Um þessar mundir minnist fangahjálpin Vernd fjörutíu og fimm ára afmælis síns en hún var stofnuð 1. febrúar 1960. Það voru konur sem áttu stærstan þátt í því að fangahjálpinni var ýtt úr vör og munaði þar mestu um styrka forystu frú Þóru Einarsdóttur. Mikilvægt er að gæta ætíð að upphafinu og hafa göfug markmið frumherjanna að leiðarljósi í starfi Verndar.
Fangahjálpin Vernd hefur eins og nafnið ber með sér það m.a. að markmiði að liðsinna föngum svo þeir geti fótað sig betur úti í lífinu í lok afplánunar. Þess vegna hefur Vernd rekið eigið áfangaheimili nánast allt frá fyrstu tíð og til þessa dags í dag.