Nýtt Verndarblað verður hægt að nálgast hér á heimasíðu samtakanna eftir helgi, og eru hugleiðingar ritstjóra birtar hér að neðan.
Fyrir nokkru boðaði formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir,heildarúttekt á fangelsismálum á komandi þingvetri.Taldi hún að fangelsismál þyrfti að ræðar til hlítar ogyrði það verkefni vetrarins.Það er fagnaðarefni þegar málefni fanga ogfangelsa eru tekin til umfjöllunar með skipulögðumhætti og í alvöru. Mikilvægt er að vel takist til meðheildarendurskoðun á málaflokknum og að semflestir sem málum þessum eru kunnugir komi þar að. Það á ekki síst við að leitað verði álits hjá föngunumsjálfum og aðstandendum þeirra. Fangarnir einir eru þeir sem hafa reynslu af því að sitja bak við lás og slá og hafa margt um það að segjasem verður að taka tillit til. Hlusta verður af vakandi athygli á sjónarmið þeirra, vega þau og meta af skilningi og umhyggju fyrir þeim og samfélaginu, en ekki aðvísa sjónarmiðum þeirra á bug sem hverjum öðrum harmatölum. Fangelsismál eru nefnilega ekki einungis málaflokkur sem snertir samskipti ríkisins og brotamannsins heldur og samskipti fangans við fjölskyldu og samfélag. Hvernig á að búa að föngum svo líklegast sé að þeir nái að fóta sig á nýjan leik úti í samfélaginu? Það er vonandi öllum ljóst að ekki er nóg að reisa dýrar byggingar utan um fanga sem heita fangelsi. Kjarni málsins er sá að einhver skynsamleg starfsemi verður að fara fram innan veggja þessara húsa ef þau eiga að þjóna samfélaginu að einhverju gagni. Ef ekki er hugsað fyrst um innihaldið og það tryggt þá eru fangelsi nánast eins og hverjir aðrir gámar sem standa á hafnarbakkanum – gámar sem geyma lifandi manneskjur. Það viljum við ekki í orði – en hvernig kemur það út á borði? Mikilvægt er að þeir sem koma að heildarendurskoðun líti ekki gagnrýnislausum augum á núverandi fyrirkomulag því slíkt getur girt fyrir nýjungar og djarfar ákvarðanir. Margar leiðir er hægt að fara þegar skipulag fangelsismála er annars vegar og þær þarf að ræða opinskátt án þess að vera upptekinn við að ná strax fram sameiginlegri niðurstöðu. Opinská umræða kallar nefnilega fram gagnrýnið mat á öllum kostum og ekki síst á þeim sem við lýði eru. Hún dregur líka fram það sem reynst hefur vel – og má kannski bæta enn frekar. Fangelsiskerfið hefur sterka tilhneigingu til að líta á fangana sem eina hjörð. Það gleymist hins vegar að hver fangi er einstaklingur. Og einstaklingar eru misjafnir – um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Sumum einstaklingum er hægt að treysta og öðrum ekki. Mikilvægt er að hugað sé að föngum sem einstaklingum og þeir fái eftir því sem kostur er einstaklingsmiðaða leiðsögn. Fangelsiskerfið er mjög viðkvæmt í eðli sínu vegna þess að það snýst fyrst og fremst um fólk. Snýst um fanga, brot þeirra og samfélagslegar aðstæður, fórnarlömb hvort heldur þau eru einstaklingar eða einhvers konar hagsmunir, frelsissviptingu og mat á endurgjaldi. Hvað ætlar hið opinbera sér með því að loka menn inni í fangelsum í hátæknivæddum nútímanum? Er markmiðið alltaf ljóst? Telur hið opinbera að það hafi einhverjum skyldum að gegna gagnvart einstaklingi sem hefur verið frelsissviptur um lengri eða skemmri tíma þegar dyr fangelsisins ljúkast upp og frelsið blasir við? Hér þarf að huga að velferð og sjónarmiðum ýmissa aðila. Málið er ekki einfalt. Og síðast en ekki síst þá þarf að móta heildarstefnu í málaflokknum. Heildarendurskoðun á fangelsismálum verður vonandi fyrsta varðan á þeirri leið.
Hreinn S. Hákonarson