Skimað fyrir veirunni í fangelsum

Halldór Valur Pálsson, forstöðurmaður fangelsa 
Fréttablaðið/Stefán

Heilbrigðisstarfsfólk hefur mætt í fangelsi til að skima fyrir kórónaveirunni hjá föngum eftir athugasemdir frá umboðsmanni Alþingis.

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, heimsótti Litla-Hraun eftir yfirlýsingu frá Afstöðu – félagi fanga um ólíðandi ástand í fangelsum landsins vegna sóttvarna­ráðstafana og tafa á rannsóknum lögreglu.

Skúli sagði helst kvartað um töf á prófum til að staðfesta smit eða losa fanga úr sóttkví. Að hans mati er mjög brýnt að prófanir fari fram eins fljótt og frekast er kostur þar sem fangar eru í talsvert annarri stöðu en al­mennir borgarar sem geta sjálfir leitað eftir þessum prófum eða haft frumkvæði að því.

Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsa, segir fangelsismálayfirvöld taka heils hugar undir með honum.

„Við erum jafnframt sammála því að einangrun og sóttkví komi öðruvísi niður á mönnum sem eru frelsissviptir og þess vegna höfum við lagt okkur öll fram um að hafa þessi mál eins lítið íþyngjandi og frekast er kostur innan þess sem okkur er unnt,“ segir Halldór Valur.

Tags