Vistmenn Verndar komnir í sóttvarnarhús

Smit kom upp á áfanga­heim­il­inu Vernd á laug­ar­dag­inn. Í kjöl­farið greind­ist annað smit og all­ir starfs­menn og vist­menn þurftu að fara í sótt­kví. „Þá var bara tek­in ákvörðun í sam­ráði við sótt­varna­yf­ir­völd að tæma Vernd og all­ir vist­menn­irn­ir fengu inni í far­sótt­ar­húsi á meðan starf­sem­in ligg­ur niðri,“ seg­ir Þrá­inn Bj. Farest­veit, fram­kvæmda­stjóri Vernd­ar. Er þetta und­an­tekn­ing frá reglu­gerð sem var breytt ný­lega af heil­brigðisráðherra á þann veg að ein­ung­is ein­angr­un­ar­gest­ir fengju að dvelja í far­sótt­ar­hús­um, ekki þeir sem sæta sótt­kví. Vegna smit­anna var aft­ur á móti ekki hægt að halda starf­sem­inni gang­andi og því það eina í stöðunni að vist­menn­irn­ir fengju að dvelja í far­sótt­ar­hús­inu þangað til hún get­ur haf­ist að nýju en Þrá­inn býst við því að það verði eft­ir um það bil viku. Í fyrstu skimun komu ekki fram nein fleiri smit en þessi tvö. Aft­ur verður skimað síðar í vik­unni. Vernd átti að taka á móti nýj­um vist­mönn­um í vik­unni en ljóst er að það frest­ast líka.

„Þetta er sér­stakt en miðað við þá stöðu sem er í sam­fé­lag­inu var viðbúið að þetta gæti gerst.“

 

Frétt mbl

VOR-teymi í heimsókn

 

Arna Arinbjarnadóttir, Þorbjörg Valgeirsdóttir og Sara Ósk

Starfsfólk VOR-teymis Reykjavíkurborgar heimsóttu Vernd mánudaginn 14. júní í þeim tilgangi að styrkja samband og samvinnu við úrræði Verndar. Vernd hefur verið í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg í 60 ár. Farið var yfir hlutverk og tilgang Verndar og mikilvægi samtakanna. Samstarf Verndar og Reykjavíkurborgar hefur verið einstakt og farsælt í áratugi. VOR-teymið er vetfangs- og ráðgjafateymi sem er skilgreint sem færanlegt teymi skipað þverfaglegum hópi sérfræðinga sem aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefna og geðvanda. Veitir teymið einstaklingsmiðaða ráðgjöf og stuðning á meðan afplánun stendur, inni í fangelsum sem og utan fangelsa.

Það er ljóst að samvinna Verndar og VOR-teymis er mikilvægt og í raun hefur margt breyst til batnaðar eftir að teymið hóf störf. Rúmlega 60 % af skjólstæðingum Verndar eru með lögheimili í Reykjavík og hluti þeirra eru í mikilli þörf fyrir stuðning. Með tilkomu VOR-teymis hafa skjólstæðingar Verndar sem þegar eru í fangelsi betri aðgang að upplýsingum um framvindu sinna mála og hvaða möguleikar eru til staðar þegar þeir losna úr fangelsi.

Eftir hlé í nokkur ár fengu samtökin fulltrúa Reykjavíkurborgar skipaðan að nýju í húsnefnd Verndar sem voru mikil gleði tíðindi fyrir samtökin . En þær Íris Ósk Ólafsdóttir og Dóra Guðlaug Árnadóttir félagsráðgjafar Reykjavíkurborgar sitja nú húsfundi Verndar vikulega þar sem farið er yfir málefni og stöðu þeirra sem dvelja á Vernd og þá sem sækja um dvöl. Þær hafa yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum sem nýtist húsnefndinni vel.

Þú ert víst fangi

 

Vernd fangahjálp vekur hér með athygli á meinbug á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um málefni fanga og þeirra sem afplána refsingu á Íslandi sem kemur niður á mannréttindum þeirra og er þeim fjötur um fót. Réttindamál fanga og þeirra sem afplána refsingu virðast oft vera afgangsstærð og mikil þörf á að taka til endurskoðunar. Í þessu máli bendi ég á að hér er eingöngu verið að ræða hugtök og orðanotkun tengdum þessum málaflokki. Engin er fangi nema í fangelsi sé.

 

Hugtök

 

Vernd hefur barist fyrir því í langan tíma að notkun hugtaka um fullnustu refsinga taki breytingum í samræmi við breyttar útfærslur fullnustu. Ekki gangi að kalla einstaklinga sem eru að fullnusta dóma utan fangelsa fanga. Mjög víða í stjórnsýslunni eru settir varnaglar eða stofnanir neita að fylgja stjórnsýslulögum þar sem einstaklingar sem til þeirra leita eru samkvæmt þeirra túlkun enn fangar og séu þess vegna á ábyrgð Fangelsismálastofnunnar. Sveitafélög og stofnanir hafa þannig reynt að komast hjá þeim skyldum sem þau/þær bera gagnvart þessum einstaklingum. Til þess að hægt sé að átta sig á þessum mikla mun á því að geta yfir höfuð verið fangi eða einstaklingur sem er að ljúka fullnustu refsingar utan fangelsa set ég eftir farandi fram. Það er nauðsynlegt að orðið fangi sé tekið út úr textum stjórnsýslu/reglugerðum og lögum þar sem það á ekki við þannig að ekki sé hægt að brjóta á réttindum þeirra sem fullnusta dóma utan fangelsa eins og gert er með geðþóttaákvörðunum. Þetta á við einstaklinga sem að dvelja á Vernd, fara í meðferð, fullnusta á rafrænu eftirliti eða í samfélagsþjónustu. Oftar en ekki heyri ég í samtölum mínum við stofnanir, ráðuneyti, fagaðila sveitafélaganna þegar leitað er eftir þjónustu er spurt, er hann/hún ekki fangi eða fyrrverandi fangi þegar það á ekki við. Þessu verður að breyta þannig að réttur þeirra sé tryggður til jafns við aðra.

 

Vernd er ekki fangelsi

 

Vernd rekur áfangaheimili og hefur gert í 60 ár og er með samning við Fangelsismálastofnun á grundvelli 31. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Í umræðu um fangelsismál hefur því stundum verið haldið fram að Vernd sé fangelsi. Samkvæmt lögum um fullnustu refsinga er ljóst að Vernd er ekki fangelsi í merkingu laganna. Lengi var deilt um réttindi dómþola á Vernd varðandi endurhæfingalífeyri og örorkustyrki. Samkvæmt úrskurði úrskurðanefndar velferðarmála mál 152/2009 gegn Tryggingastofnun ríkisins og niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga mál 146/2009 var niðurstaðan sú að einstaklingur sem fær að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd, með rafrænu eftirliti, samfélagsþjónustu eða þegar afplánun lýkur fær örorkustyrk sinn í gang aftur svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Brjóti einstaklingur reglur og verði vistaður í fangelsi að nýju falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar. Vandamálið virðist því vera ruglingur með hugtök laganna, einkum tegund refsingar, afplánun og fangelsi, því samkvæmt lögunum er unnt að afplána fangelsisrefsingu á annan hátt en með vistun í fangelsi. Þá er hugtakanotkun laganna á skjön við daglegt mál og veldur það oft ruglingi.

 

Tímarammi

 

Ef málið er skoðað út frá tíma þá getur dómþoli verið í 30 mánuði utan fangelsa sé horft til þeirra sem lengstan tímann hafa. Á Vernd getur einstaklingur nú dvalið lengst í 18 mánuði og fer svo þaðan á rafrænt eftirlit í 12 mánuði. Það gefur auga leið að úrræðið sem er íboði er ætlað að gefa einstaklingum möguleika á að aðlagast samfélaginu að nýju í umhverfi þar sem boðið er upp á meðferð og endurhæfingu. En víða er pottur brotinn í lögum og reglugerðum. Ef skoðaðar eru reglur Vinnumálastofnunnar má sjá að í IX. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um tilvik sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 53. gr. segir: "Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á þeim tíma er hann tekur út refsingu sína í fangelsi. Hið sama á við um þann sem hefur verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara eða tekur út refsingu sína í samfélagsþjónustu." Þessi lög eru einnig látin gilda um fullnustu rafræns eftirlits og dvalar á Vernd þó þeirra sé ekki getið í lögunum. Hér er eitthvað sem ekki gengur upp. Einstaklingur sem hefur verið á Vernd og verið í vinnu í allt að 18 mánuði en missir vinnuna er algerlega réttindalaus samkvæmt þessu. Honum er gert að greiða skatta og skyldur á meðan á dvöl stendur en öðlast ekkert nema uppsöfnuð réttindi. Í þessu dæmi hljótum við að vera sammála um að breytinga er þörf og að samfélagsþjónusta og vistun á Vernd eða fullnusta undir rafrænu eftirliti er ekki sambærilegt því að vera vistaður í fangelsi. Ég er nokkuð viss um, að við gerð þessara laga hafi löggjafinn ekki ætlað lögunum að hafa þessi áhrif. Samfélagsþjónustu sem getið er í lögunum hefur í flestum tilvikum mjög takmörkuð áhrifa á atvinnuþátttöku þeirra sem henni gegna enda um örfáa klukkutíma á viku að ræða. Það eitt og sér er gerir texta um samfélagsþjónustu 53. gr. nánast óskiljanlegan í því ljósi. Vernd bendir á að þegar dómþolar taka út refsingu utan fangelsa t.d. hjá Vernd, þurfa þeir að stunda vinnu, vera í starfsendurhæfingu og greiða fyrir húsnæði, fæði, heilbrigðisþjónustu o.s.frv., greiða skatta og útsvar af tekjum sínum og ber að framfæra sig sjálfa og fjölskyldur sínar nákvæmlega eins og aðrir íbúar sveitarfélaga. Einnig eru margir í virkri atvinnuleit á þeim tíma sem úttekt fer fram með rafrænu eftirliti, samfélagsþjónustu eða dvöl á Vernd. En flestir eru þó í fullri vinnu.

 

Aðlögun

 

Mikilvægt er skera úr um það hvort einstaklingur sem velur þessa leið geti talist sviptur frelsi sínu í skilningi laganna eins og hann væri í fangelsi (fangi) og hvort opinberir aðilar geti og hafi það í sinni hendi að túlka réttindi þeirra sem til þeirra leita eftir geðþótta. Stimplun setur mark sitt á einstaklinga um aldur og ævi, það er ekkert sem réttlætir það að kalla einstaklinga sem ekki eru fangelsi í textum eða orðum, fanga. Það er algerlega óásættanlegt.

 

 

 

Þráinn Bj Farestveit

 

 

Bólusetning hafin

Bólusetningar ganga vel í fangelsum landsins. Starfsmenn fangelsa hafa allir fengið a.m.k. fyrri bólusetningu og framundan eru bólusetningar fanga. Fangar á Litla-Hrauni og Sogni fá bólusetningu á morgun en áætlað er að fangar í móttökufangelsinu á Hólmsheiði fái bólusetningu síðari hluta næstu viku. Þetta er ákaflega ánægjulegt en engin smit hafa komið upp meðal starfsmanna eða vistmanna í faraldrinum hingað til en einn fangi var færður smitaður í gæsluvarðhald. Hlaut hann viðeigandi heilbrigðisþjónustu og breiddist smit ekki út meðal annarra í fangelsinu. Ástæða er til þess að þakka öllum fyrir samhent átak í sóttvörnum. Fangaverðir, heilbrigðisstarfsmenn, aðrir starfsmenn, fangar og Afstaða, félag fanga, hafa allir sem einn staðið vaktina vel í þessum faraldri.

 

Henríetta Ósk Gunnars­dóttir

Henríetta Ósk Gunnars­dóttir, sál­fræðingur hjá Fangelsis­mála­stofnun, segir sár­lega vanta fleiri úr­ræði fyrir fanga sem hafa setið inni fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum. „Þetta er eini hópurinn sem fær ekki að fara inn á á­fanga­heimili,“ segir Henríetta í hlað­­varpinu Frelsið er yndis­­legt með Guð­­mundi Inga Þór­odds­­syni, for­­maður Af­­stöðu.

Á­fanga­heimilið Vernd tekur ekki á móti föngum sem hafa brotið gegn börnum og hingað til hafa með­ferðar­stofnanir heldur ekki viljað taka á móti föngum í þessum brota­flokki. Henríetta bendir einnig á að engin eftir­fylgni sé eftir að ein­staklingarnir hafi lokið fangelsis­vist.

Frelsið er yndislegt - Henríetta Ósk Gunnarsdóttir - YouTube

„Við fylgjum þeim eftir á reynslu­lausnar tíma og svo líkur þeirra tíma hjá okkur og þá eru þeir úr okkar höndum. Það vantar eitt­hvað sem tekur við þegar fólk hefur lokið af­plánun.“ Þá sé erfiðara fyrir þennan hóp að fóta sig í sam­fé­laginu og finna vinnu og heimili að lokinni af­plánun.

Sér­gangur fyrir barna­níðinga

„Fangar sem sitja inni fyrir brot gegn börnum eru mjög jaðar­settur hópur,“ segir Henríetta. Þeir eru til að mynda vistaðir á sér­gangi á Litla Hrauni og um­gangast aðra fanga lítið.

„Þessi hópur virðist vera neðst í virðingar­stiganum þannig hann ein­angrast svo­lítið,“ út­skýrir Henríetta. Þá sé hópurinn oft út­settur fyrir á­reiti og á­rásum af hálfu annarra fanga sé þess vegna haldið að hluta til frá öðrum vist­mönnum Litla Hrauns.

Verri með­ferð

Guð­mundur telur að fangar í þessum brota­flokk fái verri með­ferð en aðrir fangar með því að vera að­skildir. Hann telur þennan hóp ekki hafa lent í fleiri á­rásum en aðra innan fangelsis­veggjanna. Henríetta segir það geta staðist en bendir á að að­skilnaðurinn hafi verið settur á með öryggi brota­mannanna í huga.

„Þeirra vegna er það já­kvætt upp á það að gera. Við sjáum það er­lendis að þar eru sér­úr­ræði fyrir þennan hóp.“ Á­hyggjur hafi einnig komið upp um að það gæti verið skað­legt að hafa menn með sömu kenndir í sama hóp. Henríetta segir þó ekkert benda til þess.

Guð­mundur veltir fyrir sér hvort það sé ekki hætta á að þessir menn myndi tengsl og hittist með slæman á­setning þegar komið er úr fangelsinu. „Það á við um alla sem eru í fangelsi. Kannski eignast þú fé­laga sem að þú heldur sam­skiptum við á­fram þar sem það eru skert tæki­færi til sam­skipta,“ mót­mælir Henríetta.

Mann­eskjur eins og aðrir

Henríetta hefur sinnt þeim föngum sem þjást af barnagirnd um ára­bil. Um það bil þrjú til fimm prósent mann­kynnisins glímir við barnagirnd að sögn Henríettu. Það er að hennar mati ekki hægt að skil­greina sem sjúk­dóm þar sem hægt er að vinna með fólki sem glímir við þessi ein­kenni.

Í með­ferðum sé mikil­vægt að mæta ein­stak­lingunum af virðingu að mati Henríettu. „Það getur verið erfitt að heyra en þetta eru mann­eskjur eins og aðrir.“ Þessu fylgi gríðar­leg skömm og því geti verið erfitt að opna sig um slíkar kenndir.

„Við viljum meina að fangelsis­vist hafi ein­hvern fælingar­mátt og við viljum ætla að þetta sé betrun og tæki­færi til að vinna með ein­stak­lingnum og grípa hann.“ Barnagirnd sé mikið tabú og því leiti fólk sér ekki að­stoðar fyrr en það er orðið of seint. „Með því að vinna með þeim í fangelsinu er hægt að reyna að koma í veg fyrir að það verði fleiri brota­þolar.“

Barnagirnd faldari hjá konum

Horft er til þriggja við­miða þegar ein­stak­lingur er greindur með barnagirnd. Hvort ein­stak­lingurinn upp­lifi kyn­ferðis­lega hugar­óra eða hvatir til barna, hvort hann hafi fram­fylgt þeim órum og hvort hann hafi átt við mikla streitu eða á­reiti í tengslum við þessa hugar­óra sem hafi aftrað eðli­legu fé­lags­lífi. „Svo er enginn yngri en 16 ára sem myndi fá þessa greiningu og brota­þolinn þyrfti að vera minnst fimm árum yngri.“

Mun al­gengara er að karlar sitji inni fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum en konur. Henríetta bendir á að telja mætti þær konur sem hafa setið inni á Ís­landi fyrir slík brot á annarri hendi.

Hún telur að á­stæða þess sé að hluta til fólgin í því að barnagirnd sé meira falin hjá konum. Það geti þó breyst á komandi árum þá gæti kven­kyns föngum í þessum mála­flokk því fjölgað.