Góður drengur er fallinn frá og við sem höfum starfað með honum minnumst hans með hlýhug en Hannes Þ. Sigurðsson hafði verið félagslegur endurskoðandi Verndar í áratugi. Hannes Þ. Sigurðsson lést á skírdag. Hann fæddist 3. júlí 1929, lauk verslunarprófi frá VÍ 1948 og stundaði framhaldsnám í Verslunarháskólanum í Stokkhólmi til 1950.
Sama ár hóf hann störf hjá Sjóvá, síðar Sjóvá-Almennum, og starfaði þar allan sinn starfsaldur.
Hannes var virkur í félagsmálum íþrótta og verkalýðs og sat þar í ýmsum stjórnum, svo sem stjórn ÍSÍ lengst allra frá 1955 til 1994, varaforseti lengst af. Hann sat í stjórn VR frá 1955 til 1983, lengst af sem ritari og varaformaður frá 1980. Hannes sat í stjórn LV um árabil. Hann var einn stofnenda Verslunarsparisjóðsins, síðar Verslunarbankans, og um skeið varamaður í stjórn.
Hann var knattspyrnu- og handboltadómari í áratugi, meðal annars á erlendum vettvangi, og fyrstur íslenskra knattspyrnudómara til að bera merki FIFA. Hann sat lengi í stjórn Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og hverfisstjórn. Hann skrifaði íþróttafréttir í Morgunblaðið og Vísi og var ritstjóri tímaritsins Allt um íþróttir. Hann var heiðursfélagi margra félaga og sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1997.
Eftirlifandi kona hans er Margrét Erlingsdóttir. Eignuðust þau þrjú börn, Sigurð, Kristínu og Erling, sjö barnabörn og sjö barnabarnabörn.
Stjórn og starfsmenn Verndar vottar fjölskyldu, vinum og ættingjum dýpstu samúðarkveðjur