Liggur einhver refsing við því að bera ljúgvitni í sakamáli?

Stutta svarið við þessari spurningu er já. Í fyrsta málslið 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940segir:
 
Hver, sem skýrir rangt frá einhverju fyrir rétti eða stjórnvaldi, sem hefur heimild til heitfestingar, skal sæta fangelsi allt að fjórum árum.
Hafi skýrsla verið heitfest skal það virt til þyngingar refsingar, samanber annan málslið, en sé skýrsla röng í atriðum sem ekki varða málefnið sem verið er að kanna, má beita sektum eða fangelsi allt að einu ári.


Það telst enn alvarlegra brot að bera ljúgvitni í máli sé það gert með það fyrir augum að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, en samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna varðar það allt að 10 ára fangelsi, og fangelsi allt að 16 árum hafi brotið haft, eða því verið ætlað að hafa í för með sér velferðarmissi fyrir nokkurn mann.

Þessar reglur gilda þó ekki um alla sem bera vitni í máli, því þar er sakborningurinn sjálfur sérstaklega undanskilinn. Samkvæmt 143. gr. almennu hegningarlaganna varðar það sökunaut sjálfan ekki refsingu þó að hann skýri rangt frá málavöxtum. Þeim manni skal ekki heldur refsað, sem rangt hefur skýrt frá atvikum vegna þess að réttar upplýsingar um þau hefðu getað bakað honum refsiábyrgð í slíku máli, eða hann hafði ástæðu til að halda, að svo væri.
 
Visindavefurinn


Samfélagsþjónusta í stað fangelsisrefsingar

Samkvæmt 27. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því að fullnusta allt að sex mánaða óskilorðsbundna fangelsisefsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundur og mest 240 klukkustundir.

Þegar um fangelsisrefsingu samkvæmt fleiri en einum dómi er að ræða má samanlögð refsing eigi vera lengri en sex mánuðir. Ef hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn má heildarrefsing samkvæmt dóminum eigi vera lengri en sex mánuðir.

Þegar dómþola er sent bréf þar sem hann er boðaður til afplánunar fylgja með upplýsingar um samfélagsþjónustu ásamt umsóknareyðublaði. Umsókn skal skila til Fangelsismálastofnunar eigi síðar en viku áður en hann á upphaflega að hefja afplánun samkvæmt bréfinu.

Skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita eru:

    1. Að dómþoli hafi óskað eftir því skriflega við Fangelsismálastofnun eigi síðar en viku áður en hann átti upphaflega að hefja afplánun fangelsisrefsingar samkvæmt boðunarbréfi.

    2. Að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað.

    3. Að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu. Áður en metið er hvort dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu og þar með talið hvort líklegt er að hann geti innt hana af hendi skal fara fram athugun á persónulegum högum hans. Mæti dómþoli ekki til viðtals í þessu skyni skal almennt synja beiðni um samfélagsþjónustu.

    4. Að dómþoli afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi.


Ályktun Verndar og KRFí um aðstæður kvenfanga

Kvenréttindafélag Íslands og Vernd – fangahjálp, vilja í sameiningu vekja athygli á því að aðstæður kvenfanga eru mun lakari en karlfanga. Fyrir það fyrsta er einungis eitt fangelsi í boði fyrir kvenfanga, Kvennafangelsið í Kópavogi, þar sem þrengsli eru mikil. Kvenfangar eiga ekki kost á vistun í opnu fangelsi líkt og karlfangar og möguleikar kvenna til framhalds- og starfsnáms á meðan betrunarvist þeirra stendur, eru mun lakari en karlanna. Auk þess gefast kvenföngum ekki sömu tækifæri til að stunda vinnu samhliða afplánun og karlföngum.
 
Kvenréttindafélag Íslands og Vernd – fangahjálp, mótmæla þessari kynbundnu mismunun á aðstæðum og fangelsisvistun karl- og kvenfanga. Það er óviðunandi að föngum sé mismunað á grundvelli kyns síns enda varðar það við lög. Fangelsun er skv. stefnu stjórnvalda ætlað að fela í sér betrunarvist í þágu viðkomandi einstaklinga og samfélagsins í heild sinni. Kvenréttindafélag Ísland og Vernd – fangahjálp, hvetja yfirvöld til þess að lagfæra aðstæður kvenfanga hið fyrsta og tryggja það að nú þegar bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði stendur fyrir dyrum, verði aðstæður kvenfanga sem þar munu dvelja til jafns við það sem karlföngum býðst.

Þráinn Farestveit

 

 


Fréttatilkynning

26. júní - aþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum
Verum vakandi - vakningaátak meðal foreldra um skaðsemi kannabis hefst á degi Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum – 26. júní 2010 en Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í desember 1987 að tileinka 26. júní ár hvert alþjóðlegri baráttu gegn fíkniefnum (International Day against Drug Abuse and Illicit Trafficking) til þess að vekja athygli á fíkniefnavandanum og hvetja til samstarfs í fíkniefnamálum.  Í tilefni þessa dags í ár mun Samstarfsráð um forvarnir (SAMFO) í samstarfi við nítján félagasamtök hefja sameiginlegt vakningarátak á meðal foreldra um skaðsemi kannabisefna undir heitinu „Verum vakandi“.  Með átakinu vilja aðstandendur þess fræða foreldra og aðra uppalendur um kannabis, skaðsemi þeirra, einkenni kannabisneyslu og forvarnir. Með þessu vilja aðstandendur átaksins vekja athygli á og bregðast við ýmsum rangfærslum um kannabisefni sem m.a. er að finna á netinu og ungmenni eiga greiðan aðgang að
 
Kannabis og ungt fólk
Nú á sér stað umræða sem gerir lítið úr áhættunni sem fylgir neyslu kannabisefna og grefur undan varnaðarorðum gegn henni. Jafnvel er lagt til að heimila, notkun, sölu og dreifingu þessara efna (lögleyfa þau). Þetta er áhyggjuefni, m.a. í ljósi þess að neytendum kannabisefna sem leita sér meðferðar hefur fjölgað mikið síðustu ár á Íslandi. Þar á ungt fólk einkum í hlut. Skaðleg líffræðileg áhrif kannabisneyslu eru þekkt, svo og tengsl við neyslu annarra fíkniefna, s.s. amfetamíns. Á grundvelli þessarar vitneskju er mikilvægt að börn og unglingar láti ekki blekkjast af rangfærslum um kannabisefni, heldur afli sér hlutlægra upplýsinga. Til þess þurfa þau stuðning, upplýsingar og hvatningu af hálfu foreldra, kennara og annarra sem eiga að standa vörð um hag og velferð þeirra.


Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 3. júní kl.18:00
( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )
 
Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

 

Þráinn Farestveit


Opið fangelsi í Bitru

Fyrirmyndarfangar munu afplána dóma sína í nýjasta fangelsi landsins á Bitru, sem var opnað í dag. Þrettán fangar eru nú komnir í fangelsið í Bitru en það verður hægt að vista 26 fanga ef kojur verða settar inn í herbergin. Fangelsið er opið fangelsi, sem þýðir að fangarnir geta strokið kjósi þeir það. Nú eru um 400 manns á biðlista eftir að komast í fangelsi.

Nýja fangelsið er í Flóahreppi, en í Bitru var áður rekið kvennafangelsi.  Síðustu ár hefur húsnæðið þó verið notað í ferðaþjónustu. Öll aðstaða í Bitru er til fyrirmyndar og fátt þar inni sem minnir á fangelsi.


Fangahjálp í 50 ár

Félagasamtökin Vernd – fangahjálp -  voru  stofnuð 19. október 1959 en starfsemi þeirra hófst hinn 1. febrúar 1960.
Forgöngu um stofnun félagastamtakanna Verndar hafði Kvenréttindafélag Íslands. Þóra Einarsdóttir, síðar formaður Verndar um tveggja áratuga skeið flutti erindi um aðstoð við afbrotafólk á fundi Kvenréttindafélagsins þann 28. maí árið 1958. Þær Þóra Einarsdóttir og Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður, lögðu fram eftirfarandi tillögu á fundinum sem samþykkt var eftir nokkra umræðu: „Fundurinn ályktar, að tímabært sé, að hefja undirbúning að samtökum er vinna að umsjá og eftirliti með afbrotafólki. Samtökin vinni að því m.a. að komið verði upp dvalar- og vinnuheimilum og stuðli á annan hátt að því að gera fólk, sem lent hefur á glapstigum að nýtum þjóðfélagsþegnum.“ Kosin var undirbúningsnefnd og hlaut félag þetta síðar nafnið Vernd. Kvenfélög vítt og breitt um landið lögðu Vernd lið strax frá upphafi. Sömuleiðis flest öll sveitarfélög og hið opinbera.

Vernd sett sér strax það markmið að leitast við, í samráði við opinber stjórnvöld, stofnanir og einstaklinga, að hjálpa fólki, sem gerst hefði brotlegt við refsilöggjöf landsins. Tilgangur félagasamtakanna Verndar var að taka að sér eftirlit með fólki sem hlotið hefur dóm, skilorðsbundinn dóm og með þeim, sem frestað hefur verið ákæru á.


Dómar hafa fyrnst vegna húsnæðisvanda í fangelsum

Skortur er á rými fyrir fanga í fangelsum landsins og telur Ríkisendurskoðun brýnt að úr þessu verði bætt og að stjórnvöld móti heildarstefnu um fullnustu refsinga. Þá þurfi að breyta skipulagi fangelsismála.

 
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að einstaklingar sem biðu eftir því að hefja afplánun refsidóma voru þrefalt fleiri á síðasta ári en árið 2005 og meðalbiðtími eftir fangelsisvist tvöfaldaðist á tímabilinu. Dæmi séu um að skortur á rými í fangelsum landsins hafi valdið því að óskilorðsbundnir dómar hafi fyrnst. Segir Ríkisendurskoðun, að þetta geti dregið úr varnaðaráhrifum refsinga og grafið undan trausti almennings á réttarvörslukerfinu.


Fangavarðaskólinn hóf starfsemi sína um miðjan janúar

Fangavarðaskólinn hóf starfsemi sína 12. janúar 2010. Vegna efnahagsástandsins var ákveðið að skólahald á þessu starfsári yrði með þeim hætti, að um eina samfellda önn yrði að ræða í stað grunnnáms og framhaldsnáms.

Kennt verður samfellt í 13 vikur og einnig var kennslustundum í hverri viku fjölgað nokkuð. Samtals eru níu nemendur í skólanum að þessu sinni, fimm frá Fangelsinu Litla-Hrauni og fjórir frá fangelsum á höfuðborgarsvæðinu.   Fangavarðaskólinn hefur, eins og áður, aðstöðu í húsnæði Lögregluskóla ríkisins að Krókhálsi í Reykjavík.  Alls koma 14 kennarar að kennslu og þjálfun fangavarða við skólann.  Náminu lýkur með skriflegum og verklegum prófum, auk þess sem nemendur skila þremur rannsóknarverkefnum í hópvinnu, sem þeir gera grein fyrir í málstofu við lok námstímans.


Til hvers eru fangelsi

Fangelsi er tiltölulega nýtt úrræði til lausnar á vanda vegna afbrota í samfélaginu. Franski þjóðfélagshugsuðurinn Michel Foucault hélt því fram að refsingar hafi áður fyrr beinst að líkamanum en síðan hafi sálin tekið við sem viðfang refsingarinnar. Þetta birtist okkur í margvíslegum líkamlegum refsingum fyrri tíma eins og húðstrýkingum, brennimerkingum og aflimunum en varðhald eða vistun til lengri tíma var fátíðara úrræði. Skógganga eða útlegð brotamanna tíðkaðist þó sums staðar, meðal annars hér á landi á þjóðveldisöld. Í dag er hins vegar algengara að dómþolar þurfi að verja fyrirfram skilgreindum tíma í vist eða gæslu bak við lás og slá og dýrmætur tími tapast því frá hringiðu samfélagsins á meðan.
 
Skipta má markmiðum fangelsa í fernt. Afplánun í fangelsi tekur brotamanninn úr umferð og hann getur þar af leiðandi ekki valdið öðrum borgurum tjóni á meðan. Fangelsisvist felur að auki í sér tilhlýðilega refsingu um leið og vistin er víti til varnaðar fyrir aðra í samfélaginu. Að síðustu felur fangavist í sér möguleika á endurhæfingu eða meðferð brotamannsins sem síðan getur snúið að nýju út í samfélagið sem breyttur og bættur þegn að aflokinni afplánun.

Á Íslandi eru að jafnaði um 100 einstaklingar í fangelsi á hverjum tíma og er fangafjöldi hér einn sá lægsti í V-Evrópu miðað við mannfjölda.

Á síðustu árum hafa komið fram margvísleg ný refsiúrræði sem komið hafa í stað hefðbundinnar fangelsisvistar. Nefna má vistun á sambýlum eins og áfangaheimili Verndar hér á landi, þar sem vistin er bundin tilteknum skilyrðum svo sem að viðkomandi stundi vinnu eða nám, greiði húsaleigu og sé bundinn heimilinu tilteknar stundir á sólarhringnum.
 
Samfélagsþjónusta er annað úrræði sem fest hefur í sessi hér á landi á síðustu árum. Dómþolar geta sótt um að afplána dóm sem kveður á um allt að sex mánaða refsivist í fangelsi með því að inna af hendi sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins í stað fangavistar. Úrræði af þessu tagi fela í sér minni tilkostnað fyrir ríkisvaldið og gefa dómþolum um leið aukna möguleika á að viðhalda eðlilegum tengslum við aðra í samfélaginu.
 
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á afturhvarfi brotamanna til afbrotahegðunar eftir að þeir hafa afplánað refsingu. Niðurstöður benda til að ítrekunartíðni þeirra sem ljúka fangavist á Íslandi sé mjög svipuð því sem tíðkast meðal annarra þjóða, jafnvel þó að sumar þessara þjóða beiti talsvert þyngri refsingum en við Íslendingar. Engin merki sjást um að þyngri refsingar dragi úr ítrekunartíðni en vísbendingar eru um hið gagnstæða. Nýrri úrræði í réttarkerfinu, eins og samfélagsþjónusta og beiting skilorðsbundinna dóma, hafa því ekki leitt til aukinnar ítrekunartíðni íslenskra afbrotamanna og eiga því hiklaust heima innan viðurlagakerfisins ásamt öðrum úrræðum.


Fangelsi í góðæri og kreppu

Kannski  finnst mönnum alltaf jafn slæmt að þurfa að reisa fangelsi. Finnst fjármunum hins opinbera betur varið í annað á góðæristímum þegar rífandi gangur er í öllu. Þegar hjól atvinnulífsins ganga mjúklega og hratt og hver verkfús hönd  hefur meira en eitt verk að vinna. Hverjum skyldi þá detta í hug að fara byggja hús til að loka menn inni í? Og í kreppu þegar þung krumla atvinnuleysis og samdráttar leggst yfir menn og byggð, hverjum dettur í hug að reisa fangelsi?

Það hefur verið sagt að aðbúnaður fanga og fangelsa endurspegli menningarstig hverrar þjóðar.
Byggingasaga fangelsa á Íslandi hefur verið hálfgerð raunasaga. Hún geymir þó góðan vilja sem dugði reyndar skammt þegar á hólminn var komið vegna þess að höndin var hikandi og ákvörðunum iðulega skotið á frest. Það var alltaf eitthvað annað sem hafði forgang eða þá að óviðráðanlegar aðstæður skutu upp kolli og settu öll áform á hliðina.


Tifandi tímasprengja í fangelsunum

Rekstur fangelsa er liður í grunnþjónustu samfélagsins sem nauðsynlegt er að sé til staðar en óhætt er að segja að fangelsin hafi lítinn skerf fengið af góðærinu, áætlanir um byggingu nýs fangelsis hafa frestast ár frá ári og bráðabirgðaúrræði tafist.
 
Hegningarhúsið hefur verið rekið á undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum frá árinu 1998
 
Öll fangelsi á Íslandi eru nú yfirfull og ástandið viðkvæmt. Á LitlaHrauni sitja nú rúmlega 90 fangar, þrátt fyrir að þar sé aðeins gert ráð fyrir 77 föngum og í fyrsta skipti í sögu fangelsisins er því tvímennt í suma klefana.
 
Á sama tíma þurfa aðrir dæmdir menn að bíða mánuðum saman eftir að afplána refsivistina, á einu ári hefur boðunarlistinn lengst úr 140 manns í tæplega 250.
Allsherjarnefnd Alþingis skoðaði aðbúnað á Litla-Hrauni og Hegningarhúsinu í gær.
 
Ástandið er nú í raun þannig að ekkert má út af bregða til að veruleg vandræði verði. Ef lögreglan handtæki á morgun hóp manna fyrir gróft ofbeldisbrot væri bókstaflega hvergi pláss til að halda þeim.