Fangelsi er tiltölulega nýtt úrræði til lausnar á vanda vegna afbrota í samfélaginu. Franski þjóðfélagshugsuðurinn Michel Foucault hélt því fram að refsingar hafi áður fyrr beinst að líkamanum en síðan hafi sálin tekið við sem viðfang refsingarinnar. Þetta birtist okkur í margvíslegum líkamlegum refsingum fyrri tíma eins og húðstrýkingum, brennimerkingum og aflimunum en varðhald eða vistun til lengri tíma var fátíðara úrræði. Skógganga eða útlegð brotamanna tíðkaðist þó sums staðar, meðal annars hér á landi á þjóðveldisöld. Í dag er hins vegar algengara að dómþolar þurfi að verja fyrirfram skilgreindum tíma í vist eða gæslu bak við lás og slá og dýrmætur tími tapast því frá hringiðu samfélagsins á meðan.
Skipta má markmiðum fangelsa í fernt. Afplánun í fangelsi tekur brotamanninn úr umferð og hann getur þar af leiðandi ekki valdið öðrum borgurum tjóni á meðan. Fangelsisvist felur að auki í sér tilhlýðilega refsingu um leið og vistin er víti til varnaðar fyrir aðra í samfélaginu. Að síðustu felur fangavist í sér möguleika á endurhæfingu eða meðferð brotamannsins sem síðan getur snúið að nýju út í samfélagið sem breyttur og bættur þegn að aflokinni afplánun.
Á Íslandi eru að jafnaði um 100 einstaklingar í fangelsi á hverjum tíma og er fangafjöldi hér einn sá lægsti í V-Evrópu miðað við mannfjölda.
Á síðustu árum hafa komið fram margvísleg ný refsiúrræði sem komið hafa í stað hefðbundinnar fangelsisvistar. Nefna má vistun á sambýlum eins og áfangaheimili Verndar hér á landi, þar sem vistin er bundin tilteknum skilyrðum svo sem að viðkomandi stundi vinnu eða nám, greiði húsaleigu og sé bundinn heimilinu tilteknar stundir á sólarhringnum.
Samfélagsþjónusta er annað úrræði sem fest hefur í sessi hér á landi á síðustu árum. Dómþolar geta sótt um að afplána dóm sem kveður á um allt að sex mánaða refsivist í fangelsi með því að inna af hendi sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins í stað fangavistar. Úrræði af þessu tagi fela í sér minni tilkostnað fyrir ríkisvaldið og gefa dómþolum um leið aukna möguleika á að viðhalda eðlilegum tengslum við aðra í samfélaginu.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á afturhvarfi brotamanna til afbrotahegðunar eftir að þeir hafa afplánað refsingu. Niðurstöður benda til að ítrekunartíðni þeirra sem ljúka fangavist á Íslandi sé mjög svipuð því sem tíðkast meðal annarra þjóða, jafnvel þó að sumar þessara þjóða beiti talsvert þyngri refsingum en við Íslendingar. Engin merki sjást um að þyngri refsingar dragi úr ítrekunartíðni en vísbendingar eru um hið gagnstæða. Nýrri úrræði í réttarkerfinu, eins og samfélagsþjónusta og beiting skilorðsbundinna dóma, hafa því ekki leitt til aukinnar ítrekunartíðni íslenskra afbrotamanna og eiga því hiklaust heima innan viðurlagakerfisins ásamt öðrum úrræðum.