Stuðlar í heimsókn á Vernd

 

Starfsmenn Stuðla sem er meðferðarstöð ríkisins fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára komu í heimsókn til okkar á Vernd miðvikudaginn 25. September en heimsóknin hafði verið á dagskrá í nokkurn tíma.  Stuðlar eru úrræði fyrir börn og unglinga eins og áður sagði en standa fyrir umhyggju, öryggi, virðingu og vöxt. Leitast er við að sýna hverjum skjólstæðingi vinalegt viðmót og nærgætni. Hlúð er að sjálfsvirðingu hvers og eins með því að leggja ríka áherslu á virðingu fyrir sérkennum og því sameiginlega í fari okkar. Hér skiptir einnig máli að skipulega er unnið að því að grípa tækifæri til að vaxa og dafna þar sem frelsi og ábyrgð haldast í hendur eins og kemur fram á heimasíðu Stuðla.

Allir starfsmenn Stuðla eru þjálfaðir í áhugahvetjandi samtalsaðferð (MI), stöðustyrkjandi viðmóti og félgasfærni- og sjálfsstjórnaraðferð (ART). Greining og meðferð haldast í hendur í einstaklings- og fjölskylduviðtölum, sálfræðiathugunum og úrvinnslu upplýsinga frá meðferðaraðilum og skóla. Daglega er farið í útivist, tómstundir eða íþróttir. Skólanám er á vegum Brúarskóla og fer fram á Stuðlum. Einnig er þar starfrækt neyðarvistun sem er bráðaúrræði fyrir börn og unglinga á aldrinum 12 til 18 ára. Hámarksvistunartími er fjórtán sólahringar. Ekki er óalgengt að skjólstæðingar Verndar hafi farið inn á Stuðla og eru mörg einkenni skjólstæðinga Verndar og Stuðla af svipuðum toga.