Mótun jákvæðrar sjálfsmyndar

Sköpum börnum og ungmennum forsendur
til mótunar jákvæðrar sjálfsmyndar!

Hvernig líkar barninu þínu við sig?

Jákvæð sjálfsmynd er mikilvæg forsenda vellíðunar og lífshamingju nútímafólks og gerir það færara um að stjórna eigin lífi og takast á við krefjandi viðfangsefni.

Sjálfsmynd okkar byggist á því hvernig við metum okkur sjálf, eiginleika okkar og hegðun, hver við erum og hvers virði okkur finnst við vera.  Hún verður til í samskiptum okkar við annað fólk og mótast af þeim skilaboðum sem við fáum frá þeim sem við umgöngumst mest. Myndin sem við höfum af okkur sjálfum fæðist af því félagslega umhverfi og aðstæðum sem við búum við; verður neikvæð eða jákvæð eftir atvikum.

Sterk sjálfsmynd og jákvætt mat einstaklinga á eigin hæfni, hvetur til frekari dáða og þeir virðast geta tekist á við erfiðleika á uppyggjandi hátt og gert raunhæfar kröfur til sjálfra sín.
Jákvæð sjálfsmynd er sennilega einhver sterkasta forvörnin gegn hvers kyns áhættuhegðun.

Einstaklingar með veika sjálfsmynd hafa neikvætt mat á sjálfum sér, þá skortir gjafnan það sjálfstraust sem þarf til að takast á við verkefni dagsins.

Sjálfsmyndin fer að mótast strax á unga aldri. Margir unglingar hafa efasemdir um hverjir þeir eru í raun og veru. Þeir leita svara og fyrirmynda við þeirri óvissu meðal annars á samskiptamiðlum og í fjölmiðlum.

Jákvætt viðmót, viðurkenning, styðjandi umhverfi, festa, leiðsögn og umburðarlyndi stuðlar að heilbrigðri og sterkri sjálfsmynd. Hrós og hvatning kostar ekkert en getur áorkað miklu.

Neikvæðni, niðurlægjandi ummæli, einelti, félagsleg einangrun brjóta niður sjálfsmyndina. Þar þurfum við öll að vera á verði og sýna gott fordæmi.

Það er á ábyrgð samfélagsins alls að skapa aðstæður fyrir jákvæða sjálfsmynd þótt ábyrgðin sé mest hjá foreldrum og forráðamönnum barna. Það bera allir ánbyrgð og engin þegn samfélagsins er undanþeginn.

Stöndum með börnum okkar - styrkjum sjálfsmynd þeirra - leyfum þeim að líka vel við sig.

 

Þráinn Farestveit