Það er vaskur hópur karla og kvenna sem starfar innan fangelsa landsins. Störfin þar eru hvert öðru mikilvægara – því má ekki gleyma. Fangelsi eru viðkvæmir vinnustaðir þar sem starfsmenn eru í daglegum samskiptum við fólk sem orðið hefur fótaskortur í lífinu með margvíslegum hætti; sumir fangar kljást auk þess við ýmsan vanda af heilsufars- og félagslegum toga. Fólkið, fangarnir, er komið í aðstæður sem eru afar framandi venjulegu lífi. Það sem fangar finna mest fyrir í fyrstu eru hvers kyns skorður og hindranir sem draga úr almennum lífsgæðum. Gæði lífsins innan fangelsis eru rýr í roði miðað við frelsið sem býr utan múrsins. Það eitt og sér ásamt mörgu öðru hefur áhrif á fangana sem manneskjur. Þeir skoða líf sitt og gjörðir og takast á við ástæðu þess að vera komnir skyndilega bak við lás og slá – það geta hvort tveggja verið einfaldar ástæður sem og flóknar. En aðstæður þeirra eru mjög oft brenndar marki sárinda og kvíða.
Þetta er fangelsi. Stofnanir sem ríkið á og rekur.
Fangaverðir gegna mikilvægum störfum í þessum stofnunum hins opinbera. Störf þeirra fara ekki hátt en eru ábyrgðarmikil og vandasöm. Jafnframt geta þau verið býsna erfið á stundum. Ekki svo að skilja að beita þurfi oft líkamskröftum á vettvangi hversdagsins heldur eru samskipti innan þessa fyrirbæris mannlegs lífs sem heitir fangelsi, á köflum flókin og gera býsna miklar kröfur um innsæi í viðkvæmar aðstæður, skilning, fordómaleysi og væntumþykju en samtímis festu og ákveðni. Þolinmæði er sömuleiðis bráðnauðsynlegur eiginleiki. Fangaverðir sem búa ekki yfir slíkum kostum staldra ekki lengi við í starfi. Margir fangaverðir hafa sýnt einstaka samskiptahæfni og gert líf fanga bærilegra en ella. Þeir hafa eytt mörgum stundum í viðtöl við fanga þegar allir heimsins sérfræðingar eru víðs fjarri (með fullri virðingu fyrir þeim) og linað hugarkvalir þeirra og hvatt þá til betra lífs. Sú þjónusta hefur verið unnin í hljóði og kannski til fárra fiska metin. Margir fangar hafa látið þau orð falla að sumir fangaverðir hafi beinlínis bjargað lífi þeirra. Fangelsi með slíka fangaverði er betri staður en ella og mannbætandi.