Jóna Gróa Sigurðardóttir fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri fangahjálparinnar Verndar er látin. Hún lést fimmtudaginn 17. september s.l. á Landspítalanum eftir skamma sjúkrahúslegu. Jóna Gróa var formaður og framkvæmdastjóri fangahjálparinnar Verndar 1982-1989, var hún kjörin heiðursformaður Verndar 1989.
Jóna Gróa var starfandi formaður og framkvæmdarstjóri Verndar á miklum umbrotatímum en stóð sem klettur í hafi á þessum tímum og varði stöðu fanga og rétt þeirra til búsetu. Árið 1985 var Jóna Gróa fremst í fylkingu þegar Vernd fór út í kaup á nýrri fasteign að Laugarteig 19 í Reykjavík. Það húsnæði hefur verið hjarta samtakanna allt frá þeim tíma, en frá árinu 1994 hafa fangar átt kost á að ljúka afplánun á áfangaheimilinu.
Jóna Gróa var fædd 18. mars 1935, dóttir hjónanna Ingunnar Sigríðar Elísabetar Ólafar Jónsdóttur og Sigurðar Guðmundssonar. Jóna Gróa var gift Guðmundi Jónssyni, vélfræðingi sem lifir eiginkonu sína.
Jóna Gróa starfaði vel og lengi að ýmsum félagsmálum og tók virkan þátt í stjórnmálum. Hún var í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1982 til 2002.
Börn Jónu Gróu og Guðmundar eru Ingunn Guðlaug flugrekstrarfræðingur, Sigurður, lögmaður og bóndi, Helga, viðskiptafræðingur og flugfreyja, og Auður, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri markaðsdeildar VÍS. Guðmundur á einnig soninn Ívar, jarðfræðing og bókaútgefanda.
Vernd vottar aðstandendum dýpstu samúð.
Þráinn Farestveit