Ekkki eru fyrirliggjandi upplýsingar um það hvort að brotamenn hér á landi komi frekar út sem betri einstaklingar eftir að hafa setið í tilteknum fangelsum. Málið er heldur ekki svo einfalt að hægt sé að fullyrða að einn staður sé betri eða verri en annar. Í þessu sambandi þarf að hafa nokkur atriði í huga.
Í fyrsta lagi kemur fram í upplýsingum um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna (Fangelsismálastofnun ríkisins, 2004) að tilgangur með rekstri fangelsa sé fullnusta refsidóma en ekki endilega að gera menn betri. Fangelsismálastofnun hefur þó einnig sett sér það markmið að draga úr líkum á endurkomum í fangelsi með því að leitast við að skapa föngum umhverfi og aðstæður sem hvetji þá til að takast á við vandamál sín.
Sama markmið á við um öll þau fimm fangelsi sem Fangelsismálastofnun ríkisins rekur og því ættu áhrif fangelsa að vera eins, sama hvar afplánað er. Svo þarf þó ekki að vera raunin enda eru fangelsin mjög ólík, til að mynda með tilliti til stærðar og þeirrar þjónustu sem í boði er. Einnig skiptir verulegu máli hvort munur er á því hversu lengi menn sitja inni að jafnaði og hversu langan brotaferil samfangar eiga að baki.