Verndarblaðið 44. Árg .2016

Menningarstefna í fangelsum

Menning er af ýmsum toga og alls ekki einsleit. Þar kennir margra grasa og það sem einn sér sem illgresi og kallar jafnvel ómenningu getur annar séð sem fagra jurt og sett á stall hámenningar. Menning er nefnilega afstætt fyrirbæri í mannlífinu. Og manneskjur hafa ríka tilhneigingu til að flokka eitt og annað til þess meðal annars að marka sjálfum sér sess í tilverunni.

Kannski er menning ekki það fyrsta sem mönnum dettur í hug þegar þeir leiða hugann að fangelsi. Í það minnsta ekki sú menning sem alla jafna telst vera göfgandi og uppbyggileg og er eftirsóknarverð í sjálfu sér. Eitthvað sem enginn vill láta fram hjá sér fara jafnvel þótt það kosti eitthvert fé og telur sálarbætandi að njóta. Ýmist einn með sjálfum sér eða með öðrum. Menning hversdagslegs fólks.Allt atferli mannskepnunnar elur af sér menningu og mótar hana. Hvort heldur það nú er verklegt starf eða andleg iðja. Ekki skiptir máli hvort það er stöðumælavörðurinn, menntamaðurinn, fanginn eða bóndakonan sem á í hlut. Öll skilja þau eftir sig fótspor og hafa einhverja sögu að segja sem er hluti menningar. Þau spor geta verið djúp og farsæl, fyllt kærleika og elsku; grunn og hikandi, sár og meiðandi. Sum hver tekin óafvitandi. Allt fótspor fólks í undarlegum heimi.Menning felst í samskiptum við annað fólk og tengslum við umhverfi og náttúru.

Frásögn er með elstu menningarlegu fyrirbærum mannkynsins. Að segja frá því sem á dagana hefur drifið – og það sem hæst hefur borið í lífi hvers og eins. Það er frásögn einstaklingsins, upplifun hans; sumt af því eru hreinar og beinar staðreyndir, annað staðreyndir í listrænum búningi, ofnar inn í skynjun og tilfinningar. Enn annað er uppspuni og hitt ímyndun. Allt fléttast saman í frásögn sem er hluti af sjálfi einstaklingsins. Hver manneskja ber í sér ákveðna menningu eða spor menningar af ýmsu tagi. Margir fangar segja til dæmis sögu með húðflúri sínu – örfáir hlutar hennar og oft þeir dýrmætustu eru skráðir á líkamann því fanginn vill geyma hana. Hann veit að engin yfirvöld taka líkamann af honum þó að þau geti svipt hann ýmsu öðru af gefnum tilefnum.

Stundum þarf að styðja við bakið á menningunni og sérstaklega á þeim stöðum þar sem fólk dvelst tímabundið af ýmsum ástæðum hvort heldur í fangelsi eða sjúkrahúsi. Margir listamenn hafa til dæmis gengið þar fram fyrir skjöldu og leikið og sungið fyrir fanga við ýmis tímamót. Það er ávallt þakkarefni og fangar taka slíkum menningarheimsóknum vel. Hins vegar þyrfti slík menningarstarfsemi að vera markvissari og bundin í dagskrá fangelsa. Hvað um að standa fyrir einum menningarviðburði í mánuði? Tónlist, myndlist eða ritlist. Það er til dæmis undravert að listaverk skuli ekki hanga uppi í öllum fangelsisdeildum og höggmyndir prýða fangelsisgarða. Í mörgum stofnunum ríkisins eru málverk á veggjum sem ríkið á og lánar eða leigir stofnunum til að prýða þær og vekja upp menningarlegar tilfinn­ingar og umræður. Og ríkið á urmul af listaverkum sem geymd eru hér og þar. Það er sérstaklega ánægjulegt að listaverk skuli vera að finna í Hólmsheiðarfangelsinu en þar hafa nokkur flugmynstur fugla verið fræst í veggi. Stundum eru ágætir listmálarar í hópi fanga og þeir hafa oft lánað verk sín til að lífga upp á fangahúsin.

Þýðingarmikið framfaraskerf

Eftirfarandi grein, sem fer hér á eftir í íslenskri þýðingu, er eftir Nora Volkow, forstjóra bandarísku alríkisstofnunarinnar NIDA, National Institute on Drug Abuse, og birtist áheimasíðu hennar þann 31. mars sl og samdægurs á vef Huffington Post.

„Aðeins um 10% þeirra 21 milljóna Bandaríkjamanna, sem talið er að þurfi aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnafíknar, eiga kost á einhverri meðferð og stór hluti þeirrar meðferðar sem býðst stenst ekki kröfur um að veitt þjónusta sé byggð á rannsóknum og gagnreyndri þekkingu. Það eru margar ástæður fyrir þessari meðferðargjá sem tengdar eru eru kerfislægum þáttum og viðhorfum, þar á meðal fordómum, og það eru þröskuldar innan stofnana sem koma í veg fyrir að meðferð sé boðin fram og að fjármagn til að kosta meðferð vegna fíknsjúkdómum sé fyrir hendi. Önnur hindrun er sú staðreynd að þar til nú hafa fíknlækningar ekki verið viðurkennd grein sem læknar geta sérhæft sig í ¬– sú staðreynd hefur haft mikil áhrif á það hversu mikla og hversu góða menntun læknanemar hafa fengið og þau tækifæri sem unglæknum í starfsþjálfun býðst til að aðstoða sjúklinga sem fást við fíknsjúkdóma.

Tryggingastofnun

Fangelsisvist

 

Örorku- og ellilífeyrisþegar 

Afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi eða kemur sér viljandi undan því að afplána refsingu falla niður allar greiðslur TR til hans.

Sæti lífeyrisþegi gæsluvarðhaldi eða sé hann á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun  falla niður allar greiðslur TR til hans eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald eða dvöl. Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða ráðstöfunarfé í samræmi við 8. mgr. 48. gr. Verði lífeyrisþegi ekki dæmdur til fangelsisvistar í kjölfar gæsluvarðhalds skulu bætur til hans greiddar fyrir það tímabil þegar gæsluvarðhaldsvist stóð yfir.

Lífeyrisþegar sem falla af bótum vegna fangelsisvistar geta ekki sótt um framlengingu bóta.

Heimilt er  að sækja um ráðstöfunarfé hjá Tryggingastofnun . Ítarlegur rökstuðningur þarf að fylgja umsókn ásamt greiðslukvittunum sem staðfesta útgjöld.

Fangi sem fær að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd eða með rafrænu eftirliti fær bætur sínar í gang aftur svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Brjóti fangi sem er á áfangaheimili eða í rafrænu eftirliti af sér og fer aftur í fangelsi falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar.

Hafi lífeyrisþegi verið meðlagsskyldur og TR hefur ráðstafað barnalífeyri upp í meðlag þá heldur sú ráðstöfun áfram svo lengi að réttur sé enn til  staðar.

Endurhæfingarlífeyrisþegar 
Endurhæfingarlífeyrisþegar sem dæmdir eru til fangelsisvistar falla strax af bótum frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að afplánun hefst. Endurhæfingarlífeyrir fer ekki í gang aftur þó svo fangi fái að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd, með rafrænu eftirliti eða þegar afplánun lýkur. Til að fá endurhæfingarlífeyri aftur að lokinni afplánun þarf að sækja um að nýju.

Endurhæfingarlífeyrisþegar geta hvorki sótt um framlengingu bóta né vasapeninga.

Örorkustyrksþegar 
Örorkustyrksþegar sem dæmdir eru til fangelsisvistar halda greiðslum í 120 daga eftir að afplánun hefst. Eftir 120 daga samfellda fangelsisvist falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar.

Örorkustyrksþegar geta hvorki sótt um framlengingu bóta né vasapeninga.

Fangi sem fær að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd, með rafrænu eftirliti eða þegar afplánun lýkur fær örorkustyrk sinn í gang aftur svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Brjóti fangi af sér og fer aftur í fangelsi falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar.

Aðrar upplýsingar 
Heimilt er að greiða maka einstaklings sem sætir gæsluvarðhaldi eða er í fangelsi barnalífeyri með börnum hans svo framarlega að vistin hafi varað í a.m.k. þrjá mánuði.

Föngum er ekki umbunað

Geir Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir og Þráinn Farestveit vita ýmislegt um hvernig fangelsisrefsingar fara með fólk. Enginn Íslendingur hefur afplánað lengri dóm en Geir sem sat í sautján ár í öryggisfangelsi í Bandaríkjunum. Margrét er nýhætt sem forstöðumaður á Litla-Hrauni eftir áralangt starf en Þráinn stýrir áfangaheimilinu Vernd, þar sem tæplega helmingur íslenskra fanga lýkur afplánun

 Þráinn Farestveit og Margrét Frímansdóttir

 sjá. http://www.frettatiminn.is/19261-2/

 

Ráðstefna

Knut Storberget, þingmaður norska Verkamannaflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs, verður frummælandi á málfundi Samfylkingar og Pírata, um betrunarmál, föstudaginn 29. janúar, kl. 13-15 í Norræna húsinu. 

Norsk stjórnvöld fóru í gagngera endurskoðun á fangelsiskerfi sínu á árunum 2007-2008, í dómsmálaráðherratíð Knut Storberget og hefur betrunarkerfi Norðmanna vakið heimsathygli á undanförnum árum. Fjallað hefur verið um norsku fangelsin Bastoy og Halden í virtum fjölmiðlum víða um heim, meðal annars á CNN, í New York Times og Guardian. 

Í Noregi er endurkomutíðni í fangelsi mjög lág. Betrunarstefna sú sem Norðmenn hófu að innleiða fyrir tæpum áratug lofar mjög góðu. Þar eru markmið afplánunar skýr en afplánun á að vísa fram á veginn og tryggja farsæla endurkomu út í samfélagið. Menntun, starfsþjálfun og vímuefnameðferðir eru mikilvægir þættir í þessu ferli og Norðmenn njóta einnig sérstöðu vegna áherslu þeirra á opin fangelsi fremur en lokuð öryggisfangelsi. Hlutfall þeirra sem afplána í opnum fangelsum er mun hærra í Noregi en hér á landi. „Út í lífið“ prógram Norðmanna tekur svo við þegar afplánun lýkur. Með „Út í lífið“ tengja Norðmenn sveitarfélögin og frjáls félagasamtök inn í ferlið með það að marki að fangar hafi öruggt húsaskjól og eitthvað að hverfa að þegar afplánun líkur. 

 


Nú þegar frumvarp til nýrra laga um fullnustu refsinga er til umræðu á Alþingi er tilvalið að spyrja hvernig nýja stefnan gangi hjá Norðmönnum og hvað við hér á Íslandi getum lært af þeim.