Samvinna dóms- og kirkjumálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um starfrækslu meðferðargangs á Litla-Hrauni

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, staðfestu í dag að ráðuneytin munu hafa með sér samstarf um að fjármagna rekstur svokallaðs meðferðargangs í Fangelsinu Litla-Hrauni.

Ráðuneytin munu ganga frá sérstöku samkomulagi sín á milli um fjármögnunina sem nemur 7,5 milljónum króna fyrir hvort ráðuneyti, samtals 15 milljónir króna það sem eftir er ársins 2008. Með þessari fjármögnun er rekstrargrundvöllur meðferðargangsins tryggður.

Samhliða þessum samningi mun Fangelsismálastofnun skilgreina markmið og árangursmælingu verkefnisins.

Þá verður sett á laggirnar samráðsnefnd ráðuneytanna sem mun vinna að heildarstefnumótun í þessum málum.

Sameiginleg æfing sérsveitar fangavarða á Litla-Hrauni og lögreglumanna frá embætti lögreglustjórans á Selfossi

Fangelsismálastofnun vinnur að því að gera sérsveit fangavarða enn betur í stakk búna fyrir þau krefjandi verkefni sem upp geta komið í fangelsum. Þann 12.4.2008 var haldin sameiginleg æfing sérsveitar fangavarða á Litla-Hrauni og lögreglumanna hjá embætti lögreglustjórans á Selfossi.

Á æfingunni sem tókst mjög vel voru sett á svið atvik sem upp geta komið í fangelsum og grípa verður inn í bæði til að tryggja öryggi starfsmanna og fanga. Gott samstarf er við lögregluna á Selfossi og var æfingin m.a. liður í eflingu þess samstarfs.

Fangelsi að Sogni

Fangelsismálayfirvöld í samvinnu við ríkisvaldið hafa nú ákveðið að loka opna fangelsinu á Bitru í Flóahreppi og flytja starfsemina yfir á Sogn í Ölfusi. Réttargeðdeildin sem þar hefur verið starfrækt flyst 1. Mars til Reykjavíkur. Reikna má með flutningum fanga frá Bitru þegar endurbótum og breytingum verður lokið, en þær standa nú yfir. Ekki er um að ræða nýja starfsemi heldur flutning á starfsemi sem fyrir er á Bitru, starfsmannafjöldi verður sá sami enda reiknað með sama eða svipuðum fjölda vistmanna. Fangelsi á Sogni ætti að vera ágætis viðbót við þau fangelsi sem fyrir eru þar til nýtt fangelsi rís. Það er ljóst að það mun taka nokkur ár að byggja nýtt fangelsi.

Samband afbrota og umhverfis

Vernd vekur athygli á ráðstefnum eða fundi sem snerta málefni fanga og fangelsa með vissum hætti. Um að ræða morgunverðarfund fimmtudaginn 10. apríl, á Grand Hótel sem ber yfirskriftina: ,,Afbrot í auðugu samfélagi, samband afbrota og umhverfis". Félagsfræðingafélag Íslands stendur fyrir fundi þessum.

Fundurinn hefst kl. 8.00 f.h. Þátttökugjald er kr. 1.500. Best er að skrá sig með því að senda tilkynningu á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Þráinn Farestveit

Endurhæfing

Ekkki eru fyrirliggjandi upplýsingar um það hvort að brotamenn hér á landi komi frekar út sem betri einstaklingar eftir að hafa setið í tilteknum fangelsum. Málið er heldur ekki svo einfalt að hægt sé að fullyrða að einn staður sé betri eða verri en annar. Í þessu sambandi þarf að hafa nokkur atriði í huga.

Í fyrsta lagi kemur fram í upplýsingum um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna (Fangelsismálastofnun ríkisins, 2004) að tilgangur með rekstri fangelsa sé fullnusta refsidóma en ekki endilega að gera menn betri. Fangelsismálastofnun hefur þó einnig sett sér það markmið að draga úr líkum á endurkomum í fangelsi með því að leitast við að skapa föngum umhverfi og aðstæður sem hvetji þá til að takast á við vandamál sín.

Sama markmið á við um öll þau fimm fangelsi sem Fangelsismálastofnun ríkisins rekur og því ættu áhrif fangelsa að vera eins, sama hvar afplánað er. Svo þarf þó ekki að vera raunin enda eru fangelsin mjög ólík, til að mynda með tilliti til stærðar og þeirrar þjónustu sem í boði er. Einnig skiptir verulegu máli hvort munur er á því hversu lengi menn sitja inni að jafnaði og hversu langan brotaferil samfangar eiga að baki.