Nú eru áttatíu ár liðin frá því að vinnuhælið, síðar fangelsi, að Litla-Hrauni tók til starfa. Þann 8. mars 1929 komu fyrstu fangarnir til að taka út refsingu sína. Frá þeim tíma og allt til þessa hafa þúsundir manna farið um hlaðið á Litla-Hrauni og sumir oftar en einu sinni. Á þriðja áratug síðustu aldar var mikið ófremdarástand í fangelsismálum landsins. Hegningarhúsið, sem var eina afplánunarfangelsið, var ekki í góðu ástandi og dugði ekki lengur sem slíkt.
Margir biðu þess að taka út refsingu sína en komust ekki að því fangelsið var oftast yfirfullt. Þá sem nú vissu menn að það var íþyngjandi refsing að bíða eftir því að komast til afplánunar. Nú árið 2009 munu á annað hundrað manns bíða þess að taka út refsingu sína. Augljóst er að á þeim vanda þarf að vinna bug. Það stóð reyndar til en í kjölfar efnahagshrunsins var uppbyggingu fangelsa slegið á frest.
Ríkisstjórnin, sem tók við völdum 1927 með Jónas Jónsson frá Hriflu sem dómsmálaráðherra, sá að eitthvað varð að gera í fangelsismálunum þjóðarinnar. Margir málsmetandi menn voru á sama máli og gagnrýndu harðlega aðbúnaðinn í Hegningarhúsinu í Reykjavík. Menn stungu upp á ýmsum stöðum sem vænlegir væru fyrir vinnuhæli eins og Fossvoginum, Bústöðum og Mosfellssveit. En austur á Eyrarbakka stóð fallegt hús sem Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisisins, hafði teiknað. Það átti að verða sjúkrahús. Framkvæmdin reyndist hins vegar of dýr og stöðvaðist. Húsið stóð fokhelt í nokkur ár og enginn vissi hvað beið þess.Í umræðum á Alþingi 1928 um frumvarp um betrunarhús og letigarð (síðar vinnuhæli) kom fram að stjórnvöld hefðu augastað á sjúkrahúsbyggingunni fyrir austan. Ekki voru allir sammála því að sú bygging og staðsetning væri heppileg. Töldu sumir m.a. að hún væri of langt frá Reykjavík. Engu að síður fór það svo að hún var keypt undir fyrirhugað vinnuhæli.