Ekkki eru fyrirliggjandi upplýsingar um það hvort að brotamenn hér á landi komi frekar út sem betri einstaklingar eftir að hafa setið í tilteknum fangelsum. Málið er heldur ekki svo einfalt að hægt sé að fullyrða að einn staður sé betri eða verri en annar. Í þessu sambandi þarf að hafa nokkur atriði í huga.

Í fyrsta lagi kemur fram í upplýsingum um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna (Fangelsismálastofnun ríkisins, 2004) að tilgangur með rekstri fangelsa sé fullnusta refsidóma en ekki endilega að gera menn betri. Fangelsismálastofnun hefur þó einnig sett sér það markmið að draga úr líkum á endurkomum í fangelsi með því að leitast við að skapa föngum umhverfi og aðstæður sem hvetji þá til að takast á við vandamál sín.

Sama markmið á við um öll þau fimm fangelsi sem Fangelsismálastofnun ríkisins rekur og því ættu áhrif fangelsa að vera eins, sama hvar afplánað er. Svo þarf þó ekki að vera raunin enda eru fangelsin mjög ólík, til að mynda með tilliti til stærðar og þeirrar þjónustu sem í boði er. Einnig skiptir verulegu máli hvort munur er á því hversu lengi menn sitja inni að jafnaði og hversu langan brotaferil samfangar eiga að baki.

 

Þegar á heildina er litið virðist hlutfall þeirra sem fara aftur í fangelsi frá því að þeir hafa afplánað dóm svipað hér á landi og í öðrum vestrænum löndum (Baumer, Wright, Kristinsdóttir og Gunnlaugsson, 2002). Um 37% þeirra sem sátu í fangelsi á árunum 1994 til 1998 fóru í fangelsi á ný innan fimm ára eftir að refsivist lauk. Af þeim sem hlutu skilorðsbundinn dóm á sama tíma fengu 15 % fangelsisdóm innan fimm ára og af þeim sem fengu að afplána með samfélagsþjónustu fengu 17% fangelsisdóm innan fimm ára frá því að afplánun lauk (Eric Baumer, Helgi Gunnlaugsson, Kristrún Kristinsdóttir og Richard Wright, 2001). Í sömu rannsókn kemur fram að ítrekunartíðni virðist hærri meðal þeirra sem hafa lengri brotasögu og hjá þeim sem fá lengri dóm, að minnsta kosti hvað varðar skilorðsbundinn dóm og samfélagsþjónustu.

Af þessu má sjá að tegund dóms virðist hafa áhrif á líkur á því að menn fái aftur fangelsisdóm. Það þarf þó ekki að vera að tegund refsingar skýri þetta enda allar líkur á því að þeir sem hljóta skilorðsbundinn dóm hafi aðra brotasögu að baki en þeir sem hljóta óskilorðsbundinn fangelsisdóm.

Ekki hefur verið tekið tillit til afplánunarstaðar í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið hér á landi og því ekki hægt að fullyrða um mismunandi áhrif hans. Ef munur kæmi fram benda fyrri rannsóknir ekki til þess að hann yrði til marks um sjálfstæð áhrif frá afplánunarstað, heldur er líklegra að hann mundi stafa af því hvernig fangar veljast á mismunandi staði.