Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 4. júní kl.18:00

( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )
 

Dagskrá:


1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

 

 

Þráinn farestveit

Kveðja frá stjórn Verndar

Frú Hanna Johannessen lést 25. apríl síðastliðinn. Þar er gengin sómaprúð kona og mikill mannvinur. Hanna var þátttakandi í starfi Verndar allt frá því að fangahjálpin var stofnuð árið 1960. Hún sat í jólanefnd Verndar og varð formaður hennar 1967 og var það allt til dauðadags. Hlutverk nefndarinnar er að afla jólagjafa handa föngum og matar fyrir jólafagnað Verndar en hann sækja skjólstæðingar samtakanna og þau sem minna mega sín. Jólafagnaðinn skipulagði hún af natni og útsjónarsemi. Síðar hófst samstarf um jólafagnaðinn við Hjálpræðisherinn að frumkvæði Hönnu. Á það samstarf brá aldrei skugga.
Hanna gekk að starfi jólanefndarinnar með miklum skörungsskap og eljusemi. Hún fór á fund einstaklinga og fyrirtækja til að útvega það sem þurfti. Gefendur fundu hlýju hennar og umhyggju fyrir hinum bágstöddu. Þessari konu var ekki hægt að neita um aðstoð til slíkra mannúðarstarfa. Það var því mikill happafengur að hafa Hönnu í forsvari fyrir jólanefndina.
Þegar samtökin héldu upp á 45 ára afmæli sitt var Hanna gerð að heiðursfélaga Verndar í þakklætis- og virðingarskyni fyrir frábærlega vel unnin störf.

Litla-Hraun í 80 ár

Nú eru áttatíu ár liðin frá því að vinnuhælið, síðar fangelsi, að Litla-Hrauni tók til starfa. Þann 8. mars 1929 komu fyrstu fangarnir til að taka út refsingu sína. Frá þeim tíma og allt til þessa hafa þúsundir manna farið um hlaðið á Litla-Hrauni og sumir oftar en einu sinni. Á þriðja áratug síðustu aldar var mikið ófremdarástand í fangelsismálum landsins. Hegningarhúsið, sem var eina afplánunarfangelsið, var ekki í góðu ástandi og dugði ekki lengur sem slíkt.

Margir biðu þess að taka út refsingu sína en komust ekki að því fangelsið var oftast yfirfullt. Þá sem nú vissu menn að það var íþyngjandi refsing að bíða eftir því að komast til afplánunar. Nú árið 2009 munu á annað hundrað manns bíða þess að taka út refsingu sína. Augljóst er að á þeim vanda þarf að vinna bug. Það stóð reyndar til en í kjölfar efnahagshrunsins var uppbyggingu fangelsa slegið á frest.
Ríkisstjórnin, sem tók við völdum 1927 með Jónas Jónsson frá Hriflu sem dómsmálaráðherra, sá að eitthvað varð að gera í fangelsismálunum þjóðarinnar. Margir málsmetandi menn voru á sama máli og gagnrýndu harðlega aðbúnaðinn í Hegningarhúsinu í Reykjavík. Menn stungu upp á ýmsum stöðum sem vænlegir væru fyrir vinnuhæli eins og Fossvoginum, Bústöðum og Mosfellssveit. En austur á Eyrarbakka stóð fallegt hús sem Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisisins, hafði teiknað. Það átti að verða sjúkrahús. Framkvæmdin reyndist hins vegar of dýr og stöðvaðist. Húsið stóð fokhelt í nokkur ár og enginn vissi hvað beið þess.Í umræðum á Alþingi 1928 um frumvarp um betrunarhús og letigarð (síðar vinnuhæli) kom fram að stjórnvöld hefðu augastað á sjúkrahúsbyggingunni fyrir austan. Ekki voru allir sammála því að sú bygging og staðsetning væri heppileg. Töldu sumir m.a. að hún væri of langt frá Reykjavík. Engu að síður fór það svo að hún var keypt undir fyrirhugað vinnuhæli.

Fangar ósáttir við matinn

Nokkrir fangar á Litla-Hrauni skiluðu í dag inn undirskriftarlista til Margrétar Frímannsdóttur forstöðumanns fangelsisins þar sem þeir lýstu yfir óánægju með fæðið. „Við erum mjög ósáttir við matinn hérna, þetta litla sem við fáum fyrir 12 manns. Við búum við önnur kjör en aðrir hér á Litla-Hrauni," segir Guðmundur Freyr Magnússon, talsmaður fanganna.
 
„Við viljum fá matarpening eins og fangarnir í nýja húsinu til að kaupa okkur í matinn. Við erum hérna 12 fullorðnir menn sem erum alveg fullfærir um að sjá um okkur sjálfir og elda."." Guðmundur segir fanganna í álmunni fá of lítinn mat miðað við fjölda og hann sé næringarlítill. „Þetta er svo gegnumsoðið að það eru engin vítamín eftir í þessu fæði. Hér eru menn sem eru í fullri vinnu, úti frá kl. 9 á morgnanna til kl.17 á daginn og þurfa almennilega næringu." Fangarnir hótuðu hungurverkfalli yrði ekki farið að óskum þeirra.

Liggur einhver refsing við því að bera ljúgvitni í sakamáli?

Stutta svarið við þessari spurningu er já. Í fyrsta málslið 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940segir:
 
Hver, sem skýrir rangt frá einhverju fyrir rétti eða stjórnvaldi, sem hefur heimild til heitfestingar, skal sæta fangelsi allt að fjórum árum.
Hafi skýrsla verið heitfest skal það virt til þyngingar refsingar, samanber annan málslið, en sé skýrsla röng í atriðum sem ekki varða málefnið sem verið er að kanna, má beita sektum eða fangelsi allt að einu ári.


Það telst enn alvarlegra brot að bera ljúgvitni í máli sé það gert með það fyrir augum að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, en samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna varðar það allt að 10 ára fangelsi, og fangelsi allt að 16 árum hafi brotið haft, eða því verið ætlað að hafa í för með sér velferðarmissi fyrir nokkurn mann.

Þessar reglur gilda þó ekki um alla sem bera vitni í máli, því þar er sakborningurinn sjálfur sérstaklega undanskilinn. Samkvæmt 143. gr. almennu hegningarlaganna varðar það sökunaut sjálfan ekki refsingu þó að hann skýri rangt frá málavöxtum. Þeim manni skal ekki heldur refsað, sem rangt hefur skýrt frá atvikum vegna þess að réttar upplýsingar um þau hefðu getað bakað honum refsiábyrgð í slíku máli, eða hann hafði ástæðu til að halda, að svo væri.
 
Visindavefurinn