Um síðustu áramót biðu 460 einstaklingar þess að komast í fangelsi til að afplána fangelsisdóma sína. Af þeim höfðu 137 sótt um að afplána dóma sína með samfélagsþjónustu. 105 þeirra fengu beiðni sína samþykkta. Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata.
Í svarinu kemur einnig fram að frá árinu 2010 hafa 1.025 einstaklingar hafið afplánun fangelsisrefsingar, sumir oftar en einu sinni. Mikill munur er á kynjunum en 937 karlar og 88 konur eru í hópnum. Flestir þeirra eru á aldrinum 21 til 30 ára, eða 471 einstaklingur, en 9 voru á aldrinum 15 til 17 ára. Frá árinu 2010 hafa einnig 426 hafið afplánun fangelsisrefsingar með samfélagsþjónustu, sumir oftar en einu sinni. Í þeim hópi er kynjahlutfallið svipað eða 374 karlar og 52 konur. Um helmingur þeirra voru á aldrinum 21 til 30 ára, eða 222 einstaklingar. Frá því í febrúar 2012 hafa 97 fangar lokið afplánun undir rafrænu eftirliti en þeim hefur farið fjölgandi.
Ástæðan fyrir þessum mikla fjölda er einföld, öll fangelsi eru yfirfull, dómar eru að lengjast og málaflokkurinn hefur setið á hakanum árum saman. Fangelsismálastofnun segir að rúm 50 ár séu nú liðin frá því að ákveðið var fyrst að byggja nýtt öryggisfangelsi á Höfuðborgarsvæðinu.
Litla-Hraun hefur gegnt hlutverki stærsta öryggisfangelsis landsins um áratugaskeið en það hefur verið ljóst að það húsnæði hentar ekki sem öryggisfangelsi enda var hluti Litla-Hrauns byggt sem spítali og uppfyllir ekki þær kröfur sem gerða eru. Alls eru sex fangelsi á Íslandi. Fjögur þeirra eru lokuð: Litla-Hraun, Fangelsið á Akureyri, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og Fangelsið í Kópavogi. Auk þeirra eru opin fangelsi að Sogni og Kvíabryggju og þá hefur úrræði Verndar verið yfirfullt samkvæmt upplýsingum frá Þráni Farestveit framkvæmdastjóra Verndar. Til stendur að loka bæði Hegningarhúsinu og fangelsinu í Kópavogi. Þegar nýtt fangelsi verður opnað á Hólmsheiði, Það er nú í byggingu og á að opna haustið 2015. Fangelsisrýmum fjölgar þá um 30 talsins.