fyrir það á mismunandi hátt. Refsingar eru samkvæmt íslenskum rétti fangelsun og sektir og um slíkt gilda lög um fullnustu refsinga. Markmiðið er að fullnusta refsinga fari fram með öruggum og skilvirkum hætti og að sérstök og almenn varnaðaráhrif refsinga séu virk. Einnig að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli betrun og aðlögun dómþola að samfélaginu. Tilgangur refsingar felur meðal annars í sér að endurgjalda fyrir það að brjóta reglur samfélagsins sem þarf að vera í samræmi við alvarleika brotsins. Einnig er hlutverk þeirra að taka fólk úr umferð til að koma í veg fyrir að einstaklingur valdi frekari skaða. Refsingar hafa einnig ákveðinn fælingarmátt sem ætti að fá einstaklinga til að hugsa sig tvisvar um áður en það fremur afbrot til að koma í veg fyrir að því verði refsað. Síðast en ekki síst er hlutverk refsinga að endurhæfa þá sem fremja afbrot til þess að koma aftur inn í samfélagið þar sem er meðal annars tekist á við fíknivanda, félagsfærni og samskiptahæfni svo eitthvað sé nefnt.
Hvað er stigskipt afplánun?
Á Íslandi og á norðurlöndunum er notast við stigskipta afplánun sem felur í sér að dómþoli fer úr einu úrræði yfir í annað þar sem viðkomandi þarf að fylgja ákveðnum skilyrðum og sýna fram á fyrirmyndarhegðun. Hefðbundin stigskipting felur í sér að byrja í lokuðu fangelsi og fara þaðan yfir í opið fangelsi, síðan á Vernd, rafrænt eftirlit og á reynslulausn og að lokum verður viðkomandi frjáls. Ferlið er ekki línulegt þar sem einstaklingar hafa tækifæri á því að hoppa á milli stiga sem fer eftir aðstæðum hvers og eins líkt og í snákaspilinu.
Mismunandi tegundir dóma
Áður en byrjað er að útskýra fangelsiskerfið er mikilvægt að skilgreina þá dóma sem spá fyrir um afplánun dómþola.
Skilorðsbundinn dómur
Þeir sem fá skilorðsbundinn dóm þurfa ekki að fara í fangelsi nema að einstaklingurinn brjóti af sér þegar dómurinn er í gildi. Skilorðstíminn getur verið allt að eitt upp í fimm ár, en algengast er að hann sé tvö til þrjú ár. Það er samt sem áður heimilt að setja þeim einstaklingum ákveðin skilyrði varðandi neyslu áfengis eða annarra vímuefna, umgengni við aðra menn, dvalarstað o.fl. Þetta á oftast við um minniháttar brot svo sem umferðarlagabrot.
Á meðan skilorð er í gildi hafa einstaklingar heimild til þess að ferðast og búa erlendis, en ef einstaklingur brýtur skilorðið geta því fylgt afleiðingar, svo sem að sæta fangelsisvist.
Óskilorðsbundinn dómur
Sá sem fær óskilorðsbundinn dóm þarf að sæta fangelsisvist sem getur verið allt frá 30 dögum og upp í ævilangt (16 ár). Þeir sem fá allt að 12 mánaða óskilorðsbundinn dóm hafa tækifæri á að afplána dóminn með samfélagsþjónustu. Einnig hafa einstaklingar kost á því að sækja um reynslulausn en ekki er tekin ákvörðun um það fyrr en afplánun er hafin.
Blandaður dómur
Blandaður dómur felur í sér að einstaklingur fær að hluta til skilorðsbundinn og óskilorðsbundinn dóm. Þegar einstaklingur fær blandaðan dóm getur hann með gefnum skilyrðum afplánað óskilorðsbundna dóminn með samfélagsþjónustu. Einstaklingar fá samt sem áður ekki tækifæri á reynslulausn og þurfa að afplána allan óskilorðsbundna dóminn.
Samfélagsþjónusta fyrir óskilorðsbundna dóma
Hvað er samfélagsþjónusta?
Í stuttu máli er samfélagsþjónusta úrræði fyrir þá sem hafa fengið óskilorðisbundna refsingu eða vararefsingu fésekta og kemur í veg fyrir vistun í fangelsi. Þar vinnur einstaklingur tímabundna ólaunaða vinnu sem er úthlutað af fangelsismálastofnun eftir því hvað hentar einstaklingnum og hvaða störf eru laus á hverjum tíma. Dæmi um vinnu getur m.a. verið sjálfboðavinna og félagsstörf hjá félagasamtökum og opinberum stofnunum eins og að þrífa, einhverskonar viðhald, umönnun og skrifstofustörf.
Hverjir geta sótt um samfélagsþjónustu?
Til þess að afplána með samfélagsþjónustu þarf að hafa eftirfarandi skilyrði í huga:
Ef einstaklingur hefur fengið boðunarbréf í fangelsi þarf að fylla út skriflega umsókn um samfélagsþjónustu að lágmarki viku áður en að afplánun á að hefjast samkvæmt dagsetningu á boðunarbréfi. Umsóknina má finna á vef Fangelsismálastofnunar undir “Umsóknareyðublað um samfélagsþjónustu í stað óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar”.
Einstaklingar sem fá vararefsingu fésekta sem er 100.000 kr eða hærri hafa kost á því að afplána með samfélagsþjónustu ef innheimtuaðili sér ekki fram á að aðrar innheimtuaðgerðir beri árangur. Þeir einstaklingar þurfa einnig að skila inn umsókn um að afplána með samfélagsþjónustu ekki seinna en viku eftir birtingu ákvörðunar um afplánun og fylgir umsóknareyðublaðið þeirri birtingu frá innheimtuaðila.
Önnur atriði sem gefa einstaklingum kost á að afplána refsingu með samfélagsþjónustu eru m.a. að eiga ekki óklárað mál í réttarkerfinu, að einstaklingur sé metinn hæfur til að afplána með samfélagsþjónustu og að einstaklingur sé ekki nú þegar í fangelsi eða gæsluvarðhaldi.
Hvaða dóma er hægt að afplána með samfélagsþjónustu?
Þeir sem hafa fengið allt að 24 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm geta afplánað refsinguna með samfélagsþjónustu, að því tilskildu að öll skilyrði séu uppfyllt. Ef hluti refsingarinnar er skilorðsbundin, er samfélagsþjónusta möguleg þrátt fyrir að heildardómurinn sé lengri en 24 mánuðir. Þegar um fleiri en einn dóm er að ræða, má samanlögð refsing ekki fara yfir 24 mánuði.
Hvað er samfélagsþjónusta löng?
Lengd samfélagsþjónustu ræðst af lengd refsingar og getur verið á bilinu 40 til 960 klukkustundir, dreift yfir 2 til 14 mánuði. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er heimilt að ljúka samfélagsþjónustu á skemmri tíma en upphaflega er ákveðið.
Hver er munurinn á Íslenskum fangelsum?
Opið fangelsi vs. lokað fangelsi
Það eru fjögur fangelsi á Íslandi sem skiptast í tvö opin annars vegar og tvö lokuð hins vegar. Opnu fangelsin eru Fangelsið á Sogni og Kvíabryggju en lokuðu fangelsin eru fangelsið á Hólmsheiði og Litla-Hrauni. Það sem einkennir opið fangelsi er að það eru engar girðingar sem umlykja útivistarsvæði fanganna. Myndavélaeftirlit er minna og herbergjum er ekki læst á næturnar. Ásamt því fara heimsóknir fram á herbergjum fanga og netaðgengi er meira en í lokuðum fangelsum.
Lokuð fangelsi einkennast af því að útivistarsvæði fanga er afmarkað með girðingum, herbergjum er læst á næturnar og heimsóknir fara fram í sérstökum heimsóknarherbergjum.
Afplánun á Íslandi hefst yfirleitt í lokuðu fangelsi og þá helst í fangelsinu á Hólmsheiði þar sem Fangelsismálastofnun metur svo hvort einstaklingurinn haldi áfram að afplána í opnu eða lokuðu fangelsi. Þetta er samt sem áður ekki alveg klippt og skorið þar sem þeir sem fara í lokað fangelsi geta átt möguleika á flutningi í opið fangelsi ásamt því að þeir sem fara í opið fangelsi geta endað í lokuðu fangelsi ef hegðun er ásættanleg. Einnig geta fangar átt möguleika á vistun á áfangaheimili og síðan rafrænu eftirliti í lok afplánunar ef þeir uppfylla önnur skilyrði og sýna góða hegðun.
Hvar hefst afplánun?
Afplánun hefst í flestum tilvikum í fangelsinu á Hólmsheiði og skulu einstaklingar mæta fyrir kl 17:00 á þeim degi sem boðað er í fangelsi.
Hvað tekur við eftir fangelsisvist?
Það sem tekur við eftir fangelsisvist fer eftir því hvort viðkomandi uppfylli tiltekin skilyrði í hverju úrræði fyrir sig sem verður nánar tilgreint hér fyrir neðan. Samt sem áður felur sú hefðbundna leið í sér afplánun á Vernd eftir fangelsisvist.
Áfangaheimilið Vernd
Í hverju felst afplánun á Vernd?
Einstaklingur hefur kost á því að afplána á Vernd eftir fangelsisvist og er það talið vera hluti af refsingunni þar sem viðkomandi er undir eftirliti. Mikil áhersla er lögð á það að vistmenn Verndar eru ekki taldir vera fangar þar sem þeir afplána nú á áfangaheimili en ekki í fangelsi, en skulu samt sem áður fylgja húsreglum heimilisins. Jafnframt eiga þeir að stunda vinnu, nám, starfsþjálfun, meðferð eða virkni alla virka daga sem hefur verið samþykkt af hálfu Verndar. Vistmenn skulu dvelja á heimilinu milli kl 23:00-7:00 alla daga vikunnar, auk þess að vera á heimilinu milli kl 18:00-19:00 alla virka daga.
Hverjir geta afplánað á Vernd?
Einstaklingar sem afplána fangelsisrefsingu eða vararefsingu fésekta geta sótt um afplánun á Vernd. Margir uppfylla þau skilyrði sem þarf til að afplána á Vernd og eru þau eftirfarandi:
- Einstaklingur þarf að sýna fram á fyrirmyndarhegðun síðustu þrjá mánuðina af fangelsisvist og ekki framið agabrot á þeim tíma.
- Ef einstaklingur strýkur úr gæsluvarðhaldi eða fangelsi þurfa líða að lágmarki tvö ár þar til hann getur afplánað á Vernd.
- Einstaklingur hefur ekki kost á að dvelja á Vernd sé hann með óklárað mál í réttarkerfinu.
- Ef einstakling hefur ekki verið vísað af Vernd í núverandi afplánun.
- Einstaklingur þarf að teljast hæfur til dvalar á Vernd.
- Einstaklingur má ekki mælast undir áhrifum áfengis eða annara vímuefna með öndunarsýni eða þvagprufu áður en afplánun á Vernd er hafin.
Aftur á móti er kostur á undanþágu frá liðum 1, 2 og 3 ef sérstakar ástæður mæla með því. Jafnframt er undanþága veitt fyrir lið 4 ef viðkomandi hefur sýnt fram á fyrirmyndarhegðun í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir endurkomu í fangelsi og þegið alla meðferð sem þörf er á t.d. að takast á við vímuefnavanda sinn, hafi hann verið til staðar.
Hvenær er hægt að hefja afplánun á Vernd?
Einstaklingur getur hafið afplánun á Vernd eftir að hafa afplánað a.m.k ⅓ af refsingunni í fangelsi. Dvölin á Vernd getur samt sem áður ekki verið styttri en þrjár vikur, en þegar dómur er ár eða minna getur dvölin orðið allt að þrír mánuðir. Ef dómur er meira en eitt ár lengist dvalartíminn um 2,5 daga fyrir hvern dæmdann mánuð og getur orðið allt að 7 mánuðir fyrir 5 ára fangelsisrefsingu, en eftir það lengist dvölin um 5 daga fyrir hvern dæmdann mánuð. Dvölin á Vernd getur að hámarki verið 18 mánuðir ef dæmd refsing er 10 ára og 6 mánaða fangelsi.
Hvernig fer eftirlit fram?
Starfsmenn Verndar sjá um eftirlit þar, ásamt eftirlitsaðilum á vegum Fangelsismálastofnunar sem fylgjast með því að vistmennirnir séu að sinna þeirri vinnu, námi eða virkni sem samþykkt var og eiga að sinna á öllum virkum dögum.
Rafrænt eftirlit
Ef einstakling gefst ekki kostur á afplánun á Áfangaheimilinu Vernd eftir fangelsisvist er farið beint á rafrænt eftirlit. Hins vegar tekur rafrænt eftirlit yfirleitt við eftir afplánun á Vernd og þar af reynslulausn. Í ákveðnum tilfellum hlýtur einstaklingur reynslulausn í beinu framhaldi af afplánun á Vernd ef tími hans á rafrænu eftirliti var uppfylltur á öðru sviði afplánunar.
Hvað er rafrænt eftirlit?
Rafrænt eftirlit felur í sér afplánun utan fangelsis þar sem einstaklingur getur búið heima hjá sér eða á öðrum dvalarstað og er úthlutað ökklaband frá Vernd sem þarf að hafa á sér á öllum stundum svo hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra.
Það eru samt sem áður ákveðnar reglur sem einstaklingur þarf að fylgja á meðan afplánun undir rafrænu eftirliti stendur. Þær reglur fela m.a í sér að dvelja þarf á tilsettum stað á kvöldin og yfir nóttina, frá kl. 23-07 á virkum dögum og frá kl 21-07 um helgar. Einnig þurfa einstaklingar að sinna daglegum skyldum á virkum dögum s.s vinna, nám eða öðrum verkefnum sem samþykkt hafa verið af Fangelsismálastofnun.
Rafrænt eftirlit er aðeins síðasta skrefið í afplánun, áður en reynslulausn hefst og er því ekki hægt að afplána eingöngu á rafrænu eftirliti.
Lengd rafræns eftirlits ræðst af því hvað óskilorðsbundinn fangelsisdómur er langur. Þegar óskilorðsbundinn dómur eru 12 mánuðir er rafrænt eftirlit 60 dagar en lengist um fimm daga fyrir hvern mánuð sem dæmdur er, en getur lengst verið 360 dagar.
Hverjir geta afplánað undir rafrænu eftirliti?
Einstaklingar sem hafa fengið 12 mánaða óskilorðsbundinn dóm eða lengri hafa kost á því að afplána á rafrænu eftirliti. Ásamt því þarf að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði samkvæmt lögum um fullnustu refsinga:
Í fyrsta lagi þarf einstaklingur að vera metinn hæfur til að afplána undir rafrænu eftirliti. Í öðru lagi er eingöngu hægt að afplána á einum stað sem samþykktur er af Fangelsismálastofnun og getur því ekki flakkað á milli dvalarstaða. Í þriðja lagi þurfa allir sem koma að dvalarstað viðkomandi, s.s. maki, forsjáraðili, nánasti aðstandandi eða húsráðandi að samþykkja að einstaklingur sé undir rafrænu eftirliti á dvalarstað þeirra. Í fjórða lagi þarf einstaklingur að vera í einhvers konar virkni s.s. að stunda vinnu, nám, sé í starfsþjálfun eða meðferð eða öðrum verkefnum til að auðvelda endurkomu í samfélagið á ný. Í fimmta lagi þarf einstaklingur að hafa afplánað á Vernd, öðru sambærilegu úrræði eða verið metinn hæfur til að nýta úrræði en ekki getað það vegna aðstæðna sem ekki var hægt að ráða við. Ef staðan var sú þá þarf einstaklingur að hafa verið agabrotalaus á þeim tíma sem hann gat ekki nýtt úrræðið. Í sjötta lagi þarf einstaklingur að hafa fylgt reglum rafræns eftirlits á síðastliðnum þremur árum. Að lokum, er ekki gefinn kostur á rafrænu eftirliti ef einstaklingur á ókláruð mál í réttarkerfinu.
Reynslulausn
Undir hefðbundnum kringumstæðum hefst reynslulausn eftir að einstaklingur hefur uppfyllt afplánunartíma sinn á rafrænu eftirliti.
Hvað er reynslulausn?
Reynslulausn er ákveðið “leyfi” sem dómþola er veitt til að fara aftur út í samfélagið áður en að refsivist líkur til að brúa bilið á milli refsivistar og frelsis. Einstaklingar sem afplána óskilorðisbundna fangelsisrefsingu hafa tækifæri að sækja um reynslulausn og þarf hann að fylgja ákveðnum skilyrðum. Reynslulausn skiptist í 3 hluta og fer sú skipting eftir eðli brotsins. Þeir sem brjóta af sér fyrir 21 árs og sýna fram á góða hegðun í fangelsi geta fengið reynslulausn eftir að hafa afplánað ⅓ af dómi sínum. Einstaklingar sem eru í sinni fyrstu eða annarri afplánun fyrir minniháttarbrot geta yfirleitt fengið reynslulausn eftir að hafa afplánað ½ af dómnum. Þeir sem eru að afplána fyrir alvarlegri brot eða eru í sinni þriðju afplánun fyrir minniháttarbrot hafa yfirleitt ekki kost á reynslulausn fyrr en að hafa afplánað ⅔ af dómnum.
Hvaða reglum þarf að fylgja á meðan reynslulausn stendur?
Þegar reynslulausn er samþykkt þarf einstaklingur að fylgja ákveðnum skilyrðum. Allar reynslulausnir eiga það sameiginlegt að einstaklingur brjóti ekki af sér á meðan henni stendur. Aftur á móti getur Fangelsismálastofnun sett sérstök skilyrði að auki s.s. að einstaklingur sé undir eftirliti stofnunarinnar, að hann búi á ákveðnum stað og forðist að hitta ákveðna einstaklinga eins og brotaþola og forðist staði þar sem börn eru. Að hann fari í sérstaka meðferð eins og sálfræðimeðferð eða áfengis- og vímuefnameðferð eða að hann hafi á sér búnað svo hægt sé að fylgjast með ferðum hans.
Hvað gerist ef einstaklingur brýtur reglur reynslulausnar?
Almennt er talað um skilorðsrof ef einstaklingur brýtur af sér á reynslulausn. Það felur í sér að ef einstaklingur fremur nýtt brot á þeim tíma getur afleiðing verið að einstaklingur afplánar það sem er eftir af dómnum í fangelsi eða að hann fái nýjan dóm fyrir brotið.
Hverjir hafa ekki kost á reynslulausn?
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að einstaklingar geta ekki fengið reynslulausn en þær eru meðal annars að sá sem telst vera síbrotamaður eða hefur oft fengið reynslulausn áður og brýtur reglur hennar. Einnig á sá sem afplánar blandaðan dóm, vararefsingu fésektar eða á ólokið mál hjá lögreglu yfirleitt ekki kost á reynslulausn. Að lokum geta einstaklingar yfirleitt ekki fengið reynslulausn ef það hefur áhrif á hagsmuni einstaklingsins sem og samfélagsins.
Lokaorð
Vert er að nefna að fangelsiskerfið er ekki eins klippt og skorið og það lítur út fyrir að vera þar sem aðstæður og tilfelli einstaklinga innan kerfisins geta verið mjög breytileg og flókin. Hver einstaklingur hefur einstakan bakgrunn sem getur samanstaðið af félagslegum, fjárhagslegum eða persónulegum erfiðleikum sem þarf að taka tillit til. Í þessu samhengi eru margvísleg úrræði í boði til hjálpa þeim sem ljúka afplánun að komast inn í samfélagið að nýju. Meðal þeirra eru sérhæfð úrræði fyrir þá sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda, svo sem Krýsuvík, Hlaðgerðarkot og Vogur. Að þessu nefndu er markmiðið fangelsiskerfisins og skyldum úrræðum að draga úr líkum á endurkomu í fangelsi sem og að stuðla að ánægjulegri endurkomu í samfélagið.
Auka efni sem gæti verið gagnlegt
Hvað er ákærufrestun?
Það er hægt að fresta því að ákæra einstakling á aldrinum 15-21 árs, eða einhvern sem er í sérstöku ástandi, ef eftirlit eða önnur úrræði virka betur en refsivist. Þetta gildir bara ef sá aðili hefur játað brot sitt og að brotið er ekki svo alvarlegt að það sé nauðsynlegt að sækja málið til að vernda almannahagsmuni.
Hvað er agabrot og agaviðurlög?
Agabrot er það þegar fangi brýtur reglur fangelsisins með einhverjum hætti með þeim afleiðingum að hann hlýtur agaviðurlög og geta verið eftirfarandi:
- Skrifleg áminning.
- Svipting réttinda til vinnu eða náms í tiltekin tíma.
- Aukabúnaður svo sem leikjatölvur getur verið tekinn ásamt því að takmarka heimsóknir, símtöl og bréfaskipti í tiltekin tíma.
- Geta haft þær afleiðingar að fangi skuli vera fluttur aftur í lokað fangelsi afpláni hann í opnu fangelsi.
- Útivist og aðstaða til íþróttaiðkunar sé takmörkuð í tiltekin tíma.
- Einangrun í allt að 15 daga.
Heimilt er að nota fleira en eina tegund agaviðurlaga samtímis en ef fangi hefur ekki framið agabrot áður eða ef brotið er smávægilegt má aðeins veita skriflega áminningu.
Það má aðeins vista fanga í einangrun hafi hann framið eitthvað af eftirfarandi brotum: Strok, smygl í fangelsi, varsla eða neysla áfengis, ólöglegra lyfja eða fíkniefna, ásamt vörslu vopna eða annarra skaðlegra hluta. Ofbeldi eða hótanir gagnvart öðrum föngum eða starfsmönnum fangelsa, alvarleg skemmdarverk eða önnur gróf eða endurtekin minni háttar brot.
Hvað er áfrýjun?
Áfrýjun gengur út á það að einstaklingur sem hefur verið dæmdur fyrir brot í Héraðsdóm getur leitað til endurskoðunnar á dómnum til Landsréttar. Aðili dómsmáls hefur samt sem áður aðeins fjórar vikur til þess að ákveða hvort hann ætlar að áfrýja dóminn. Ákæruvaldið getur einnig áfrýjað niðurstöðu dóms til Landsréttar og hefur það einnig fjórar vikur til þess.
Hvað er dómþoli?
Dómþoli er sá sem hlotið hefur dóm.
Amíra og Rakel
Skrifað af vettvangsnemum á Vernd.
Heimildir:
https://www.fangelsi.is/
https://www.althingi.is/lagas/nuna/2016015.html