Grunur vaknaði á dögunum um að kynferðisbrotamaður sem situr inni á Kvíabryggju hefði hringt í fórnarlamb sitt úr fangelsinu og ógnað því. Þolandi gerði lögreglu viðvart og Fangelsismálastofnun rannsakaði málið í kjölfarið. Ekki þótti sannað að símtalið hefði komið úr síma geranda og því var málið látið niður falla.
Föngum á Kvíabryggju er heimilt að hafa farsíma frá kl. 8 til 23, en þeir eru skráðir. Notkun þeirra er þó ekki háð eftirliti en misnotkun þeirra getur varðað brottflutningi yfir í annað fangelsi. Samkvæmt heimildum 24 stunda er afar auðvelt að smygla óskráðum farsímum, sem og öðrum hlutum, inn í fangelsið.
Kvíabryggja er skilgreind sem opið fangelsi. Þar er öryggisgæsla í lágmarki og fangar njóta ákveðins frelsis umfram þá sem vistast í lokuðu fangelsi. „Þeir sem fá að afplána á Kvíabryggju eru þeir sem við teljum best treystandi til að fara eftir þeim reglum sem þar eru í gildi," segir Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun. „Það er til lítils að vista þar menn sem við teljum að muni flýja við fyrsta tækifæri, enda er auðvelt að flýja þaðan." mbl frétt