Fangahjálp í 50 ár

Félagasamtökin Vernd – fangahjálp -  voru  stofnuð 19. október 1959 en starfsemi þeirra hófst hinn 1. febrúar 1960.
Forgöngu um stofnun félagastamtakanna Verndar hafði Kvenréttindafélag Íslands. Þóra Einarsdóttir, síðar formaður Verndar um tveggja áratuga skeið flutti erindi um aðstoð við afbrotafólk á fundi Kvenréttindafélagsins þann 28. maí árið 1958. Þær Þóra Einarsdóttir og Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður, lögðu fram eftirfarandi tillögu á fundinum sem samþykkt var eftir nokkra umræðu: „Fundurinn ályktar, að tímabært sé, að hefja undirbúning að samtökum er vinna að umsjá og eftirliti með afbrotafólki. Samtökin vinni að því m.a. að komið verði upp dvalar- og vinnuheimilum og stuðli á annan hátt að því að gera fólk, sem lent hefur á glapstigum að nýtum þjóðfélagsþegnum.“ Kosin var undirbúningsnefnd og hlaut félag þetta síðar nafnið Vernd. Kvenfélög vítt og breitt um landið lögðu Vernd lið strax frá upphafi. Sömuleiðis flest öll sveitarfélög og hið opinbera.

Vernd sett sér strax það markmið að leitast við, í samráði við opinber stjórnvöld, stofnanir og einstaklinga, að hjálpa fólki, sem gerst hefði brotlegt við refsilöggjöf landsins. Tilgangur félagasamtakanna Verndar var að taka að sér eftirlit með fólki sem hlotið hefur dóm, skilorðsbundinn dóm og með þeim, sem frestað hefur verið ákæru á.

Fangavarðaskólinn hóf starfsemi sína um miðjan janúar

Fangavarðaskólinn hóf starfsemi sína 12. janúar 2010. Vegna efnahagsástandsins var ákveðið að skólahald á þessu starfsári yrði með þeim hætti, að um eina samfellda önn yrði að ræða í stað grunnnáms og framhaldsnáms.

Kennt verður samfellt í 13 vikur og einnig var kennslustundum í hverri viku fjölgað nokkuð. Samtals eru níu nemendur í skólanum að þessu sinni, fimm frá Fangelsinu Litla-Hrauni og fjórir frá fangelsum á höfuðborgarsvæðinu.   Fangavarðaskólinn hefur, eins og áður, aðstöðu í húsnæði Lögregluskóla ríkisins að Krókhálsi í Reykjavík.  Alls koma 14 kennarar að kennslu og þjálfun fangavarða við skólann.  Náminu lýkur með skriflegum og verklegum prófum, auk þess sem nemendur skila þremur rannsóknarverkefnum í hópvinnu, sem þeir gera grein fyrir í málstofu við lok námstímans.

Opið fangelsi í Bitru

Fyrirmyndarfangar munu afplána dóma sína í nýjasta fangelsi landsins á Bitru, sem var opnað í dag. Þrettán fangar eru nú komnir í fangelsið í Bitru en það verður hægt að vista 26 fanga ef kojur verða settar inn í herbergin. Fangelsið er opið fangelsi, sem þýðir að fangarnir geta strokið kjósi þeir það. Nú eru um 400 manns á biðlista eftir að komast í fangelsi.

Nýja fangelsið er í Flóahreppi, en í Bitru var áður rekið kvennafangelsi.  Síðustu ár hefur húsnæðið þó verið notað í ferðaþjónustu. Öll aðstaða í Bitru er til fyrirmyndar og fátt þar inni sem minnir á fangelsi.

Til hvers eru fangelsi

Fangelsi er tiltölulega nýtt úrræði til lausnar á vanda vegna afbrota í samfélaginu. Franski þjóðfélagshugsuðurinn Michel Foucault hélt því fram að refsingar hafi áður fyrr beinst að líkamanum en síðan hafi sálin tekið við sem viðfang refsingarinnar. Þetta birtist okkur í margvíslegum líkamlegum refsingum fyrri tíma eins og húðstrýkingum, brennimerkingum og aflimunum en varðhald eða vistun til lengri tíma var fátíðara úrræði. Skógganga eða útlegð brotamanna tíðkaðist þó sums staðar, meðal annars hér á landi á þjóðveldisöld. Í dag er hins vegar algengara að dómþolar þurfi að verja fyrirfram skilgreindum tíma í vist eða gæslu bak við lás og slá og dýrmætur tími tapast því frá hringiðu samfélagsins á meðan.
 
Skipta má markmiðum fangelsa í fernt. Afplánun í fangelsi tekur brotamanninn úr umferð og hann getur þar af leiðandi ekki valdið öðrum borgurum tjóni á meðan. Fangelsisvist felur að auki í sér tilhlýðilega refsingu um leið og vistin er víti til varnaðar fyrir aðra í samfélaginu. Að síðustu felur fangavist í sér möguleika á endurhæfingu eða meðferð brotamannsins sem síðan getur snúið að nýju út í samfélagið sem breyttur og bættur þegn að aflokinni afplánun.

Á Íslandi eru að jafnaði um 100 einstaklingar í fangelsi á hverjum tíma og er fangafjöldi hér einn sá lægsti í V-Evrópu miðað við mannfjölda.

Á síðustu árum hafa komið fram margvísleg ný refsiúrræði sem komið hafa í stað hefðbundinnar fangelsisvistar. Nefna má vistun á sambýlum eins og áfangaheimili Verndar hér á landi, þar sem vistin er bundin tilteknum skilyrðum svo sem að viðkomandi stundi vinnu eða nám, greiði húsaleigu og sé bundinn heimilinu tilteknar stundir á sólarhringnum.
 
Samfélagsþjónusta er annað úrræði sem fest hefur í sessi hér á landi á síðustu árum. Dómþolar geta sótt um að afplána dóm sem kveður á um allt að sex mánaða refsivist í fangelsi með því að inna af hendi sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins í stað fangavistar. Úrræði af þessu tagi fela í sér minni tilkostnað fyrir ríkisvaldið og gefa dómþolum um leið aukna möguleika á að viðhalda eðlilegum tengslum við aðra í samfélaginu.
 
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á afturhvarfi brotamanna til afbrotahegðunar eftir að þeir hafa afplánað refsingu. Niðurstöður benda til að ítrekunartíðni þeirra sem ljúka fangavist á Íslandi sé mjög svipuð því sem tíðkast meðal annarra þjóða, jafnvel þó að sumar þessara þjóða beiti talsvert þyngri refsingum en við Íslendingar. Engin merki sjást um að þyngri refsingar dragi úr ítrekunartíðni en vísbendingar eru um hið gagnstæða. Nýrri úrræði í réttarkerfinu, eins og samfélagsþjónusta og beiting skilorðsbundinna dóma, hafa því ekki leitt til aukinnar ítrekunartíðni íslenskra afbrotamanna og eiga því hiklaust heima innan viðurlagakerfisins ásamt öðrum úrræðum.

Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 3. júní kl.18:00
( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )
 
Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

 

Þráinn Farestveit