Notkun vímuefna hefur aukist gríðarlega síðustu áratugi og er mikið vandamál innan samfélagsins í heild. Vímuefni eru þau efni sem koma manni í vímu eins og nafnið gefur til kynna. Þau breyta starfsemi heilans og geta ýmist haft örvandi eða slævandi áhrif. Þar með geta þau breytt skynjun, meðvitund, skapi og hegðun einstaklings. Í vímu finna einstaklingar oft fyrir vellíðunar tilfinningu en stundum sjá þeir og hugsa hluti sem eru andstæðir raunveruleikanum. Þar af leiðandi gera einstaklingar stundum hluti sem þeir myndu annars ekki gera og í kjölfarið sjá þeir eftir því þegar efnin eru hætt að virka. Algeng vímuefni sem hafa slævandi áhrif er alkóhól, kannabis og ópíóðar. Aftur á móti eru þau vímuefni sem hafa örvandi áhrif meðal annars MDMA, kókaín og amfetamín. Ásamt því er vert er að nefna að hver sem er óháð bakgrunni, fjárhagsstöðu, aldri, kyni og samfélagslegri stöðu getur þróað með sér vímuefnavanda.
Margir dómþolar eiga sér erfiða sögu að baki og glíma þeir þar af leiðandi við ýmsan vanda s.s vímuefnavanda sem getur verið ástæða afbrotahegðunar þeirra. Þar af leiðandi eru þeir oft jaðarsettir fyrir afplánun og jafnvel enn meira við lok afplánunar. Því er gríðarlega mikilvægt að þessir einstaklingar fái viðeigandi meðferð og þjónustu til að styrkja verndandi þætti þeirra og þar með draga úr áhættuþáttum til að koma í veg fyrir frekari afbrot.
Margir íslenskir dómþolar hafa greint frá því að afbrotahegðun þeirra hafi stafað af vímuefnaneyslu og telja að hún hafi verið upphaf afbrotaferils þeirra. Samkvæmt niðurstöðum úr könnun á meðal þeirra sem hafa dvalið á áfangaheimilinu Vernd er greint frá því að um helmingur þeirra hafa viðurkennt að eiga við vímuefnavanda að stríða. Ásamt því svarar meirihluti því játandi að hafa ekið undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Þar að auki er meiri en helmingur sem hefur misst ökuréttindi sín vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Að því sögðu er vert að nefna að árið 2023 voru rúmlega 1.700 brot skráð þar sem ekið var undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Vímuefnaneysla hefur því ekki aðeins alvarleg áhrif á einstaklinga heldur einnig á samfélagið í heild. Hér kemur samfélagsleg ábyrgð sterk inn þar sem það skiptir máli að leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið að betri stað. Með aukinni fræðslu, forvörnum og markvissri endurhæfingu er mögulegt að draga úr vímuefnavanda og afleiðingum hans og þar af leiðandi stuðla að betra og öruggara samfélagi í heild.
Hvert er hægt að leita við áfengis og vímuefnavanda?
Ef einstaklingar eru undir 18 ára:
- Stuðlar
- Meðferðarheimilið Bjargey
- Barna- og fjölskyldustofa
- Heilsugæslustöðvar
- Umboðsmaður barna
- Hjálparsími Rauða krossins
- Bergið
- Sjálfstætt starfandi sálfræðingar og annað fagfólk
Ef einstaklingar eru eldri en 18 ára:
- Vogur
- Krýsuvík
- Samhjálp
- SÁÁ
- AA-samtökin
- Göngudeild á Akureyri
- Heilsugæslustöðvar
- Vímuefnadeild Landspítalans
- Hjálparsími Rauða krossins
- Sjálfstætt starfandi sálfræðingar og annað fagfólk
Amíra og Rakel
Skrifað af vettvangsnemum á Vernd
Heimildir
https://www.logreglan.is/arid-i-hnotskurn-bradabirgdatolfraedi-logreglu-2023/