Henríetta Ósk Gunnarsdóttir, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segir sárlega vanta fleiri úrræði fyrir fanga sem hafa setið inni fyrir kynferðisbrot gegn börnum. „Þetta er eini hópurinn sem fær ekki að fara inn á áfangaheimili,“ segir Henríetta í hlaðvarpinu Frelsið er yndislegt með Guðmundi Inga Þóroddssyni, formaður Afstöðu.
Áfangaheimilið Vernd tekur ekki á móti föngum sem hafa brotið gegn börnum og hingað til hafa meðferðarstofnanir heldur ekki viljað taka á móti föngum í þessum brotaflokki. Henríetta bendir einnig á að engin eftirfylgni sé eftir að einstaklingarnir hafi lokið fangelsisvist.
Frelsið er yndislegt - Henríetta Ósk Gunnarsdóttir - YouTube
„Við fylgjum þeim eftir á reynslulausnar tíma og svo líkur þeirra tíma hjá okkur og þá eru þeir úr okkar höndum. Það vantar eitthvað sem tekur við þegar fólk hefur lokið afplánun.“ Þá sé erfiðara fyrir þennan hóp að fóta sig í samfélaginu og finna vinnu og heimili að lokinni afplánun.
Sérgangur fyrir barnaníðinga
„Fangar sem sitja inni fyrir brot gegn börnum eru mjög jaðarsettur hópur,“ segir Henríetta. Þeir eru til að mynda vistaðir á sérgangi á Litla Hrauni og umgangast aðra fanga lítið.
„Þessi hópur virðist vera neðst í virðingarstiganum þannig hann einangrast svolítið,“ útskýrir Henríetta. Þá sé hópurinn oft útsettur fyrir áreiti og árásum af hálfu annarra fanga sé þess vegna haldið að hluta til frá öðrum vistmönnum Litla Hrauns.
Verri meðferð
Guðmundur telur að fangar í þessum brotaflokk fái verri meðferð en aðrir fangar með því að vera aðskildir. Hann telur þennan hóp ekki hafa lent í fleiri árásum en aðra innan fangelsisveggjanna. Henríetta segir það geta staðist en bendir á að aðskilnaðurinn hafi verið settur á með öryggi brotamannanna í huga.
„Þeirra vegna er það jákvætt upp á það að gera. Við sjáum það erlendis að þar eru sérúrræði fyrir þennan hóp.“ Áhyggjur hafi einnig komið upp um að það gæti verið skaðlegt að hafa menn með sömu kenndir í sama hóp. Henríetta segir þó ekkert benda til þess.
Guðmundur veltir fyrir sér hvort það sé ekki hætta á að þessir menn myndi tengsl og hittist með slæman ásetning þegar komið er úr fangelsinu. „Það á við um alla sem eru í fangelsi. Kannski eignast þú félaga sem að þú heldur samskiptum við áfram þar sem það eru skert tækifæri til samskipta,“ mótmælir Henríetta.
Manneskjur eins og aðrir
Henríetta hefur sinnt þeim föngum sem þjást af barnagirnd um árabil. Um það bil þrjú til fimm prósent mannkynnisins glímir við barnagirnd að sögn Henríettu. Það er að hennar mati ekki hægt að skilgreina sem sjúkdóm þar sem hægt er að vinna með fólki sem glímir við þessi einkenni.
Í meðferðum sé mikilvægt að mæta einstaklingunum af virðingu að mati Henríettu. „Það getur verið erfitt að heyra en þetta eru manneskjur eins og aðrir.“ Þessu fylgi gríðarleg skömm og því geti verið erfitt að opna sig um slíkar kenndir.
„Við viljum meina að fangelsisvist hafi einhvern fælingarmátt og við viljum ætla að þetta sé betrun og tækifæri til að vinna með einstaklingnum og grípa hann.“ Barnagirnd sé mikið tabú og því leiti fólk sér ekki aðstoðar fyrr en það er orðið of seint. „Með því að vinna með þeim í fangelsinu er hægt að reyna að koma í veg fyrir að það verði fleiri brotaþolar.“
Barnagirnd faldari hjá konum
Horft er til þriggja viðmiða þegar einstaklingur er greindur með barnagirnd. Hvort einstaklingurinn upplifi kynferðislega hugaróra eða hvatir til barna, hvort hann hafi framfylgt þeim órum og hvort hann hafi átt við mikla streitu eða áreiti í tengslum við þessa hugaróra sem hafi aftrað eðlilegu félagslífi. „Svo er enginn yngri en 16 ára sem myndi fá þessa greiningu og brotaþolinn þyrfti að vera minnst fimm árum yngri.“
Mun algengara er að karlar sitji inni fyrir kynferðisbrot gegn börnum en konur. Henríetta bendir á að telja mætti þær konur sem hafa setið inni á Íslandi fyrir slík brot á annarri hendi.
Hún telur að ástæða þess sé að hluta til fólgin í því að barnagirnd sé meira falin hjá konum. Það geti þó breyst á komandi árum þá gæti kvenkyns föngum í þessum málaflokk því fjölgað.