Heimsókn á Kvíabryggju

Mennta- og menningarmálaráðherra í heimsókn á Kvíabryggju ásamt fleirum

 

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður og Lárus Hannesson, forseti bæjarstjórnar í Stykkishólmi heimsóttu Kvíabryggju 6. apríl sl. Heimsóknargestum var kynnt starfsemin á Kvíabryggju. Einnig var sýnd aðstaða fanga og fangavarða ásamt vinnuaðstöðu fanga. Að lokinni kynningu ræddu gestir við vistmenn og svöruðu fyrirspurnum. Góðar umræður voru um stjórnmál en þó sérstaklega um aðbúnað fanga. Var meðal annars rætt um nám fanga og aðstöðu til þess. Mikil ánægja var meðal vistmanna með heimsóknina og var gestum boðið í kaffi og vöfflur að umræðum loknum.

 

 Ljósmynd: Þráinn Farestveit

 

Áskorun

Ágætu frambjóðendur til Alþingis 2013!

Neysla áfengis, tóbaks og annarra ávana-og vímuefna snertir öll svið samfélagsins og skaðleg áhrif hennar valda samfélaginu tjóni. Stjórnvöld hafa það hlutverk að marka opinbera stefnu í ávana- og vímuefnamálum og forvörnum og tryggja framkvæmd hennar, m.a. með nauðsynlegu fjármagni. En til þess að sú stefna verði annað en stafur á bók verður hún að njóta stuðnings borgaranna, eða hinnar svokölluðu grasrótar. Þar geta félagasamtök leikið mikilvægt hlutverk.

Við minnum á að félagasamtök hafa lengstum haft frumkvæði í ávana- og vímuvörnum á Íslandi og saga forvarna á Íslandi einkennst af frumkvæði og virkni almannasamtaka með þeim ágæta árangri að áfengisneysla og reykingar Íslendinga eru með því minnsta sem þekkist í Evrópu og staða okkar varðandi önnur vímuefni er sömuleiðis góð í samanburði við nágrannaþjóðir. Þennan ávinning og stöðu verðum við að verja.

Við minnum á að félagasamtök búa yfir margvíslegum möguleikum í forvörnum. Félagasamtök leggja með starfi sínu, samfélagsumræðu og verkefnum menningarlegan og lýðræðislegan grundvöll að velferð samfélagsins og eflingu félagsauðs. Þau eru þverskurður af samfélaginu með tiliti til aldurs, kyns og búsetu félagsfólks. Félagasamtök byggja tilvist sína á sjálfsprottinni félagslegri þörf og starf þeirra grundvallast á samfélagslegri ábyrgð, samlíðan og borgaravitund.

Félagasamtök eru í náinni snertingu við grasrótina og daglegt líf fólks. Fyrir vikið hafa þau annars konar möguleika í samfélaginu en stjórnvöld. Þau geta t.d. nýtt tengslanet sín til þess að virkja sjálfboðaliða í nærsamfélaginu á skömmum tíma og þátttaka þeirra getur haft margfeldniáhrif í samfélaginu. Félagasamtök hafa einnig meira frelsi, svigrúm og sveigjanleika til athafna en stjórnvöld. Þau eru skapandi afl sem getur boðið fjölþættar lausnir.

Samstarfsráð um forvarnir hvetur stjórnmálaflokka og verðandi fulltrúa þeirra á Alþingi Íslendinga að setja forvarnir í forgang. Við köllum eftir því að stjórnmálaflokkar og stjórnvöld hafi skýra stefnu í þessum málum og skipi þeim þann sess sem þeim ber í velferð þjóðarinnar og bjóðum fram þátttöku okkar og liðsinni við mótun forvarnastefnunnar og framkvæmd hennar.

fh. Samstarfsráðs um forvarnir
Hildur Helga Gísladóttir,
formaður

Samstarfsráð um forvarnir, er samstarfsvettvangur 22 félagasamtaka sem vinna að áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum á vettvangi mannræktar, velferðar, félagsmála, samfélagsþróunar, uppeldis- og skólamála, íþróttamála og tómstundastarfs. Samstarfið byggist á virðingu fyrir fjölbreytni, ólíkri aðkomu samtaka í forvörnum og mismunandi áherslum.
----------------------------------------------
Bindindissamtökin IOGT - Blátt áfram - Brautin, bindindisfélag ökumanna - FÍÆT Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa - Fræðsla og forvarnir FRÆ - Heimili og skóli - Hiv-Ísland - KFUM-K - ÍSÍ - Krabbameinsfélagið - Kvenfélagasamband Íslands - Lífsýn - Núll prósent - SAMFÉS - Samhjálp - Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum - Samtök skólamanna um bindindisfræðslu – SSB - SKÁTARNIR - UMFÍ - Ungmennahreyfing IOGT - Vernd, fangahjálp - Vímulaus æska/Foreldrahús - Þjóðkirkjan

Nýr kafli í fangelsissögu landsins

Nýr kafli hefst í fangelsissögu landsins með því skrefi sem við stígum í dag, sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í ávarpi þegar hann tók fyrstu skóflustunguna að byggingu fangelsis á Hólmsheiði í dag. Viðstaddur var fjöldi gesta og auk ráðherra flutti ávarp Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. Athöfninni stýrði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um byggingu nýs fangelsis.Nýja fangelsið verður með 56 fangarýmum þar sem verður sérstök deild fyrir kvenfanga og aðstaða fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Nýja fangelsið á að leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík og fangelsið í Kópavogi. Einnig verður gæsluvarðhaldsdeild í fangelsinu á Litla Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun. Í ávarpi sínu sagði innanríkisráðherra ennfremur að nú, 140 árum eftir að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var tekið í notkun sem fangelsi „förum við aftur af stað og reisum fangelsi. Það var tími til kominn. Undirbúningur hefur staðið í rúmlega 50 ár. Árið 1960 var Valdimar Stefánssyni yfirsakadómara falið að setja fram tillögur um nýtt fangelsi við Úlfarsá. Verkefnið náði ekki lengra og síðan höfum við fengið fleiri tillögur, athuganir, skýrslur og úttektir. Ríkisstjórnin ákvað í ágúst 2011 að hefjast handa um úrbætur í fangelsismálum. Var ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um hönnun fangelsis á Hólmsheiði."

Samkeppni um listskreytingu Jarðvegsframkvæmdir hefjast í næstu viku en útboð vegna byggingarinnar sjálfrar fer fram í vor. Taka á fangelsið í notkun haustið 2015. Þá hefur verið auglýst opin samkeppni um listskreytingar í fangelsinu samkvæmt lögum um opinberar byggingar og er skilafrestur til kl. 15 föstudaginn 17. maí. Markmiðið með samkeppninni er að fá tillögur um listskreytingu fangelsisins og eru keppnissvæðin þrjú: Við göngustíg milli bílastæðis og aðalinngangs, í útivistargörðum fanga og í þriðja lagi í innigarða fangelsisins. Innanríkisráðuneytið stefnir að því að fimm fangelsi verði rekin á vegum Fangelsismálastofnunar ríkisins árið 2015, eitt móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuð-borgarsvæðinu, sem jafnframt mun gegna hlutverki kvennafangelsis sem er hið nýja fangelsi, lokað afplánunarfangelsi á Suðurlandi sem er Litla-Hraun, fangelsi á Akureyri og tvö afplánunarfangelsi með lágt öryggisstig sem eru Kvíabryggja og Sogn.

Forsagan

Nýtt fangelsi á Hólmsheiði mun marka tímamót í sögu fangelsismála á Íslandi. Síðasta sérsmíðaða fangelsið á Íslandi, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var reist og tekið í gagnið árið 1875, fyrir tæplega 140 árum síðan. Fangelsið á Litla Hrauni var upphaflega byggt sem Sjúkrahús Suðurlands en hætt var við þau áform. Landsstjórnin keypti bygginguna árið 1929 og breytti í fangelsi.Arkís arkitektar ehf. hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni en niðurstöður hennar voru kynntar snemmsumars 2012. Höfundar tillögunnar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar.

 

 

Þráinn Farestveit

Er utangarðsfólk og heimilisleysi vandi Reykjavíkur?

Nýleg úttekt Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar leiddi í ljós að í Reykjavík eru 179 einstaklingar heimilislausir eða utangarðs. Sambærileg úttekt var gerð árið 2009 og þá féll 121 einstaklingur undir skilgreininguna, aukning í hópnum er því liðlega 30% á þremur árum. Ekki eru allir þessir einstaklingar Reykvíkingar samkvæmt Þjóðskrá, en þeir halda þó flestir til í Reykjavík. Fjölmennasti hópur utangarðsfólks á við margháttaðan félagslegan vanda að stríða þ.m.t. fíknivanda og geðsjúkdóma. Reykjavíkurborg hefur frá árinu 2008 verið með sérstaka stefnu í málaflokknum. Á síðustu árum hafa borgaryfirvöld stóraukið þjónustu við hópinn og reka nú fjögur sértæk langtímabúsetuúrræði fyrir 25-29 einstaklinga sem áður voru í neyðarskýlum.

Ólöf Birna Björnsdóttir nemi og Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir félagsráðgjafi

Í langan tíma hefur Reykjavíkurborg greitt kostnað vegna reksturs Gistiskýlisins við Þingholtsstræti og Konukots. Gistiskýlið getur rúmað allt að tuttugu heimilislausa reykvíska karlmenn og Konukot átta reykvískar konur. Einstaklingar, með lögheimili utan Reykjavíkur, hafa einnig notið góðs af neyðarskýlum borgarinnar þegar húsrúm leyfir. Þar til nýlega hafa þessi úrræði náð að þjónusta þá sem leita eftir gistingu, en nú er svo komið að ásókn í næturgistingu í Gistiskýlinu hefur aukist svo mjög, að vísa hefur þurft einstaklingum frá gistingu. Karlmenn sem eru á götunni í Reykjavík með lögheimili í öðrum sveitarfélögum þurfa því að leita á náðir fangageymslu lögreglunnar með húsaskjól eða hreinlega sofa úti.

 Auka þarf fjölbreytni

Í huga höfunda er vandinn víðtækari en svo að lausnin felist í að fjölga neyðarrúmum og stækka gistiskýli. Mikilvægt er að auka fjölbreytni í búsetúrræðum s.s fleiri langtímabúsetuúrræði þar sem vímuefnabindindi er ekki skilyrði. Þá þarf einhvers konar „edrúskýli" þar sem einstaklingar sem eru að byrja að takast á við vímuefnavanda sinn, geta verið í vímulausu umhverfi þar sem sérhæft starfsfólk er á vaktinni. Það þarf sérhæft úrræði fyrir tvígreindar konur og öldrunar/hjúkrunarrými fyrir virka alkóhólista svo einhver dæmi séu nefnd. Einnig þarf að stórauka framboð á ódýru leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, því hluti af hópnum sem sækir sér neyðargistingu á ekki endilega við vímuefnavanda að stríða eða alvarlegar geðraskanir, þeir eru „bara" fátækir.

Það er staðreynd að fólk sem er í neyslu vímuefna eða áfengis leitar til höfuðborgarinnar hér á landi eins og annars staðar. En á þá heimilisleysi og utangarðsfólk eingöngu að vera vandi höfuðborgarinnar? Sveitarfélög á Íslandi eru 75 talsins og aðeins eitt þeirra hefur byggt upp úrræði fyrir utangarðsfólk. Í 46. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn. Þrátt fyrir það hefur Reykjavíkurborg borið ein kostnað af rekstri neyðargistiskýla fyrir heimilislausa sem þar til nú hafa þjónustað utangarðsfólk af allri landsbyggðinni.

Heimilislausum fjölgar

Mörg sveitarfélög setja enn það sem skilyrði fyrir þjónustu, að viðkomandi hafi farið í meðferð og sé í bataferli. Í 50 gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að félagsmálanefndir sveitarfélaga skuli hlutast til um að áfengissjúkir og þeir sem misnota áfengi eða aðra vímugjafa fái viðeigandi meðferð og aðstoð. Okkar túlkun á þessari grein er sú að sveitarfélögum beri skylda til að mæta skjólstæðingum sínum þar sem þeir eru staddir og veita þeim viðeigandi aðstoð og stuðning. Sú hugmyndafræði sem reynst hefur vel í vinnu með utangarðsfólki er skaðaminnkandi nálgun. Grunnhugmynd skaðaminnkunar er virðing fyrir einstaklingum, að minnka skaðann af því líferni sem þeir lifa og veita þeim þjónustu án skilyrða um edrúmennsku. Langtímabúseta þar sem vímuefnaneysla er leyfð, er skaðaminnkandi úrræði sem Reykjavíkurborg hefur þróað í auknum mæli undanfarin misseri og hefur gefið góða raun.

Heimilislausum einstaklingum fer fjölgandi. Það er orðið tímabært að sveitarfélögin komi með markvissum hætti að málaflokki utangarðsfólks. Samvinna hlutaðeigandi aðila er forsenda þess að hægt sé að virða mannréttindi alls utangarðsfólks í landinu. Vandinn er ekki einkamál borgaryfirvalda, ástandið er grafalvarlegt.

Ólöf Birna Björnsdóttir nemi og Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir félagsráðgjafi

 

Félagsráðgjafi ársins 2013

Félagsráðgjafi ársins 2013 var tilnefndur í gær á afmælishátíð Félagsráðgjafafélagsins.

Guðrún þorgerður Ágústsdóttir hefur starfað sem  félagsráðgjafi á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða varð fyrir valinu. Hún hefur verið ötul baráttukona fyrir bættri þjónustu við utangarðsfólk sem eru oftast langt leiddir vegna alkahólisma.

 

Guðrún þorgerður Ágústsdóttir situr í stjórn Verndar fangahjálpar, óskar stjórn Verndar henni sérstaklega til hamingju. 

 

 

 

 

 

 

Þráinn Bj Farestveit