Athöfnin fór fram í blíðskaparveðri og byrjaði á því að forstöðumaður fangelsisins, Margrét Frímannsdóttir, bauð gesti velkomna og lýsti þeim endurbótum sem fram fóru á húsnæðinu. Til máls tóku Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, Ólafur Örn Ólafsson, sveitarstjóri Ölfushrepps, Sigurður Guðmundsson, formaður fangavarðafélgsins og sr. Hreinn Hákonarson, fangelsisprestur sem blessaði starfsemi fangelsisins. Í ræðu innanríkisráðherra kom fram að margar jákvæðar breytingar ættu sér nú stað í fangelsismálum á Íslandi og nefndi hann í því sambandi m.a. opnun fangelsisins, rýmkun samfélagsþjónustu, rafrænt eftirlit og ákvörðun um byggingu fangelsis á Hólmsheiði.Töluverðar breytingar voru gerðar á húsnæðinu sem áður hýsti réttargeðdeild sem nú hefur verið flutt á Klepp og var vistarverum fjölgað en áður voru vistaðir þar sjö einstaklingar. Vandlega var staðið að öllum undirbúniningi og er aðbúnaður í fangelsinu góður. Öllum þeim sem að verkinu komu er þakkað fyrir vel unnin störf. Gert er ráð fyrir að í fangelsinu verði allt að 20 fangar sem treyst er til þess að vistast í opnu fangelsi. Föngum á Sogni er ætlað að stunda vinnu eða nám og sjá fangar sjálfir um eldamennsku, þrif, þvotta og annað er viðkemur almennu húshaldi og er markmiðið m.a. að þjálfa þá í lífsleikni. Þannig er lagður grunnur að því að undirbúa fanga til að koma út í samfélagið að nýju.
ARKÍS arkitektar hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Dómnefnd kynnti þær tillögur sem bárust í samkeppnina við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Dómnefnd skipuðu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður og sérfræðingur í innanríkis-ráðuneytinu, Páll E. Winkel, fangelsismálastjóri, skipaður af ráðherra, Pétur Örn Björnsson, arkitekt, skipaður af ráðherra og tilnefndur af hálfu Arkitektafélags Íslands, Gylfi Guðjónsson og Hildur Gunnarsdóttir arkitektar. Alls bárust átján tillögur, þar af tíu erlendis frá. Fyrstu verðlaun í samkeppninni fékk tillaga frá arkitektastofunni Arkís, höfundar hennar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar. Önnur verðlaun hlaut tillaga frá Arkitektur.is og þriðju verðlaun hlaut tillaga frá Teiknistofunni Tröð ehf. Sjá nánari upplýsingar á vef innanríkisráðuneytisins.
Hinn sextán ára gamli Stefán Blackburn, sem á fimmtudag var dæmdur í fjögurra ára óskilorðsbundið fangelsi, er sem stendur vistaður í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Dómurinn yfir honum er þyngsti óskilorðsbundni dómur sem svo ungur einstaklingur hefur hlotið hérlendis.
Samningur um vistun fanga undir átján ára aldri hefur verið í gildi milli Barnaverndarstofu og fangelsismálayfirvalda frá árinu 1998, en hann miðar að því að börn séu að jafnaði vistuð á meðferðarheimilum frekar en í fangelsum. Samkvæmt heimildum 24 stunda hafði Stefán þó áður verið vistaður á slíkum heimilum en þau treystu sér ekki til að taka við honum að nýju. Hann hefur því dvalið í fangelsi frá því að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í apríl í fyrra, þá fimmtán ára gamall.
Var líka á Kvíabryggju
Samkvæmt heimildum 24 stunda var reynt að vista Stefán um tíma í opnu fangelsi á Kvíabryggju en það þótti ekki gefa góða raun. Þá þykir heldur ekki hentugt að vista hann á Litla-Hrauni þar sem stór hluti þess hóps sem Stefán framdi sín afbrot í slagtogi við dvelur þar um þessar mundir.
Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segist ekki telja að skortur sé á úrræðum til vistunar fanga undir átján ára aldri og telur engar forsendur fyrir hendi til að setja upp sérstakt unglingafangelsi. Hann telur þó almennt að fangelsi séu ekki staður fyrir börn. „Oftast er enginn á þessum aldri í kerfinu hjá okkur þannig að þá yrðum við líklega að vista aðra afbrotamenn þar líka."
Í hnotskurn
Brotin sem Stefán var dæmdur fyrir framdi hann þegar hann var 14 og 15 ára gamall. Alvarlegast þeirra var árás á leigubílstjóra, en Stefán sló hann tvívegis í höfuðið með klaufhamri og reyndi í kjölfarið að ræna hann. Í dómi segir að árásin hefði hæglega getað leitt til bana bílstjórans. Stefán er í dag eini vistmaður íslenskra fangelsa sem er undir átján ára aldri.
frétt 24 stundir
Fangelsi er tiltölulega nýtt úrræði til lausnar á vanda vegna afbrota í samfélaginu. Franski þjóðfélagshugsuðurinn Michel Foucault hélt því fram að refsingar hafi áður fyrr beinst að líkamanum en síðan hafi sálin tekið við sem viðfang refsingarinnar. Þetta birtist okkur í margvíslegum líkamlegum refsingum fyrri tíma eins og húðstrýkingum, brennimerkingum og aflimunum en varðhald eða vistun til lengri tíma var fátíðara úrræði. Skógganga eða útlegð brotamanna tíðkaðist þó sums staðar, meðal annars hér á landi á þjóðveldisöld. Í dag er hins vegar algengara að dómþolar þurfi að verja fyrirfram skilgreindum tíma í vist eða gæslu bak við lás og slá og dýrmætur tími tapast því frá hringiðu samfélagsins á meðan.
Skipta má markmiðum fangelsa í fernt. Afplánun í fangelsi tekur brotamanninn úr umferð og hann getur þar af leiðandi ekki valdið öðrum borgurum tjóni á meðan. Fangelsisvist felur að auki í sér tilhlýðilega refsingu um leið og vistin er víti til varnaðar fyrir aðra í samfélaginu. Að síðustu felur fangavist í sér möguleika á endurhæfingu eða meðferð brotamannsins sem síðan getur snúið að nýju út í samfélagið sem breyttur og bættur þegn að aflokinni afplánun.
Sú ráðstöfun sem gripið hefur verið til á Litla-Hrauni, að vista fanga saman í klefa, er tímabundin að sögn Páls Winkel fangelsismálastjóra. Hann segir að það sé aðeins í fáum klefum sem þetta sé gert. Páll segir að þetta sé gert þar sem fangelsið á Akureyri sé lokað tímabundið vegna framkvæmda. Þeim framkvæmdum lýkur fljótlega og þá verða tiltæk að nýju tíu rými fyrir fanga í afplánun á Akureyri. Páll segir að þá verði ekki lengur þörf fyrir að vista fanga saman í klefa."Ástæðan fyrir því að gripum til þessarar ráðstöfunar var að tryggja að þeir sem eigi að afplána dóma geti hafið afplánun á réttum tíma," segir PállÍ yfirlýsingu á vef Afstöðu, félags fanga, segir að þetta fyrirkomulag bjóði heim kynferðisofbeldi. Yfirlýsinguna má lesa hér.Páll segir hins vegar að þeir fangar sem þurfi að deila klefa með öðrum séu vandlega paraðir saman til þess að sem minnstar líkur séu á árekstrum. Þá taki fangelsisyfirvöld einnig tillit til athugasemda frá föngum, finnist þeim öryggi sínu ógnað með þessari ráðstöfun.