Raunveruleikinn í fangelsi

Það er vaskur hópur karla og kvenna sem starfar innan fangelsa landsins. Störfin þar eru hvert öðru mikilvægara – því má ekki gleyma. Fangelsi eru viðkvæmir vinnustaðir þar sem starfsmenn eru í daglegum samskiptum við fólk sem orðið hefur fótaskortur í lífinu með margvíslegum hætti; sumir fangar kljást auk þess við ýmsan vanda af heilsufars- og félagslegum toga. Fólkið, fangarnir, er komið í aðstæður sem eru afar framandi venjulegu lífi. Það sem fangar finna mest fyrir í fyrstu eru hvers kyns skorður og hindranir sem draga úr almennum lífsgæðum. Gæði lífsins innan fangelsis eru rýr í roði miðað við frelsið sem býr utan múrsins. Það eitt og sér ásamt mörgu öðru hefur áhrif á fangana sem manneskjur. Þeir skoða líf sitt og gjörðir og takast á við ástæðu þess að vera komnir skyndilega bak við lás og slá – það geta hvort tveggja verið einfaldar ástæður sem og flóknar. En aðstæður þeirra eru mjög oft brenndar marki sárinda og kvíða.

Þetta er fangelsi. Stofnanir sem ríkið á og rekur.

Fangaverðir gegna mikilvægum störfum í þessum stofnunum hins opinbera. Störf þeirra fara ekki hátt en eru ábyrgðarmikil og vandasöm. Jafnframt geta þau verið býsna erfið á stundum. Ekki svo að skilja að beita þurfi oft líkamskröftum á vettvangi hversdagsins heldur eru samskipti innan þessa fyrirbæris mannlegs lífs sem heitir fangelsi, á köflum flókin og gera býsna miklar kröfur um innsæi í viðkvæmar aðstæður, skilning, fordómaleysi og væntumþykju en samtímis festu og ákveðni. Þolinmæði er sömuleiðis bráðnauðsynlegur eiginleiki. Fangaverðir sem búa ekki yfir slíkum kostum staldra ekki lengi við í starfi. Margir fangaverðir hafa sýnt einstaka samskiptahæfni og gert líf fanga bærilegra en ella. Þeir hafa eytt mörgum stundum í viðtöl við fanga þegar allir heimsins sérfræðingar eru víðs fjarri (með fullri virðingu fyrir þeim) og linað hugarkvalir þeirra og hvatt þá til betra lífs. Sú þjónusta hefur verið unnin í hljóði og kannski til fárra fiska metin. Margir fangar hafa látið þau orð falla að sumir fangaverðir hafi beinlínis bjargað lífi þeirra. Fangelsi með slíka fangaverði er betri staður en ella og mannbætandi.

Mótun jákvæðrar sjálfsmyndar

Sköpum börnum og ungmennum forsendur
til mótunar jákvæðrar sjálfsmyndar!

Hvernig líkar barninu þínu við sig?

Jákvæð sjálfsmynd er mikilvæg forsenda vellíðunar og lífshamingju nútímafólks og gerir það færara um að stjórna eigin lífi og takast á við krefjandi viðfangsefni.

Sjálfsmynd okkar byggist á því hvernig við metum okkur sjálf, eiginleika okkar og hegðun, hver við erum og hvers virði okkur finnst við vera.  Hún verður til í samskiptum okkar við annað fólk og mótast af þeim skilaboðum sem við fáum frá þeim sem við umgöngumst mest. Myndin sem við höfum af okkur sjálfum fæðist af því félagslega umhverfi og aðstæðum sem við búum við; verður neikvæð eða jákvæð eftir atvikum.

Sterk sjálfsmynd og jákvætt mat einstaklinga á eigin hæfni, hvetur til frekari dáða og þeir virðast geta tekist á við erfiðleika á uppyggjandi hátt og gert raunhæfar kröfur til sjálfra sín.
Jákvæð sjálfsmynd er sennilega einhver sterkasta forvörnin gegn hvers kyns áhættuhegðun.

Einstaklingar með veika sjálfsmynd hafa neikvætt mat á sjálfum sér, þá skortir gjafnan það sjálfstraust sem þarf til að takast á við verkefni dagsins.

Sjálfsmyndin fer að mótast strax á unga aldri. Margir unglingar hafa efasemdir um hverjir þeir eru í raun og veru. Þeir leita svara og fyrirmynda við þeirri óvissu meðal annars á samskiptamiðlum og í fjölmiðlum.

Jákvætt viðmót, viðurkenning, styðjandi umhverfi, festa, leiðsögn og umburðarlyndi stuðlar að heilbrigðri og sterkri sjálfsmynd. Hrós og hvatning kostar ekkert en getur áorkað miklu.

Neikvæðni, niðurlægjandi ummæli, einelti, félagsleg einangrun brjóta niður sjálfsmyndina. Þar þurfum við öll að vera á verði og sýna gott fordæmi.

Það er á ábyrgð samfélagsins alls að skapa aðstæður fyrir jákvæða sjálfsmynd þótt ábyrgðin sé mest hjá foreldrum og forráðamönnum barna. Það bera allir ánbyrgð og engin þegn samfélagsins er undanþeginn.

Stöndum með börnum okkar - styrkjum sjálfsmynd þeirra - leyfum þeim að líka vel við sig.

 

Þráinn Farestveit

And­lát: Jóna Gróa Sig­urðardótt­ir

Jóna Gróa Sig­urðardótt­ir fyrrverandi formaður og fram­kvæmda­stjóri fanga­hjálp­ar­inn­ar Vernd­ar er látin. Hún lést fimmtu­dag­inn 17. sept­em­ber s.l. á Land­spít­al­an­um eft­ir skamma sjúkra­hús­legu. Jóna Gróa var formaður og fram­kvæmda­stjóri fanga­hjálp­ar­inn­ar Vernd­ar 1982-1989,  var hún kjörin heiðursformaður Verndar 1989.

Jóna Gróa var starfandi formaður og framkvæmdarstjóri Verndar á miklum umbrotatímum en stóð sem klettur í hafi á þessum tímum og varði stöðu fanga og rétt þeirra til búsetu. Árið 1985 var Jóna Gróa fremst í fylkingu þegar Vernd fór út í kaup á nýrri fasteign að Laugarteig 19 í Reykjavík. Það húsnæði hefur verið hjarta samtakanna allt frá þeim tíma, en frá árinu 1994 hafa fang­ar átt kost á að ljúka afplánun á áfangaheimilinu.

Jóna Gróa var fædd 18. mars 1935, dótt­ir hjón­anna Ing­unn­ar Sig­ríðar Elísa­bet­ar Ólaf­ar Jóns­dótt­ur og Sig­urðar Guðmunds­son­ar. Jóna Gróa var gift Guðmundi Jóns­syni, vél­fræðingi sem lif­ir eig­in­konu sína.

Jóna Gróa starfaði vel og lengi að ýms­um fé­lags­mál­um og tók virk­an þátt í stjórn­mál­um. Hún var í borg­ar­stjórn­ar­flokki Sjálf­stæðis­flokks­ins frá ár­inu 1982 til 2002.

Börn Jónu Gróu og Guðmund­ar eru Ing­unn Guðlaug flugrekstr­ar­fræðing­ur, Sig­urður, lögmaður og bóndi, Helga, viðskipta­fræðing­ur og flug­freyja, og Auður, viðskipta­fræðing­ur og fram­kvæmda­stjóri markaðsdeild­ar VÍS. Guðmund­ur á einnig son­inn Ívar, jarðfræðing og bóka­út­gef­anda.

 

Vernd vottar aðstandendum dýpstu samúð.

 

Þráinn Farestveit

Verndarblaðið 43. Árg .2015

Nýtt Verndarblað verður hægt að nálgast hér á heimasíðu samtakanna eftir helgi, og eru hugleiðingar ritstjóra birtar hér að neðan.

Fyrir nokkru boðaði formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir,heildarúttekt á fangelsismálum á komandi þingvetri.Taldi hún að fangelsismál þyrfti að ræðar til hlítar ogyrði það verkefni vetrarins.Það er fagnaðarefni þegar málefni fanga ogfangelsa eru tekin til umfjöllunar með skipulögðumhætti og í alvöru. Mikilvægt er að vel takist til meðheildarendurskoðun á málaflokknum og að semflestir sem málum þessum eru kunnugir komi þar að. Það á ekki síst við að leitað verði álits hjá föngunumsjálfum og aðstandendum þeirra. Fangarnir einir eru þeir sem hafa reynslu af því að sitja bak við lás og slá og hafa margt um það að segjasem verður að taka tillit til. Hlusta verður af vakandi athygli á sjónarmið þeirra, vega þau og meta af skilningi og umhyggju fyrir þeim og samfélaginu, en ekki aðvísa sjónarmiðum þeirra á bug sem hverjum öðrum harmatölum. Fangelsismál eru nefnilega ekki einungis málaflokkur sem snertir samskipti ríkisins og brotamannsins heldur og samskipti fangans við fjölskyldu og samfélag. Hvernig á að búa að föngum svo líklegast sé að þeir nái að fóta sig á nýjan leik úti í samfélaginu? Það er vonandi öllum ljóst að ekki er nóg að reisa dýrar byggingar utan um fanga sem heita fangelsi. Kjarni málsins er sá að einhver skynsamleg starfsemi verður að fara fram innan veggja þessara húsa ef þau eiga að þjóna samfélaginu að einhverju gagni. Ef ekki er hugsað fyrst um innihaldið og það tryggt þá eru fangelsi nánast eins og hverjir aðrir gámar sem standa á hafnarbakkanum – gámar sem geyma lifandi manneskjur. Það viljum við ekki í orði – en hvernig kemur það út á borði? Mikilvægt er að þeir sem koma að heildarendurskoðun líti ekki gagnrýnislausum augum á núverandi fyrirkomulag því slíkt getur girt fyrir nýjungar og djarfar ákvarðanir. Margar leiðir er hægt að fara þegar skipulag fangelsismála er annars vegar og þær þarf að ræða opinskátt án þess að vera upptekinn við að ná strax fram sameiginlegri niðurstöðu. Opinská umræða kallar nefnilega fram gagnrýnið mat á öllum kostum og ekki síst á þeim sem við lýði eru. Hún dregur líka fram það sem reynst hefur vel – og má kannski bæta enn frekar. Fangelsiskerfið hefur sterka tilhneigingu til að líta á fangana sem eina hjörð. Það gleymist hins vegar að hver fangi er einstaklingur. Og einstaklingar eru misjafnir – um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Sumum einstaklingum er hægt að treysta og öðrum ekki. Mikilvægt er að hugað sé að föngum sem einstaklingum og þeir fái eftir því sem kostur er einstaklingsmiðaða leiðsögn. Fangelsiskerfið er mjög viðkvæmt í eðli sínu vegna þess að það snýst fyrst og fremst um fólk. Snýst um fanga, brot þeirra og samfélagslegar aðstæður, fórnarlömb hvort heldur þau eru einstaklingar eða einhvers konar hagsmunir, frelsissviptingu og mat á endurgjaldi. Hvað ætlar hið opinbera sér með því að loka menn inni í fangelsum í hátæknivæddum nútímanum? Er markmiðið alltaf ljóst? Telur hið opinbera að það hafi einhverjum skyldum að gegna gagnvart einstaklingi sem hefur verið frelsissviptur um lengri eða skemmri tíma þegar dyr fangelsisins ljúkast upp og frelsið blasir við? Hér þarf að huga að velferð og sjónarmiðum ýmissa aðila. Málið er ekki einfalt. Og síðast en ekki síst þá þarf að móta heildarstefnu í málaflokknum. Heildarendurskoðun á fangelsismálum verður vonandi fyrsta varðan á þeirri leið.

 

Hreinn S. Hákonarson

 

 

Aðalfundur

Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 28, miðvikudaginn 7 mai kl 18.00

Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

Þráinn Farestveit