Föngum er ekki umbunað

Geir Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir og Þráinn Farestveit vita ýmislegt um hvernig fangelsisrefsingar fara með fólk. Enginn Íslendingur hefur afplánað lengri dóm en Geir sem sat í sautján ár í öryggisfangelsi í Bandaríkjunum. Margrét er nýhætt sem forstöðumaður á Litla-Hrauni eftir áralangt starf en Þráinn stýrir áfangaheimilinu Vernd, þar sem tæplega helmingur íslenskra fanga lýkur afplánun

 Þráinn Farestveit og Margrét Frímansdóttir

 sjá. http://www.frettatiminn.is/19261-2/

 

Ráðstefna

Knut Storberget, þingmaður norska Verkamannaflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs, verður frummælandi á málfundi Samfylkingar og Pírata, um betrunarmál, föstudaginn 29. janúar, kl. 13-15 í Norræna húsinu. 

Norsk stjórnvöld fóru í gagngera endurskoðun á fangelsiskerfi sínu á árunum 2007-2008, í dómsmálaráðherratíð Knut Storberget og hefur betrunarkerfi Norðmanna vakið heimsathygli á undanförnum árum. Fjallað hefur verið um norsku fangelsin Bastoy og Halden í virtum fjölmiðlum víða um heim, meðal annars á CNN, í New York Times og Guardian. 

Í Noregi er endurkomutíðni í fangelsi mjög lág. Betrunarstefna sú sem Norðmenn hófu að innleiða fyrir tæpum áratug lofar mjög góðu. Þar eru markmið afplánunar skýr en afplánun á að vísa fram á veginn og tryggja farsæla endurkomu út í samfélagið. Menntun, starfsþjálfun og vímuefnameðferðir eru mikilvægir þættir í þessu ferli og Norðmenn njóta einnig sérstöðu vegna áherslu þeirra á opin fangelsi fremur en lokuð öryggisfangelsi. Hlutfall þeirra sem afplána í opnum fangelsum er mun hærra í Noregi en hér á landi. „Út í lífið“ prógram Norðmanna tekur svo við þegar afplánun lýkur. Með „Út í lífið“ tengja Norðmenn sveitarfélögin og frjáls félagasamtök inn í ferlið með það að marki að fangar hafi öruggt húsaskjól og eitthvað að hverfa að þegar afplánun líkur. 

 


Nú þegar frumvarp til nýrra laga um fullnustu refsinga er til umræðu á Alþingi er tilvalið að spyrja hvernig nýja stefnan gangi hjá Norðmönnum og hvað við hér á Íslandi getum lært af þeim. 

Heimsókn

Nemendur í afbrotafræði við Háskólan í Reykjavík heimsóttu fangahjálpina Vernd í dag. Þráinn Bj. Farestveit framkvæmdastjóri og Hreinn Hákonarson fangaprestur tóku á móti nemendum og fræddu þá um hlutverk og tilgang þessa fullnustuúrræðis, sem er mikilvægur liður í aðlögun fanga að samfélaginu á ný. Tilgangur heimsóknarinnar var upplýsa og miðla fræðsla um úrræði Verndar.  Farið var yfir sögu Verndar og hugmyndafræði. Nemendurnir voru áhugasamir um stöðu Verndar og þeirra sem sækja um vistun í úrræði Verndar. Margt bar á góma meðal annars hvað væri til ráða og spurningar um það hvað helst einkenni þann stóra hóp sem kemur í gegnum úrræðið. Þá var heimili Verndar skoðað.

 

 

 

 

 

Raunveruleikinn í fangelsi

Það er vaskur hópur karla og kvenna sem starfar innan fangelsa landsins. Störfin þar eru hvert öðru mikilvægara – því má ekki gleyma. Fangelsi eru viðkvæmir vinnustaðir þar sem starfsmenn eru í daglegum samskiptum við fólk sem orðið hefur fótaskortur í lífinu með margvíslegum hætti; sumir fangar kljást auk þess við ýmsan vanda af heilsufars- og félagslegum toga. Fólkið, fangarnir, er komið í aðstæður sem eru afar framandi venjulegu lífi. Það sem fangar finna mest fyrir í fyrstu eru hvers kyns skorður og hindranir sem draga úr almennum lífsgæðum. Gæði lífsins innan fangelsis eru rýr í roði miðað við frelsið sem býr utan múrsins. Það eitt og sér ásamt mörgu öðru hefur áhrif á fangana sem manneskjur. Þeir skoða líf sitt og gjörðir og takast á við ástæðu þess að vera komnir skyndilega bak við lás og slá – það geta hvort tveggja verið einfaldar ástæður sem og flóknar. En aðstæður þeirra eru mjög oft brenndar marki sárinda og kvíða.

Þetta er fangelsi. Stofnanir sem ríkið á og rekur.

Fangaverðir gegna mikilvægum störfum í þessum stofnunum hins opinbera. Störf þeirra fara ekki hátt en eru ábyrgðarmikil og vandasöm. Jafnframt geta þau verið býsna erfið á stundum. Ekki svo að skilja að beita þurfi oft líkamskröftum á vettvangi hversdagsins heldur eru samskipti innan þessa fyrirbæris mannlegs lífs sem heitir fangelsi, á köflum flókin og gera býsna miklar kröfur um innsæi í viðkvæmar aðstæður, skilning, fordómaleysi og væntumþykju en samtímis festu og ákveðni. Þolinmæði er sömuleiðis bráðnauðsynlegur eiginleiki. Fangaverðir sem búa ekki yfir slíkum kostum staldra ekki lengi við í starfi. Margir fangaverðir hafa sýnt einstaka samskiptahæfni og gert líf fanga bærilegra en ella. Þeir hafa eytt mörgum stundum í viðtöl við fanga þegar allir heimsins sérfræðingar eru víðs fjarri (með fullri virðingu fyrir þeim) og linað hugarkvalir þeirra og hvatt þá til betra lífs. Sú þjónusta hefur verið unnin í hljóði og kannski til fárra fiska metin. Margir fangar hafa látið þau orð falla að sumir fangaverðir hafi beinlínis bjargað lífi þeirra. Fangelsi með slíka fangaverði er betri staður en ella og mannbætandi.

Mótun jákvæðrar sjálfsmyndar

Sköpum börnum og ungmennum forsendur
til mótunar jákvæðrar sjálfsmyndar!

Hvernig líkar barninu þínu við sig?

Jákvæð sjálfsmynd er mikilvæg forsenda vellíðunar og lífshamingju nútímafólks og gerir það færara um að stjórna eigin lífi og takast á við krefjandi viðfangsefni.

Sjálfsmynd okkar byggist á því hvernig við metum okkur sjálf, eiginleika okkar og hegðun, hver við erum og hvers virði okkur finnst við vera.  Hún verður til í samskiptum okkar við annað fólk og mótast af þeim skilaboðum sem við fáum frá þeim sem við umgöngumst mest. Myndin sem við höfum af okkur sjálfum fæðist af því félagslega umhverfi og aðstæðum sem við búum við; verður neikvæð eða jákvæð eftir atvikum.

Sterk sjálfsmynd og jákvætt mat einstaklinga á eigin hæfni, hvetur til frekari dáða og þeir virðast geta tekist á við erfiðleika á uppyggjandi hátt og gert raunhæfar kröfur til sjálfra sín.
Jákvæð sjálfsmynd er sennilega einhver sterkasta forvörnin gegn hvers kyns áhættuhegðun.

Einstaklingar með veika sjálfsmynd hafa neikvætt mat á sjálfum sér, þá skortir gjafnan það sjálfstraust sem þarf til að takast á við verkefni dagsins.

Sjálfsmyndin fer að mótast strax á unga aldri. Margir unglingar hafa efasemdir um hverjir þeir eru í raun og veru. Þeir leita svara og fyrirmynda við þeirri óvissu meðal annars á samskiptamiðlum og í fjölmiðlum.

Jákvætt viðmót, viðurkenning, styðjandi umhverfi, festa, leiðsögn og umburðarlyndi stuðlar að heilbrigðri og sterkri sjálfsmynd. Hrós og hvatning kostar ekkert en getur áorkað miklu.

Neikvæðni, niðurlægjandi ummæli, einelti, félagsleg einangrun brjóta niður sjálfsmyndina. Þar þurfum við öll að vera á verði og sýna gott fordæmi.

Það er á ábyrgð samfélagsins alls að skapa aðstæður fyrir jákvæða sjálfsmynd þótt ábyrgðin sé mest hjá foreldrum og forráðamönnum barna. Það bera allir ánbyrgð og engin þegn samfélagsins er undanþeginn.

Stöndum með börnum okkar - styrkjum sjálfsmynd þeirra - leyfum þeim að líka vel við sig.

 

Þráinn Farestveit