Brýnt að skoða geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hraun
Umboðsmaður Alþingis segir það eindregna afstöðu sína að brýnt tilefni sé til að endur-skoða fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni. Hann segir að til greinakomi að beina tilmælum til stjórnvalda um að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma geðheilbrigðisþjónustu í fangelsinu að Litla-Hrauni í það horf að ekki leiki vafi á því að þeir fangar sem þess þurfa njóti umönnunar sem þeir eiga rétt á samkvæmt stjórnarskrá og lögum og við aðstæður sem samrýmast ástandi þeirra og þörfum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í drögum að skýrslu um Litla-hraun sem umboðsmaður Alþingis hefur sent fangelsisyfirvöldum og velferðarráðuneytinu. Umboðsmaður heimsótti fangelsið 3. maí. Heimsóknin var þáttur í frumkvæðiseftirliti umboðsmanns og unnin af settum umboðsmanni, Róbert R. Spanó.
Heimsóknin í fangelsið Litla-Hrauni var liður í athugun á því hvort aðstæður í fangelsinu, aðbúnaður fanga og verklag við ákvarðanatöku um réttarstöðu þeirra samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, Mannréttindasáttmála Evrópu, gildandi laga og reglugerða um fullnustu refsinga auk meginreglna stjórnsýsluréttar. Þá laut athugun umboðsmanns að hvort þar væri gætt vandaðra stjórnsýsluhátta, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Í skýrsludrögum setts umboðsmanns eru dregin fram nokkur atriði sem hann telur að séu þess eðlis að til greina komi af hálfu umboðsmanns að beina síðar til stjórnvalda sérstökum tilmælum um úrbætur. Drög að skýrslunni eru því lögð fram til þess að stjórnvöldum gefist kostur á að bregðast við þessum atriðum áður en umboðsmaður tekur endanlega ákvörðun um hvort formlegum tilmælum verður beint til stjórnvalda. Umboðsmaður mun því að fengnum upplýsingum um viðbrögð stjórnvalda taka endanlega ákvörðun um hvort slík tilmæli verða sett fram. Fyrirkomulag þessarar athugunar umboðsmanns og birting á drögum að skýrslunni eru liður í því að taka upp nýtt verklag við frumkvæðis- og vettvangsathuganir umboðsmanns hjá stjórnvöldum.
Meðal þess sem settur umboðsmaður fjallar um í skýrsludrögunum eru heimsóknir til fanga, fjárhagsmálefni þeirra og heilbrigðisþjónusta í fangelsinu.
Þá telur settur umboðsmaður meðal annars að til greina komi að beina tilmælum til stjórnvalda um að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma geðheilbrigðisþjónustu í fangelsinu í það horf að ekki leiki vafi á því að þeir fangar sem þess þurfa njóti umönnunar sem þeir eiga rétt á samkvæmt stjórnarskrá og lögum og við aðstæður sem samrýmast ástandi þeirra og þörfum.
Innlent | mbl | 4.10.2013 |
Þráinn Farestveit