Margt kemur til. Þensla í opinberum framkvæmdum, niðurskurður í opinberum framkvæmdum, „byggðapólitík" og almennt áhugaleysi um málaflokkinn. Nú er svo komið að tekin hefur verið ákvörðun um byggingu nýs fangelsis. Því ber að fagna. Því miður hefur nú komið upp „hefðbundin" byggðapólitík, deilur um staðsetningu og útúrsnúningar á alla bóga.
Umræðan hefur farið í marga hringi, rangar fullyrðingar settar fram, stjórnmálamenn sem áður hafa lítið eða ekki tjáð sig um málaflokkinn tekið að skrifa greinar og dregið ályktanir sem eru í engu samhengi við raunveruleikann. Þeir sem koma að ákvarðanatöku um staðsetningu fangelsis hafa jafnvel verið sakaðir um annarleg sjónarmið. Nauðsynlegt er að gera grein fyrir raunverulegri stöðu og hvað til stendur.
Ekki stendur til að framtíðaruppbygging öruggasta fangelsis landsins fari frá Fangelsinu Litla-Hrauni að Hólmsheiði. Fullyrðingar um slíkt eru rangar. Langtímaáætlanir gera þvert á móti ráð fyrir mikilli uppbyggingu á Litla-Hrauni og að fangarýmum þar verði fjölgað verulega. Það er mat þeirra sem að öryggismálum koma hjá Fangelsismálastofnun og öðrum að fyrst sé nauðsynlegt að byggja á Litla-Hrauni fullnægjandi aðstöðu fyrir starfsmenn, miðlæga varðstofu auk heimsóknar- og móttökuaðstöðu áður en rýmum verði fjölgað í fangelsinu um rúmlega 40 eins og ráð er fyrir gert. Þá er starfs- og námsaðstaða í Fangelsinu Litla-Hrauni ekki í stakk búin að bæta við 40 föngum án breytinga. Slíkt væri óábyrgt og óforsvaranlegt út frá mannréttinda- og öryggissjónarmiðum.