Fangahjálp í 45 ár

Um þessar mundir minnist fangahjálpin Vernd fjörutíu og fimm ára afmælis síns en hún var stofnuð 1. febrúar 1960. Það voru konur sem áttu stærstan þátt í því að fangahjálpinni var ýtt úr vör og munaði þar mestu um styrka forystu frú Þóru Einarsdóttur. Mikilvægt er að gæta ætíð að upphafinu og hafa göfug markmið frumherjanna að leiðarljósi í starfi Verndar.

 
Fangahjálpin Vernd hefur eins og nafnið ber með sér það m.a. að markmiði að liðsinna föngum svo þeir geti fótað sig betur úti í lífinu í lok afplánunar. Þess vegna hefur Vernd rekið eigið áfangaheimili nánast allt frá fyrstu tíð og til þessa dags í dag.

Áramótakveðja

Stjórn og starfsfólk Verndar sendir landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár með þökk fyrir samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.

 

Páll Winkel nýr fangelsismálastjóri

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði í dag Pál E. Winkel aðstoðarríkislögreglustjóra í embætti forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Páll tekur við embættinu af Valtý Sigurðssyni sem skipaður var í embætti ríkissaksóknara á dögunum. Þrír sóttu um embætti fangelsismálastjóra, Páll, Erla Kristín Árnadóttir, lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, og Halldór Frímannsson, lögmaður á fjármálasviði Reykjavíkurborgar.

kvíabryggja í fréttum

Grunur vaknaði á dögunum um að kynferðisbrotamaður sem situr inni á Kvíabryggju hefði hringt í fórnarlamb sitt úr fangelsinu og ógnað því. Þolandi gerði lögreglu viðvart og Fangelsismálastofnun rannsakaði málið í kjölfarið. Ekki þótti sannað að símtalið hefði komið úr síma geranda og því var málið látið niður falla.

Föngum á Kvíabryggju er heimilt að hafa farsíma frá kl. 8 til 23, en þeir eru skráðir. Notkun þeirra er þó ekki háð eftirliti en misnotkun þeirra getur varðað brottflutningi yfir í annað fangelsi. Samkvæmt heimildum 24 stunda er afar auðvelt að smygla óskráðum farsímum, sem og öðrum hlutum, inn í fangelsið.

Kvíabryggja er skilgreind sem opið fangelsi. Þar er öryggisgæsla í lágmarki og fangar njóta ákveðins frelsis umfram þá sem vistast í lokuðu fangelsi. „Þeir sem fá að afplána á Kvíabryggju eru þeir sem við teljum best treystandi til að fara eftir þeim reglum sem þar eru í gildi," segir Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun. „Það er til lítils að vista þar menn sem við teljum að muni flýja við fyrsta tækifæri, enda er auðvelt að flýja þaðan." mbl frétt

Menntun leið til betrunar

Rúmur helmingur íslenskra fanga er með grunnskólapróf eða minni menntun. Þetta kemur fram í samnorrænni rannsókn um menntun, menntunaraðstæður og námsáhuga á meðal fanga á Norðurlöndum sem Helgi Gunnlaugsson og Bogi Ragnarsson kynntu á Þjóðarspeglinum, félagsvísindaráðstefnu Háskóla Íslands, í gær.
Þeir fangar sem leggja stund á nám eru ólíklegri en aðrir fangar til að lenda aftur í fangelsi, samkvæmt erlendum rannsóknum. Þar með er menntun þeirra mikilvægur liður í því að draga úr ítrekunartíðni afbrota.
Magnús Einarsson, fangi og nemi á Litla-Hrauni, telur að of mikil áhersla sé lögð á bóknám í kerfinu. Hann segir marga samfanga sína vera mikla verkmenn og því aðstöðuleysi til fulls verknáms í fangelsum slæmt. „Ef fangelsisvistin á að vera til betrunar þá þarf að vinna með mönnum. Það er margt sem hér þarf að bæta bæði varðandi menntun og sálfræðiþjónustu til að svo geti orðið," segir Magnús.
Þegar rannsóknin var gerð lagði þriðjungur fanga stund á nám, þar af flestir á framhaldsskólastigi. Þó yfirleitt sé þar um fjarnám að ræða eru dæmi þess að vistmenn á Litla-Hrauni hafi fengið að stunda staðbundið nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands, að sögn Inga S. Ingasonar, kennslustjóra á Litla-Hrauni.
24Stundir