Tryggingastofnun

Fangelsisvist

 

Örorku- og ellilífeyrisþegar 

Afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi eða kemur sér viljandi undan því að afplána refsingu falla niður allar greiðslur TR til hans.

Sæti lífeyrisþegi gæsluvarðhaldi eða sé hann á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun  falla niður allar greiðslur TR til hans eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald eða dvöl. Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða ráðstöfunarfé í samræmi við 8. mgr. 48. gr. Verði lífeyrisþegi ekki dæmdur til fangelsisvistar í kjölfar gæsluvarðhalds skulu bætur til hans greiddar fyrir það tímabil þegar gæsluvarðhaldsvist stóð yfir.

Lífeyrisþegar sem falla af bótum vegna fangelsisvistar geta ekki sótt um framlengingu bóta.

Heimilt er  að sækja um ráðstöfunarfé hjá Tryggingastofnun . Ítarlegur rökstuðningur þarf að fylgja umsókn ásamt greiðslukvittunum sem staðfesta útgjöld.

Fangi sem fær að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd eða með rafrænu eftirliti fær bætur sínar í gang aftur svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Brjóti fangi sem er á áfangaheimili eða í rafrænu eftirliti af sér og fer aftur í fangelsi falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar.

Hafi lífeyrisþegi verið meðlagsskyldur og TR hefur ráðstafað barnalífeyri upp í meðlag þá heldur sú ráðstöfun áfram svo lengi að réttur sé enn til  staðar.

Endurhæfingarlífeyrisþegar 
Endurhæfingarlífeyrisþegar sem dæmdir eru til fangelsisvistar falla strax af bótum frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að afplánun hefst. Endurhæfingarlífeyrir fer ekki í gang aftur þó svo fangi fái að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd, með rafrænu eftirliti eða þegar afplánun lýkur. Til að fá endurhæfingarlífeyri aftur að lokinni afplánun þarf að sækja um að nýju.

Endurhæfingarlífeyrisþegar geta hvorki sótt um framlengingu bóta né vasapeninga.

Örorkustyrksþegar 
Örorkustyrksþegar sem dæmdir eru til fangelsisvistar halda greiðslum í 120 daga eftir að afplánun hefst. Eftir 120 daga samfellda fangelsisvist falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar.

Örorkustyrksþegar geta hvorki sótt um framlengingu bóta né vasapeninga.

Fangi sem fær að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd, með rafrænu eftirliti eða þegar afplánun lýkur fær örorkustyrk sinn í gang aftur svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Brjóti fangi af sér og fer aftur í fangelsi falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar.

Aðrar upplýsingar 
Heimilt er að greiða maka einstaklings sem sætir gæsluvarðhaldi eða er í fangelsi barnalífeyri með börnum hans svo framarlega að vistin hafi varað í a.m.k. þrjá mánuði.