Pétur Blöndal Gíslason skrifar
Ef þú lendir í fangelsi einu sinni eru talsverðar líkur á að þú lendir þar aftur. Ef þú lendir þar aftur þá eru ansi góðar líkur á að þú lendir þar í þriðja sinn. Ef þú lendir þar í þriðja sinn eru sáralitlar líkur á að þú sleppir við að koma í fjórða, fimmta, sjötta, sjöunda og svo framvegis. Strákarnir á Hrauninu, hverjir eru þetta? Hafa þeir valið þetta líf? Vöknuðu þeir einn daginn og hugsuðu:
Djöfull væri frábært að sitja inni svona eins og hálft lífið. Best að finna einhvern eiturlyfjabarón og biðja um vinnu.
Nei, það er ekki þannig. Mest eru þetta ADHD-strákarnir sem fóru í gegnum grunnskólann á rítalíni. Þeir voru lesblindir og lélegir í reikningi. Þeir eyddu löngum stundum á skólastjóraskrifstofunni, fengu refsingu fyrir allt sem úrskeiðis fór í skólanum, hvort sem sökin var þeirra eða ekki.
Þetta eru strákarnir sem komu alltaf of seint vegna þess að þeir þurftu að sjá sjálfir um að vakna og koma sér í skólann. Þetta eru strákarnir sem komu svangir og nestislausir vegna þess að í eldhúsinu heima var kókópuffspakkinn tómur og mjólkin súr á eldhúsborðinu.