Miðvikudaginn 14. nóvember var haldinn fundur í Laugarneskirkju þar sem fulltrúar frá öllum þeim félögum og stofnunum sem ábyrgð bera á velferð barna og ungmenna í Laugarneshverfinu voru mætt. Samráðsvettvangurinn er “Laugarnes á ljúfum nótum”, en þeir funda reglubundið. Vernd var boðið á fund eftir tillögu þar um, þar sem starfsemi Verndar var kynnt. Markmiðið var að tryggja að hlutaðeigandi þekkist og það gagnkvæma traust sem ríkt hefur milli hverfisbúa og Verndar sé varðveitt um ókomna tíð. Nokkuð var um fyrirspurnir um rekstur og staðsetningu Verndar og málum því tengdu. Var það álit fundarins að allir ættu að vera stoltir af því að geta stutt við starfsemi sem þessa í sínu hverfi. Sr. Bjarni Karlsson var fundastjóri. Sr. Bjarni kom með þá tillögu að hann væri tilbúnn að styðja við bak Verndar með reglubundnum heimsóknum inn á Vernd. Þeir sem standa að “Laugarnes á ljúfum nótum” eru eftirtaldir. Laugaborg, Lækjaborg, Hof, Laugarnesskóli, foreldrafélag Laugarnesskóla, foreldraráð Laugarnesskóla, Laugasel, Laugalækjaskóli, foreldrafélag laugalækjaskóla, foreldraráð Laugalækjaskóla, Ármann Þróttur, Fimleikadeild Ármanns, Karatefélagið, skátafélagið Skjöldungar, heilsugæslan Lágmúla, þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, ÍTR, TBR, Laugarneskirkja.