Nýleg úttekt Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar leiddi í ljós að í Reykjavík eru 179 einstaklingar heimilislausir eða utangarðs. Sambærileg úttekt var gerð árið 2009 og þá féll 121 einstaklingur undir skilgreininguna, aukning í hópnum er því liðlega 30% á þremur árum. Ekki eru allir þessir einstaklingar Reykvíkingar samkvæmt Þjóðskrá, en þeir halda þó flestir til í Reykjavík. Fjölmennasti hópur utangarðsfólks á við margháttaðan félagslegan vanda að stríða þ.m.t. fíknivanda og geðsjúkdóma. Reykjavíkurborg hefur frá árinu 2008 verið með sérstaka stefnu í málaflokknum. Á síðustu árum hafa borgaryfirvöld stóraukið þjónustu við hópinn og reka nú fjögur sértæk langtímabúsetuúrræði fyrir 25-29 einstaklinga sem áður voru í neyðarskýlum.

Ólöf Birna Björnsdóttir nemi og Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir félagsráðgjafi

Í langan tíma hefur Reykjavíkurborg greitt kostnað vegna reksturs Gistiskýlisins við Þingholtsstræti og Konukots. Gistiskýlið getur rúmað allt að tuttugu heimilislausa reykvíska karlmenn og Konukot átta reykvískar konur. Einstaklingar, með lögheimili utan Reykjavíkur, hafa einnig notið góðs af neyðarskýlum borgarinnar þegar húsrúm leyfir. Þar til nýlega hafa þessi úrræði náð að þjónusta þá sem leita eftir gistingu, en nú er svo komið að ásókn í næturgistingu í Gistiskýlinu hefur aukist svo mjög, að vísa hefur þurft einstaklingum frá gistingu. Karlmenn sem eru á götunni í Reykjavík með lögheimili í öðrum sveitarfélögum þurfa því að leita á náðir fangageymslu lögreglunnar með húsaskjól eða hreinlega sofa úti.

 Auka þarf fjölbreytni

Í huga höfunda er vandinn víðtækari en svo að lausnin felist í að fjölga neyðarrúmum og stækka gistiskýli. Mikilvægt er að auka fjölbreytni í búsetúrræðum s.s fleiri langtímabúsetuúrræði þar sem vímuefnabindindi er ekki skilyrði. Þá þarf einhvers konar „edrúskýli" þar sem einstaklingar sem eru að byrja að takast á við vímuefnavanda sinn, geta verið í vímulausu umhverfi þar sem sérhæft starfsfólk er á vaktinni. Það þarf sérhæft úrræði fyrir tvígreindar konur og öldrunar/hjúkrunarrými fyrir virka alkóhólista svo einhver dæmi séu nefnd. Einnig þarf að stórauka framboð á ódýru leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, því hluti af hópnum sem sækir sér neyðargistingu á ekki endilega við vímuefnavanda að stríða eða alvarlegar geðraskanir, þeir eru „bara" fátækir.

Það er staðreynd að fólk sem er í neyslu vímuefna eða áfengis leitar til höfuðborgarinnar hér á landi eins og annars staðar. En á þá heimilisleysi og utangarðsfólk eingöngu að vera vandi höfuðborgarinnar? Sveitarfélög á Íslandi eru 75 talsins og aðeins eitt þeirra hefur byggt upp úrræði fyrir utangarðsfólk. Í 46. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn. Þrátt fyrir það hefur Reykjavíkurborg borið ein kostnað af rekstri neyðargistiskýla fyrir heimilislausa sem þar til nú hafa þjónustað utangarðsfólk af allri landsbyggðinni.

Heimilislausum fjölgar

Mörg sveitarfélög setja enn það sem skilyrði fyrir þjónustu, að viðkomandi hafi farið í meðferð og sé í bataferli. Í 50 gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að félagsmálanefndir sveitarfélaga skuli hlutast til um að áfengissjúkir og þeir sem misnota áfengi eða aðra vímugjafa fái viðeigandi meðferð og aðstoð. Okkar túlkun á þessari grein er sú að sveitarfélögum beri skylda til að mæta skjólstæðingum sínum þar sem þeir eru staddir og veita þeim viðeigandi aðstoð og stuðning. Sú hugmyndafræði sem reynst hefur vel í vinnu með utangarðsfólki er skaðaminnkandi nálgun. Grunnhugmynd skaðaminnkunar er virðing fyrir einstaklingum, að minnka skaðann af því líferni sem þeir lifa og veita þeim þjónustu án skilyrða um edrúmennsku. Langtímabúseta þar sem vímuefnaneysla er leyfð, er skaðaminnkandi úrræði sem Reykjavíkurborg hefur þróað í auknum mæli undanfarin misseri og hefur gefið góða raun.

Heimilislausum einstaklingum fer fjölgandi. Það er orðið tímabært að sveitarfélögin komi með markvissum hætti að málaflokki utangarðsfólks. Samvinna hlutaðeigandi aðila er forsenda þess að hægt sé að virða mannréttindi alls utangarðsfólks í landinu. Vandinn er ekki einkamál borgaryfirvalda, ástandið er grafalvarlegt.

Ólöf Birna Björnsdóttir nemi og Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir félagsráðgjafi