Fangaverk

Verk fanganna eru seld undir merkinu Fangaverk.

Fangi á Litla-Hrauni segir útgáfu matreiðslubókar vera verkefni sem hafi gefið honum mikið. Hann segir hæfni fanga vannýtta og þegar öllu sé á botninn hvolft snúist vinna sem þessi um hvernig einstaklinga við viljum fá aftur út í samfélagið. Fangavörður á Litla-Hrauni fékk hugmyndina að bókinni fyrir fimm árum þegar hún var verslunarstjóri í fangelsinu. „Mér fannst fangar oft vera að kaupa svolítið skemmtileg hráefni til að útbúa sér mat og þetta vakti forvitni hjá mér. Þeir  fóru að segja mér frá ýmsum réttum og þeir gáfu mér uppskriftir og kenndu mér aðferðir, mér fannst þetta vera eitthvað jákvætt sem var að eiga sér stað,“ sagði Margrét Birgitta Davíðsdóttir sem nú starfar á Litla-Hrauni sem fangavörður. Það er fullt af hæfileikabúntum hérna inn. Hugmyndin fór á ís vegna kórónuveirufaraldursins. Þegar Jói Fel hóf störf í eldhúsinu í sumar fór boltinn að rúlla á ný.„Hann fer í framkvæmdina, honum leist vel á og hann fer í framkvæmdina með föngunum í fangelsum landsins. Hjálpar þeim að betrumbæta uppskriftir og skrá niður. Ég veit að þessi vinna var ómetanleg fyrir hann og fangarnir ánægðir með hans framlag.“

 

Margrét Birgitta í versluninni á Litla-Hrauni þar sem hugmyndin að bókinni vaknaði. Niðurstaðan er bókin vatn og brauð sem er seld á vefnum Fangaverk. Uppskriftirnar eru með fjölþjóðlegum blæ og segir Margrét hæfileikaríka matreiðslumenn hafa leynst í hópi fanganna. „Alveg 200%. Það er fullt af hæfileikabúntum hérna inni sem eiga mjög flottar uppskriftir og myndu nýtast vel úti í samfélaginu á veitingastöðum og mötuneytum og annað,“ bætir Margrét við og segist sjálf vera búin að prófa uppskriftina „Vandræðalaxinn“ sem finna má í bókinni. „Mikilvægt að taka þátt í einhverju sem skiptir máli“ Í bókinni eru fimmtíu uppskriftir frá þrjátíu og fimm föngum. Nöfn rétta í bókinni hafa vakið athygli en þar má til dæmis finna "Ólöglega innfluttan baunarétt", "Jailhouse rock" og "Hæstarétt".  Fangi sem á þrjár uppskriftir í bókinni segir verkefnið hafa gefið honum mikið. „Fyrir okkur er þetta mjög mikilvægt og það er mikilvægt að fá að taka þátt í einhverju sem skiptir máli. Mér persónulega fannst þetta gríðarlega gaman,“ sagði hann í viðtali við fréttamann á Litla-Hrauni í dag. Snýst um hvernig einstaklingar koma út í samfélagið Hann segir fangana elda sjálfir ofan í sig, stundum tveir og tveir saman í hópum. Hann segir þá hafa mikinn metnað fyrir útgáfu bókarinnar. „Fyrir mér snýst þetta um það, þegar öllu er á botninn hvolft, hvernig einstaklinga við viljum fá aftur út í samfélagið. Afplánun getur alveg verið tækifæri fyrir marga og mér finnst við þurfa að nýta þetta tækifæri í að efla færni og getu fanga svo þeir eigi frekar séns í að komast aftur út í samfélagið.“ Eins og áður segir á hann sjálfur þrjár uppskriftir í bókinni, meðal annars Jailhouse rock en viðurkennir að hann þurfi að vera duglegur að prófa aðrar en hans sjálfar. „Ég er búinn að heyra að þetta hefur vakið athygli og það er mjög gaman, gleður mig mikið.“

Endurhæfing

Í vélsmiðjunni fer fram ýmis konar sérhæfð vinna. Framleiddir eru kertastjakar og bakkar auk glæsilegrar sandkassagröfu. Guðmundur Friðmar Birigsson hefur starfað með föngunum í vélsmiðjunni.

Guðmundur Friðmar Birgisson hefur starfað í vélsmiðjunni á Litla-Hrauni.Vísir„Þetta eru kannski á bilinu þrír til fimm eða sex sem eru að vinna hér, það fer mikið eftir stöðu á verkefnum,“ segir Guðmundur og bætir við að verkefni sem þetta sé gríðarlega mikilvægt.„Ég held að þetta sé eitthvað það besta þegar maður talar um endurhæfingaferil. “Hann segir nóg að gera á vikunum fyrir jól. Vinnan er sérhæfð, einhverjir séu með bakgrunn og því þurfi að velja eftir getu og hæfni.

Þessi sandkassagrafa og bakkinn fyrir framan er meðal þess sem framleitt er í vélsmiðjunni.Vísir

„Auðvitað læra margir og maður kennir. Það eru margir sem hafa farið mjög metnaðarfullir héðan og tilbúnir að læra meira,“ bætir Guðmundur við.

„Við erum að reyna að þoka þeim upp í áttur, níur og tíur

Í trésmiðjunni er svo búið til handverk með sál eins og verkstjórinn Jón Ingi Jónsson kemst að orði. Þar eru framleiddir vinsælir pizzabakkar og glæsilegir takkóbakkar sem myndu sóma sér vel á hverju heimili. „Hér á Litla-Hrauni er kennd trésmíði einu sinni í viku og við erum í frábæru samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands og erum með ofsalega góða kennara þar.

Jón Ingi Jónsson er verkstjóri trésmiðjunnar á Litla-Hrauni.Vísir/Lýður Valberg

„Svo tek ég við, ég er smiður og ég er að reyna að kenna þeim allt sem ég kann, reyna að hækka spilin hjá strákunum. Þeir eru kannski með tvista og þrista en við erum að reyna að þoka þeim upp í áttur níur og tíur.“

Þarf stundum að eiga „flauelsklætt kurteist nei“ í pokahorninu

Hann segir afraksturinn vera til sölu á síðunni Fangaverk. Viðtökur fanganna við þessum verkefnum hafa verið jákvæð, öll rútína fyrir þá sé jákvæð þar sem þeir geta jafnvel gleymt því í smástund að þeir séu í fangelsi. „Í gegnum trésmíðina eru tveir strákar búnir með sveinspróf, byrjuðu hér og fengu áhuga og héldu áfram. Fóru í raunfærnimat og í sveinspróf.“

Handverk sem framleitt er í trésmiðjunni.Vísir

Samstarfið við fangana hefur gengið vel að sögn Jóns Inga. „Þetta er handverk með sál sem er unnið af strákum í bata. Þeir eru allir með smá athyglisbrest en það er allt í lagi því ég er með það líka. Svo þarf maður að eiga flauelsklætt kurteist nei stundum en þetta gengur vel og mér finnst þeim líða vel og mér líður vel yfir því. “Hægt er að fylgjast með framleiðslu Fangaverks inni á samfélagsmiðlum, bæði Instagram og Facebook.

Umfjöllun MBL 

Smári Jökull Jónsson skrifar 

 

Þráinn Farestveit

Forseti Íslands á Litla-Hrauni

Magnaður dagur á Litla Hrauni með sjálfboðaliðum frá Bataakademíunni og Afstöðu, heimamönnum, Vernd, fangelsismálastjóra og yfirmönnum. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, heiðraði þáttakendur með nærveru sinni og tók þátt í allri dagskránni sem stóð í rúma 3 tíma. Það er örugglega hægt að fullyrða að þessi viðburður sé einstakur og líklega heimsviðburður þar sem forseti heimsæki ríkisfangelsi og tekur þátt í viðburði með þessum hætti. Fluttar voru ræður af Guðmundi Inga Þóroddssyni formanni AFSTÖÐU-réttindafélags, Tolla Morthens, formanni Bataakademíunnar og Agnari Braga og Steinunni frá Batahúsi en í framhaldi var farið í yoga öndunaræfingar og hugleiðslu.

Þá var boðið upp á veitingar að lokinni dagskránni hér fylgja myndir frá viðburðinu.
 
 
Þráinn Farestveit

Á­standið óásættan­legt

Starfsemnn

Fangelsismál á Íslandi eru í langvinnri kerfislægri krísu, boðunarlistar í fangelsi lengjast og á sama tíma fyrnast dómar. Þetta segja forstöðumenn tveggja fangelsa, öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar, Fangavarðafélag Íslands og Afstaða sem gagnrýna öll stefnu stjórnvalda eftir að fram kom að lækka eigi stofnfjárframlag til byggingar á nýju fangelsi tímabundið um 400 milljónir króna á þessu ári. 

„Ástand fullnustukerfisins einkennist af langvarandi vanfjármögnun, ófullnægjandi innviðum og aukinni öryggisáhættu gagnvart bæði föngum og starfsfólki. Þrátt fyrir viðvaranir frá bæði eftirlitsaðilum og stofnuninni sjálfri í áratugi hefur nauðsynleg uppbygging setið á hakanum,“ segir í yfirlýsingu hópsins. Þau segja ástand fangelsismála vera óásættanlegt.

Málaflokkurinn hafi um árabil búið við skertar fjárheimildir, úreltan húsakost og úrræði af skornum skammti, „allt með þeim afleiðingum að öryggi starfsfólks og fanga [sé] stefnt í hættu og virkni kerfisins skert til muna.“

Til stendur að reisa nýtt öryggisfangelsi á Stóra-Hrauni á Eyrarbakka og verður það skammt frá Litla-Hrauni. Undir lok síðasta árs var greint frá því að fangelsið ætti að koma í stað Litla-Hrauns og yrði með um hundrað rými fyrir fanga með möguleika á að bæta við 28 afplánunarrýmum síðar. Kostnaður við verkefnið var þá áætlaður um sautján milljarðar króna. 

Kristín Eva Sveinsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns, Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður Fangelsisins á Hólmsheiði, Rannveig Brynja Sverrisdóttir, öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar, Fangavarðafélag Íslands og Afstaða, félag fanga og áhugamanna um fangelsismál skora öll á stjórnvöld að tryggja markvissa og nægilega fjármögnun og móta skýra framtíðarsýn um faglegt, öruggt og mannúðlegt fullnustukerfi. Það sé forsenda þess að íslenskt réttarríki standist alþjóðleg viðmið og samfélagslegar skyldur.

Fangaverðir þurft aðstoð sérsveitar

„Starfsfólk fangelsa hefur undanfarin misseri þurft að takast á við sífellt flóknari skjólstæðingahóp og fjölgun þungra ofbeldismála. Ofbeldi gegn fangavörðum hefur aukist og nýlega þurftu fangaverðir aðstoð sérsveitar vegna ástands sem skapaðist í fangelsinu Litla-Hrauni. Öryggisrými eru fullnýtt og ekki unnt að aðskilja fanga með ólíkar meðferðar- og öryggisþarfir, sem eykur hættu á átökum og ófyrirséðum atvikum,“ segir í tilkynningunni.

Hópurinn segir fangelsið á Litla-Hrauni ítrekað hafa hlotið gagnrýni fyrir „óviðunandi húsnæðisaðstöðu sem hvorki [uppfylli] öryggiskröfur né skilyrði um mannúðlega vistun.“ Þá hafi Ríkisendurskoðun og Umboðsmaður Alþingis jafnframt bent á að aðbúnaður fanga og starfsfólks sé heilsuspillandi, faglega óviðunandi og hamli framkvæmd laga um fullnustu refsinga.

Skortur á viðeigandi heilbrigðisþjónustu

Til viðbótar hafi Hólmsheiði verið reist með áherslu á skammtímavistun fanga en sé nú í auknum mæli notað sem langtímavistunarúrræði vegna skorts á aðstöðu og úrræðum annars staðar. Þetta auki álag á starfsfólk og dragi úr sveigjanleika fangelsiskerfisins í heild. Uppbygging nýs öryggisfangelsis á Stóra-Hrauni er því sögð brýn og tímabær. 

Hópurinn segir að skortur sé á viðeigandi heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsiskerfisins og meðferðar- og endurhæfingarúrræði takmörkuð. Skert aðgengi að menntun og úrræðum dragi jafnframt úr líkum á árangursríkri betrun og samfélagslegri endurkomu fanga.

 

Mikilvægi skaðaminnkunnar

Umræða um skaðaminnkun í fangelsum hefur nýverið fengið verðskuldaða athygli, meðal annars með því framtaki Matthildarsamtakanna og Afstöðu að gera Naloxone nefúða aðgengilegan föngum. Mig langar að halda þeirri umræðu á lofti.

Naloxone er lyf sem verkar sem mótefni á ópíóíðaviðtaka og getur snúið við öndunarbælingu sem orsakast af ofskömmtun ópíóíða. Ofskömmtun ópíóíða hefur á undanförnum árum þróast í eitt alvarlegasta lýðheilsuvandamál samtímans. Ísland hefur ekki farið varhluta af þeirri þróun og stendur frammi fyrir vaxandi hættu á lyfjatengdum dauðsföllum, einkum þeim sem tengjast ópíóíðanotkun. Samkvæmt nýjustu tölum frá Embætti Landlæknis voru 56 lyfjatengd andlát skráð árið 2023, þar af mátti rekja 34, eða 61%, til ópíóíðanotkunar. Í norrænni rannsókn frá 2017, sem tók til allra Norðurlandanna, reyndist dánartíðni á Íslandi vera sú hæsta, 6,58 lyfjatengd andlát á hverja 100.000 íbúa, hærri en í öllum hinum löndunum, þar sem tíðnin var á bilinu 2,0–6,1.

Á síðustu áratugum hefur skaðaminnkandi nálgun fest rætur og öðlast viðurkenningu í íslensku samfélagi. Þannig hefur samfélagið náð ákveðinni samstöðu um að nauðsynlegt sé að þjónusta einstaklinga á meðan þeir nota vímuefni til að draga úr áhættu, skaða og bæta lífsgæði. Í ljósi þess má spyrja hvort ekki sé tímabært fyrir fangelsiskerfið að sinna einstaklingum í takt við samfélagið. Skaðaminnkandi úrræði eru aðgengileg víða í samfélaginu en aðgengi að sambærilegri þjónustu innan fangelsa er lítið sem ekkert. Hægt er að færa rök fyrir því að skortur á slíkri þjónustu í fangelsiskerfinu sé í andstöðu við alþjóðleg mannréttindalög, þar sem kveðið er á um að fangar eigi að hafa aðgang að sömu heilbrigðisþjónustu og almenningur.

Í fangelsum dvelja einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn, en rannsóknir og reynsla sýna að samanborið við almenning glímir hópurinn oft við hærra hlutfall vímuefnavanda, smitsjúkdóma, geðrænna áskorana og dauðsfalla vegna ofskammta. Því miður hverfur vímuefnavandi ekki við það eitt og sér að vista einstaklinga í fangelsi. Málið er mun stærra og mun flóknara en það, vandinn hverfur ekki með læstum hurðum. Stigsmunur er á því hvort einstaklingur sæki sér sjálfur aðstoðar í vímuefnameðferð eða vistist í fangelsi gegn sínum vilja. Við getum alveg litið á það sem svo að fangelsi eigi að vera vímuefnalaus en ef við viljum nálgast raunveruleikann af raunsæi, verðum við að horfast í augu við að þar sem eftirspurn er, þar skapast framboð.

Fangelsiskerfið er flókið umhverfi þar sem lög, reglur og refsistefna ráða för, sem hefur gert innleiðingu og jafnvel aðeins samtalið sjálft um skaðaminnkandi nálgun krefjandi. Þótt slík þjónusta stangist ekki á við löggjöf, tengist henni oft hegðun sem er ólögleg, svo sem meðhöndlun og varsla ólöglegra vímuefna. Skaðaminnkandi nálgun byggir á að skapa rými fyrir opið samtal um vímuefnanotkun, samtal sem fer fram án feluleiks, skammar, forræðishyggju eða refsinga. Þetta samtal er ekki aukaatriði heldur hornsteinn að árangri. Ef samfélagið gerir þá kröfu að fangelsi séu uppbyggjandi úrræði, hlýtur spurningin að vakna: Verður kerfið ekki að tryggja að einstaklingar geti tjáð sig um eigin vanda, þar sem þeir eru staddir, án ótta? Við meðhöndlum ekki það sem við neitum að tala um. Í þessu ljósi er afar jákvætt að með greiðu aðgengi að Naloxone hafi fyrstu skref verið stigin í átt að markvissari skaðaminnkun innan fangelsa. Þótt enn sé langt í land er með því litið raunsætt á þá staðreynd að vímuefnanotkun tíðkist í fangelsum og felur einnig í sér hugarfarsbreytingu í átt að því að brjóta upp þann feluleik sem ríkir í fangelsiskerfinu.

Í september 2024 hóf Geðheilsuteymi fangelsa að afhenda Naloxone nefúða við lok afplánunar til einstaklinga sem eru í meðferð vegna ópíóíðavanda. Þetta er viðkvæmt tímabil þar sem áhættan á ofskömmtun er sérstaklega mikil. Viðkomandi hefur þá misst þol sitt fyrir efninu en getur átt það til, með lífshættulegum afleiðingum, að taka sambærilegan skammt og áður. Staðan er sú að einstaklingar eru oft á tíðum fastir í ákveðnum vítahring vímuefnanotkunar, heimilisleysis, afbrota og fangelsisvista. Of lítið er um að viðeigandi úrræði, þjónusta eða húsnæði taki við að afplánun lokinni. Afhending Naloxone við lok afplánunar er því ekki aðeins lífsbjargandi inngrip heldur skref í átt að mannúðlegri og raunhæfri nálgun sem skapar grundvöll fyrir opnu samtali um vímuefnanotkun með umhyggju að leiðarljósi. Þrátt fyrir að verkefnið sé nýlega hafið hafa þegar borist upplýsingar um að úðinn hafi verið notaður fljótlega eftir afplánun — sem undirstrikar ekki aðeins mikilvægi úrræðisins, heldur staðfestir einnig að nálgunin bjargi mannslífum.

Tilgangur þessa pistils er að vekja athygli á þeirri þörf sem ríkir fyrir aukna skaðaminnkandi nálgun, bæði innan fangelsiskerfisins og í samfélaginu almennt. Frjáls félagasamtök á borð við Rauða krossinn, Matthildarsamtökin og Afstöðu hafa verið í fararbroddi skaðaminnkunar á Íslandi. Nú þarf opinbera kerfið, ekki síst heilbrigðis-, velferðar- og fangelsiskerfið að fylgja eftir og axla sína ábyrgð. Þróunin er möguleg, ef vilji er til staðar. Það ætti að vera ábyrgð kerfisins að ná til þeirra hópa sem samfélagið hefur jaðarsett með alvarlegum afleiðingum og stuðla að breytingum. Það er því kominn tími til að opinberar stofnanir spyrji ekki lengur hvort innleiða eigi skaðaminnkandi úrræði, heldur hvernig. Það ætti til dæmis fátt að standa í vegi fyrir frekari útbreiðslu Naloxone. Breyting Heilbrigðisráðuneytis á reglugerð um aðgengi að Naloxone nefúða frá 2022 gerir viðeigandi stofnunum og úrræðum kleift að nálgast lyfið og dreifa því til almennings að kostnaðarlausu gegn fræðslu. Skaðaminnkunarúrræðin ná til ákveðinna hópa í samfélaginu en ekki allra og Naloxone dreifing þarf að vera sett í forgang og ná víðar, meðal annars á heilsugæslur. Skaðaminnkandi inngrip eru lífsbjargandi og þau þurfa að vera aðgengileg. Oft sjáum við kerfið aðeins bregðast við í kjölfar fyrirsjáanlegra neyðartilvika. Þegar kemur að umræddum vanda vitum við að ungmennin okkar eru að deyja en því miður virðist sú staðreynd samt ekki nægja til þess að kerfið bregðist eins skjótt við og eðlilegt væri. Eftir sitja einstaklingar sem eru styttra komnir í áhættusamri vímuefnanotkun, aðstandendur og ástvinir sem eiga að geta leitað til kerfisins og fengið viðeigandi fræðslu og stuðning.

Ég minni einnig á vefnámskeiðið Rauða krossins: Naloxone og skyndihjálp sem er aðgengilegt öllum sem vilja kynna sér notkun úðans á öruggan og árangursríkan hátt.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur í Geðheilsuteymi fangelsa og meistaranemi í geðhjúkrun

Margrét Dís Yeoman skrifar

 

 

Þráinn Farestveit

Dómsmálaráðherra heimsækir Vernd

Dómsmálaráðherra heimsækir Vernd – Réttarvitund, endurhæfing og rafrænt eftirlit.

Þann 17. júní heimsótti Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra Vernd fangahjálp ásamt fulltrúum dómsmálaráðuneytisins. Tilefni heimsóknarinnar var að kynna sér starfsemi samtakanna og ræða framtíðarsýn í málefnum fanga og dómþola.

Vernd kynnti þá stefnu sína sem hefur mótast í rúm 63 ára starfsemi, þar sem megináhersla er lögð á mannúð, samfélagslega aðlögun og raunhæfar leiðir til að draga úr ítrekun brota. Samtökin hafa verið leiðandi í að bjóða úrræði utan hefðbundinna fangelsa og fagna auknum skilningi stjórnvalda á mikilvægi endurhæfingar.

Á fundinum lagði dómsmálaráðherra áherslu á að fangelsismál væru bæði viðkvæmur og flókinn málaflokkur, sem kallaði á skýra stefnu og samræmdar aðgerðir. Sérstaklega var rætt um notkun rafræns eftirlits sem mikilvægs úrræðis til að stytta vist í lokuðu rými og styðja við aðlögun einstaklinga að samfélaginu. Vernd styður slíka þróun og telur nauðsynlegt að styrkja notkun rafræns eftirlits sem hluta af mannúðlegri og árangursríkri fullnustu.

Einnig var fjallað um meðferð og endurhæfingu innan refsivistar og mikilvægi þess að stefnan taki mið af bættum lífsgæðum fanga, stuðningi við endurkomu þeirra til samfélagsins og virðingu fyrir réttindum þeirra. Vernd benti jafnframt á að bygging nýrra fangelsa ein og sér dugi ekki til árangurs – nauðsynlegt sé að skýrar línur liggi fyrir og að stefnan sé aðgengileg öllum sem koma að fangelsismálum.

Vernd fagnar því samtali sem átt hefur sér stað við ráðherra og ráðuneytið, og lýsir von um áframhaldandi samráð við mótun stefnu sem byggir á mannúð, skýrleika og virkri samfélagsþátttöku fanga.

 

 

Þráinn Farestveit