Afstaða, félag fanga, hefur opnað vefinn domareiknir.is sem sagður er „sennilega mesta framfaraskref sem litið hefur dagsins ljós varðandi upplýsingagjöf um framgang í fangavist“. Tilgangur vefsins er að gera niðurstöðu dóma aðgengilega og skiljanlega, að því er fram kemur í tilkynningu frá Afstöðu.
„Með nýja vefnum geta fangar, aðstandendur, fangaverðir, lögmenn, fréttamenn og almenningur kynnt sér hvernig framgangur fangavistar er, að gefnum forsendum, og fengið þannig fram upplýsingar um dagsetningar og þau úrræði sem í boði eru skv. núgildandi lögum og reglum,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að oft virðist uppi misskilningur um hvernig niðurstaða dóma er í framkvæmd, enda ekki á hendi dómsvaldsins að útfæra dóma heldur framkvæmdavaldsins.
„Þó það sé hlutverk dómstóla að kveða upp dóma flækir það oft niðurstöðurnar að Fangelsismálastofnun skuli síðan falið að útfæra dómana og taka ákvarðanir um hvernig skuli fullnusta dóma. Dómareikninum er ætlað að varpa ljósi á hvernig réttarkerfið virkar í raun, því útkoma dóma hefur að mörgu leyti verið hulin þeim sem ekki hafa djúpt innsæi í íslenskt réttarkerfi - sem er þó svo mikilvægt fyrir réttarríkið; að öllum sé kunnugt um hvaða reglur þar ríkja og þær séu öllum skiljanlegar, þar með talið dómaframkvæmd.
Afstaða hefur jafnframt, í samvinnu við lögmenn með sérþekkingu á sakamálarétti, sett saman upplýsingar um réttarkerfið og þau takmörkuðu dómsúrræði sem dómstólar hér á landi hafa úr að velja þegar dæmt er í málum. Dómstólar í Skandinavíu hafa úr mun fleiri úrræðum að velja en íslenskir dómstólar og geta þannig t.d. ákveðið að afplánun skuli fara fram undir rafrænu eftirliti (með s.k. ökklaböndum), að dómþoli skuli gangast undir meðferðarúræði vegna ölvunaraksturs og annars konar úrræði sem tryggja að afplánun dóms hefst strax við uppkvaðningu dóms. Þannig er orsök og afleiðing brots sett í samhengi, afplánun hefst án tafa og fer fram í nærumhverfi dómþolans.“