Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025

Mannr

Afstaða, félag um bætt fangelsismál hlaut í dag 600 þúsund krónur að gjöf fyrir að hljóta mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri afhenti Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni félagsins, verðlaunin í Höfða fyrr í dag fyrir starf Afstöðu í þágu fanga og aðstandenda þeirra. Verðlaunin eru afhent í dag, 16. maí, á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar en markmiðið með deginum er að „vekja athygli á mannréttindum borgarbúa og mannréttindastefnu borgarinnar,“ að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Það var mannréttindaráð borgarinnar sem samþykkti á fundi sínum að Afstaða hlyti verðlaunin í ár en þau eru veitt árlega til einstaklinga, hópa, félagasamtaka eða stofnana sem þykja hafa á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um mannréttindi.

„Afstaða heimsækir reglulega öll fangelsi landsins og veitir stjórnvöldum aðhald sem öflugur málsvari bættra fangelsismála á Íslandi. Afstaða, sem í ár fagnar 20 árum, samanstendur af sjálfboðaliðum, jafningjum og fagfólki og leggur félagið áherslu á jafningjastuðning, endurhæfingu og endurkomu einstaklinga í samfélagið eftir afplánun,“ segir meðal annars í rökstuðningi valnefndar, en nánar er fjallað um verðlaunin á vef borgarinnar.

Upplýsingatorg fékk viðurkenningu

Við sama tækifæri var einnig afhent svokölluð Aðgengisviðurkenning Reykjavíkurborgar. Það er Katarzyna Beata Kubis sem hlýtur viðurkenninguna í ár fyrir upplýsingatorg sem ætlað er forráðafólki og aðstandendum fatlaðra barna. Upplýsingatorgið miðlar upplýsingum um þjónustu á einum stað þar sem efnið er aðgengilegt á íslensku og ensku.

Fram kemur í tilkynningunni að viðurkenningunni sé ætlað að gera aðgengismálum hærra undir höfði og varpa ljósi á það sem vel er gert í málaflokknum. Verkefnið var unnið af Þroskahjálp í samvinnu við Mennta- og barnamálaráðuneytið sem veitti styrk til þess árið 2023.

 

Inn: Þráinn Farestveit

Afstaða heimsækir fangelsin

Afstaða
Afstaða, RETS frá Finnlandi, WayBack frá Noregi, IPS, Compassion Prison Project í Bandaríkjunum og LL Yale School of Medicine heimsóttu í dag íslensk fangelsi í boði Afstöðu, Traustan Kjarna og Fangelsismálastofnunar ríkisins.
Markmiðið með vettvangsferðinni er að efla samstarf og samtal um jafningjastuðning og kanna leiðir til að bæta hann innan fangelsiskerfisins.
Á döfinni er stofnun norrænna samtaka um jafningjastuðning, sem einnig munu vinna að auknum þrýstingi fyrir bættri endurhæfingu fanga.
Ferðin gekk afar vel og ríkti mikil ánægja í hópnum, ferðin lofar góðu um framhaldið og skapar jarðveg fyrir öflugt samstarf til framtíðar.
 
 
Þráinn Farestveit

Raddir fanga

Helgi Gunnlaugsson skrifar athyglisverða grein á Vísi 12. maí þar sem hann bendir á hversu mikilvæg frjáls félagasamtök er í mismunandi kerfum. Að félagsamtök breyti stefnum og straumum með starfsemi sinni.

Helgi bendir á að í kennslubók í refsirétti við Lagadeild Háskóla Íslands kom fram á níunda áratugnum að ekki heyrðist frá föngum hér á landi, engin rödd bærist þaðan. Höfundi bókarinnar þótti það miður, velti fyrir sér ástæðum og kallaði eftir málstað þeirra. Öðru máli gegnir í dag. Afstaða félag fanga hefur barist fyrir málefnum dómþola og aðstandenda þeirra í bráðum tuttugu ár og fagnar áfanganum með afmælisráðstefnu fimmtudaginn 22. maí næstkomandi.

Af hverju styðja við fanga? Væri ekki nær að styðja við þolendur brota og ástæður þess að byggð eru fangelsi. Jú það skiptir sannarlega máli. Fram hafa komið öflug samtök sem styðja þolendur brota eins og Stígamót og Kvennaathvarfið og ekki vanþörf á að bæta um betur. En um leið og við sýnum stuðning við þolendur brota verðum við jafnframt að huga að gerendum þeirra. Hvort sem fangar eru tvö ár eða tíu í fangelsi snúa þeir aftur út í samfélagið hvort sem okkur líkar betur eða verr. Miklu skiptir að endurkoma þeirra verði farsæl og án brota. Rannsóknir sýna ótvírætt að stuðningur við dómþola og aðstandendur þeirra ekki síst börn auðveldar endurkomu þeirra í samfélagið og dregur úr ítrekun brota. Nægir að nefna mikilvægt framlag fangahjálpar Verndar hér á landi því til staðfestingar. Jafnframt er brýnt að samfélagið allt sé tilbúið að taka aftur við þeim sem vilja snúa til betri vegar og taka þátt í samfélaginu sem virkir borgarar.

Á undanförnum árum hef ég tekið þátt í rannsóknum á afstöðu Íslendinga til afbrota og refsinga. Fram hefur komið að Íslendingar telja refsingar of vægar og eru það einkum ofbeldisbrot sem nefnd eru í því samhengi. Við meiri upplýsingar sem þátttakendum eru gefnar um einstök brot og gerendur þeirra virðist draga úr refsihörku svarenda. Sjónarmið endurhæfingar gerenda og stuðningur við þolendur brota verða meira áberandi. Langflestir vilja að meðferð brotamanna eigi að vera meginmarkmið refsinga en ekki bara refsing til þess eins að refsa. Réttaröryggi borgaranna er þáttakendum ofarlega í huga, stuðningur við þolendur og ábyrgð gerenda á brotum sínum. Svarendur fordæma brotin en ekki endilega manneskjurnar bak við þau. Oft liggur þjáning að baki, persónulegar og félagslegar áskoranir sem taka þarf á, svo ekki lendi allt í sama farinu og áður. Stuðningur við dómþola er lykilatriði í því samhengi.

Afstaða hefur átt ríkan þátt í því að raddir dómþola eru nú viðurkenndar og orðnar meira áberandi í samfélaginu en áður. Skilningur hefur aukist á að stuðningur við fanga er jafnframt stuðningur við samfélagið allt og réttaröryggi borgaranna. Jafnframt er ljóst að mikið verk er enn óunnið.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við HÍ.

 

 

 

Inn: Þráinn Farestveit

 

Fá allir að vera með?

HH

Þegar einstaklingar ljúka afplánun í fangelsi standa þeir oft frammi fyrir miklum áskorunum við að snúa aftur til samfélagsins. Ein stærsta hindrunin er að finna vinnu. Fordómar og vantraust í samfélaginu gera það að verkum að margir atvinnurekendur veigra sér við að ráða fólk sem hefur afplánað dóm, jafnvel þótt viðkomandi hafi tekið sig á og vilji byggja upp nýtt líf. Þetta veldur vítahring þar sem einstaklingar sem vilja breyta til fá ekki tækifæri, sem eykur hættuna á að þeir lendi aftur í afbrotum. Hér þarf breyting að eiga sér stað, og fyrirtæki og stofnanir þurfa að axla meiri samfélagslega ábyrgð. Ef við skoðum myndina hér að neðan má sjá hlutfall þeirra einstaklinga sem lenda aftur í fangelsi, eru dæmdir að nýju eða koma aftur við sögu lögreglu. Það sést greinilega að stór hluti snýr aftur inn í réttarkerfið. Hins vegar lækkar þetta hlutfall verulega ef viðkomandi afplánar refsingu með samfélagsþjónustu. Hvað segir þetta okkur?

Það bendir til þess að samfélagsþjónusta gefi einstaklingnum tilgang – eitthvað jákvætt til að stefna að. Á Norðurlöndunum hafa ýmsar lausnir verið innleiddar til að auðvelda endurkomu einstaklinga í samfélagið eftir afplánun. Dæmi verða tekin frá okkar helstu fyrirmyndum. Í Danmörku er í gangi verkefnið High:five, sem hófst árið 2006 og tengir fyrrverandi fanga við fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu fá fjárhagslega hvata frá danska ríkinu, svo sem skattaívilnanir og styrki. Verkefnið hefur skilað góðum árangri: Um 70% þeirra sem fara í gegnum verkefnið fá fasta vinnu eða hefja nám. Þetta hefur leitt til þess að færri falla aftur í afbrot, sem sparar ríkinu stórar fjárhæðir í fangelsiskostnaði. Í Noregi er mikil áhersla lögð á endurhæfingu frekar en refsingu, og verkefni eins og WayBack veita einstaklingum með sakaferil stuðning í atvinnuleit og húsnæðismálum. Í Svíþjóð vinnur sænska fangelsismálastofnunin Kriminalvården náið með atvinnulífinu til að tryggja að fangar fái starfsþjálfun sem nýtist þeim þegar þeir ljúka afplánun. Þar hafa sum sveitarfélög einnig tekið upp þá stefnu að setja kvóta á ráðningar fyrrverandi fanga í opinber störf. Dæmi um ferlið hjá Dönum High:five hefur samband við yfirvöld í þeim landshluta þar sem starf býðst og er þeim gert að skipuleggja tveggja vikna ólaunað þjálfunartímabil sem hefst við lausn brotamanns.

Á sama tíma útvegar High:five fjármagn til að styðja við starfandi leiðbeinanda á vinnustaðnum meðan á þessu tímabili stendur. Yfirvöld undirbúa skrifleg gögn en High:five aðstoðar fyrirtækið við undirskriftir og skil á skjölum til viðeigandi yfirvalda. Vinnustaðurinn úthlutar leiðbeinanda sem hefur fengið viðeigandi þjálfun. Hann sér um að aðstoða einstaklinginn á upphafsstigi starfsins og gengur úr skugga um að allt gangi samkvæmt áætlun. Verkefnastjóri viðheldur reglulegu sambandi við leiðbeinandann. Eftir tvær vikur tilkynnir fyrirtækið/stofnunin High:five um að það hyggist ráða einstaklinginn og þurfi ekki frekari aðstoð. Fyrirtækinu/ stofnuninni er þó gert ljóst að það geti ávallt haft samband við High:five ef upp koma óvænt vandamál í tengslum við nýja starfsmanninn. Þetta virkar Tölulegar upplýsingar sýna að þessar aðferðir virka. Þær minnka líkur á endurkomu og stuðla þar af leiðandi að betra samfélagi. Það er einnig hagkvæmara fyrir samfélög að auðvelda einstaklingum að finna vinnu en að loka þá aftur inni, en endurkomutíðni fyrri fanga er oft há hjá þeim sem fá ekki stuðning eftir afplánun. Ef fyrirtæki og stofnanir tækju meiri samfélagslega ábyrgð væri það ekki aðeins til góðs fyrir einstaklingana sjálfa heldur einnig fyrir efnahag og samfélagslega velferð. Af hverju ættu íslensk fyrirtæki og stofnanir að taka meiri ábyrgð?

Á Íslandi eru að meðaltali 120-140 fangar í afplánun hverju sinni, og árlega ljúka tugir einstaklinga afplánun. Þrátt fyrir að margir þeirra vilji snúa við blaðinu og hefja nýtt líf standa þeir frammi fyrir fordómum og skorti á atvinnu- og menntunartækifærum. Ríkið gæti hvatt fyrirtæki með skattaafslætti, líkt og gert er í Danmörku. Fangelsin gætu veitt markvissari starfsþjálfun svo að einstaklingar komi út með færni sem nýtist á vinnumarkaði. Að lokum mætti efla fræðslu og vitundarvakningu um að fólk sem hefur afplánað dóm hafi rétt á nýju upphafi. Samfélagið á ekki að dæma fólk til ævilangrar útilokunar frá vinnumarkaði fyrir mistök sem það hefur gert í fortíðinni. Við eigum að leggja okkur fram við að skapa samfélag sem styður fólk til að gera betur og gefur því tækifæri til að byggja sig upp og koma inn í samfélagið á ný sem virkir og ábyrgir einstaklingar. Það er kominn tími til að íslensk fyrirtæki og stofnanir axli meiri samfélagslega ábyrgð og veiti fólki sem hefur lokið afplánun raunverulegt tækifæri til að byrja upp á nýtt. Einfaldar aðgerðir gætu skipt miklu máli Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi hafa mikið svigrúm til að gera betur í þessum málum. Það er hægt að fara eftir fyrirmynd nágrannaþjóða okkar, sem oft eru töluvert á undan í þróun úrlausna þess málaflokks sem um ræðir. Eins er mikilvægt að nefna atriði á borð við skattaafslátt fyrir fyrirtæki sem ráða fyrrverandi fanga, starfsþjálfun og menntun innan fangelsa, þannig að fangar útskrifist með atvinnuhæfa færni. Aukinn stuðningur við atvinnuleit eftir afplánun væri einnig jákvætt skref. Að lokum Ef Ísland ætlar að minnka endurkomu og hjálpa þessum viðkvæma hópi að fóta sig í samfélaginu þarf að gera breytingar. Það er ekki nóg að sleppa fólki út úr fangelsi án stuðnings. Við þurfum að tryggja að það hafi raunveruleg tækifæri á vinnumarkaði og geti byggt sér betra líf. Það er kominn tími til að íslensk fyrirtæki og stofnanir axli meiri samfélagslega ábyrgð.

Allir eiga skilið annað tækifæri – leyfum öllum að vera með! Gréta Mar Jósepsdóttir Höfundur er stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur og sjálfboðaliði Rauða kross Íslands.

 

Þráinn Farestveit

Sr. Hjalti Jón Sverrisson nýr fangaprestur

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti í starf fangaprests þjóðkirkjunnar.

Sr. Hjalti Jón Sverrisson hefur verið ráðinn í stöðuna.

Hann er fæddur í Reykjavík þann 13. júlí árið 1987.

Foreldrar hans eru Ásta María Hjaltadóttir og Sverrir Gestsson.

Maki hans er Eva Björk Kaaber og dóttir hennar er Theodóra Guðrún Kaaber.

Hjalti Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2007.

Hann lauk embættisprófi í guðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands árið 2018.

Hann var vígður til prestsþjónustu við Laugarneskirkju árið 2018.

Árið 2020 lauk Hjalti Jón viðbótardiplómunámi í sálgæslufræðum við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Hann var ráðinn sjúkrahúsprestur árið 2021 og starfaði á Landspítala til ársins 2024.

Auk þess sinnti hann afleysingu sem prestur í Laugardalsprestakalli veturinn 2023-2024.

Hjalti kom um árabil að starfi Seekers undir handleiðslu sr. Toshiki Toma og hefur í starfi sínu látið sig varða málefni fólks á flótta.

Hann hefur leyst af sem fangaprestur frá því í september 2024.

Hjalti Jón hefur um árabil komið að hópastarfi með syrgjendum á vettvangi Sorgarmiðstöðvar sorgarmidstod.is og Arnarins arnarvaengir.is

Hjalti hefur komið að málefnum Verndar frá því í september 2024 og setið í húsnefnd samtakanna frá þeim tíma. Hjalti hefur á þessum tíma sýnt að hann

hefur ástríðu fyrir starfi sínu.

 

Þráinn Farestveit