Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra heimsótti Vernd í dag ásamt starfsfólki ráðuneytisins, þar sem þau fengu stutta kynningu á starfsemi og stefnu samtakanna. Vernd hefur allt frá árinu 1993 verið brautryðjandi í því að veita úrræði fyrir afplánun utan fangelsa og hefur starfað að málefnum fanga og dómþola í rúm 63 ár. Guðrún hefur áður átt samtöl við samtökin um fullnustukerfið og hefur sem dómsmálaráðherra sett fangelsismál í forgang, enda er hún talin vera ein af þeim ráðherrum sem standa fremst í áherslum og stefnumörkun í málaflokknum.
Guðrún hefur ítrekað bent á að fangelsismál séu viðkvæmur og flókinn málaflokkur, og hún hefur lagt ríka áherslu á að veita stuðning þeim sem dvelja í fangelsum landsins, þar sem viðkvæm staða kvenfanga og skortur á úrræðum fyrir þær hafa sérstaklega verið henni hugleikin. Vernd fagnar auknum áhuga og skilningi samfélagsins á þessum málaflokki og telur að slíkur skilningur sé mikilvægur fyrir áframhaldandi vinnu á þessu sviði.
Í heimsókninni var einnig fjallað um meðferðar- og endurhæfingastefnu í fangelsismálum, og Vernd ítrekaði mikilvægi þess að stefna stjórnvalda taki mið af grundvallarviðhorfum um bætt lífsgæði fanga, stuðningi við aðlögun þeirra að samfélaginu og veitingu bæði meðferðar og endurhæfingar á meðan afplánun stendur. Slík stefna, að mati Verndar, ætti að hafa það markmið að draga úr ítrekun brota, auka öryggi samfélagsins og tryggja virðingu fyrir réttindum fanga. Vernd lagði einnig áherslu á að refsistefna ætti ekki að hafa skaðleg áhrif á dómþola umfram frelsissviptinguna sjálfa, heldur þurfi meðferð og endurhæfing að vera í boði á meðan á afplánun stendur.
Vernd fagnar þeirri vinnu sem átt hefur sér stað í dómsmálaráðuneytinu við endurskoðun á lögum og stefnu í fullnustumálum á síðasta ári og vonar að skýrar línur muni liggja fyrir á næstunni. Bygging nýrra fangelsa var einnig rædd, en Vernd ítrekaði að slíkar framkvæmdir einar og sér dugi ekki nema með stefnubreytingum. Til þess að árangur náist í endurhæfingu og samfélagsaðlögun fanga þarf stefna stjórnvalda að vera skýr og aðgengileg öllum sem koma að fangelsismálum, bæði innan fangelsa og utan.
Þráinn Farestveit