Auglýsti andlát samfanga síns

Refsifangi á Litla Hrauni er grunaður um að hafa sent tilkynningu um andlát samfanga síns en tilkynningin birtist í Morgunblaðinu í  morgun. Birt er reikningsnúmer með tilkynningunni í þeim tilgangi að fé verði lagt inn á
reikninginn.

Í Morgunblaðinu í dag birtist tilkynning um andlát Hákons Rúnars Jónssonar en hann afplánar nú nokkurra mánaða fangelsisdóm á Litla Hrauni. Í auglýsingunni segir að maðurinn hafi látist eftir langvarandi veikindi og er þeim sem vilja minnast hans bent á reikningsnúmer. Reikningurinn og kennitala sem upp er gefin er í eigu Sigurbjörns Adams Baldvinssonar, fanga á Litla Hrauni en hann afplánar dóm fyrir margháttuð afbrot.

Auglýsingin er uppspuni frá rótum og virðist hafa verið send frá Litla Hrauni í þeim tilgangi einum að svíkja út fé af fólki.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri segist ekki muna eftir öðrum eins ósóma. „Þetta er með því ósmekklegra sem ég hef séð. Málið verður rannasakað til hlítar. Strax í morgun voru tölvur fanga sem grunaðir eru um verknaðinn, haldlagðar og verða þær skoðaðar. Þá verða teknar skýrslur af föngunum en málið verður síðan afhent lögreglu,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Páll segir að fangar hafi tölvur á herbergjum sínum og takmarkaðan aðgang að netinu vegna fjarnáms en þá undir eftirliti. Hins vegar færist í vöxt að svokölluðum netpungum sé smyglað inn í fangelsið, en þeir tengja tölvur við netið með svokölluðu 3G sambandi. Páll segir að töluvert sé um að slíkir netpungar séu haldlagðir. Sama á við um farsímanotkun fanga, farsímar eru bannaðir innan veggja fangelsanna. Nokkrir símar eru haldlagðir í hverjum mánuði.

Páll Winkel segir að agaviðurlög verði ákveðin gagnvart föngunum þegar málið hafi verið rannasakað til hlítar. Þá segir hann ekki ólíklegt að brot fanganna leiði til endurskoðunar á tölvunotkun refsifanga í fangelsum landsins.

Morgunblaðinu þykir miður að hafa verið blekkt með þessum hætti. Reikningnum sem nefndur er í auglýsingunni, hefur verið lokað.

Guðmundur Gíslason skrifar um fangelsismál

Guðmundur Gíslason skrifar:
 
Að gefnu tilefni langar mig til að leggja orð í belg vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um byggingu nýs fangelsis en sú staða virðist komin upp að útboð getur ekki hafist vegna ágreinings í ríkisstjórn um fjármögnun verksins.

Miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu, lögregla hefur verið efld, tollgæsla styrkst, refsingar hafa þyngst og dómstólar orðið skilvirkari. Fangelsismálastofnun á orðið erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu, fullnustu refsingar brotamanna sem dæmdir hafa verið til refsivistar. Í landinu eru sex fangelsi, þar af tvö á höfuðborgarsvæðinu, sem bæði hafa verið rekin á undanþágu heilbrigðisyfirvalda til margra ára enda svo komið að þar er erfitt að uppfylla nútímaskilyrði um mannúðlega refsivist fanga. Hegningarhúsið var byggt 1874 og getur hýst 16 fanga. Kópavogsfangelsið var tekið í notkun 1989 og getur hýst 12 fanga. Það er eina fangelsið fyrir konur. Af ýmsum ástæðum eru bæði þessi fangelsi óhæf undir þá starfsemi sem þar fer fram. Hegningarhúsið var reist á 19. öld þegar helstu samgöngutæki voru hestar og þjóðin var bændasamfélag. Allt frá miðri síðustu öld hefur verið rætt opinberlega um að Hegningarhúsið sé ekki heppilegur vistunarstaður fyrir fanga. Árið 1961 lét Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, vinna skýrslu um drög að nýju fangelsi í Reykjavík vegna þess að Hegningarhúsið uppfyllti ekki kröfur um aðbúnað. Þetta var fyrir 50 árum! Kópavogsfangelsið var ekki byggt sem fangelsi og hefur í raun hentað illa sem slíkt, sérstaklega til lengri tíma fangavistar. Húsnæðið er þröngt og lítið rými til athafna og útivistar fanga. Það er að mínu áliti óásættanlegt að konur þurfi að afplána langa refsingu þar. Bæði fangelsin standa auk þess of nærri byggð, Hegningarhúsið í miðju verslunar- og skemmtanahverfi og Kópavogsfangelsi í íbúðahverfi, 50 metra frá stórum leikskóla.

Formleg opnun Fangelsisins Akureyri

Fangelsið Akureyri var formlega opnað í dag 7. ágúst eftir gagngerar endurbætur. Þar með lauk öðrum áfanga í áætlun um endurnýjun og uppbyggingu fangelsa í landinu, sem mótuð hefur verið af dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fangelsismálastofnun.
Allur aðbúnaður í fangelsinu er góður og í samræmi við nútímakröfur. Sex fangaverðir starfa í fangelsinu og hefur stöðugildum verið fjölgað um tvo. Eftir endurbætur er unnt að vista 10 fanga í fangelsinu, þar af eru tvö rými sem geta hýst kvenfanga. Í fangelsinu eru vistaðir fyrirmyndarfangar, enda stundi þeir vinnu eða nám í fangelsinu auk þess skulu fangar taka þátt í endurhæfingaráætlun. Fangar sjá að mestu um sig sjálfa, þ.e. elda, þrífa, þvo þvott og þjálfast í öðru sem tengist almennri lífsleikni. Þar með koma þeir betur undirbúnir út í samfélagið að lokinni fangavistinni og jafnframt er dregið úr líkum á frekari afbrotum síðar.
 
Frétt: þráinn Bj. Farestveit

Fagleg sjónarmið um byggingu fangelsis

Á liðnum misserum hefur mikið verið fjallað um byggingu nýs fangelsis á opinberum vettvangi. Ekki er hægt að segja annað en að byggingasaga fangelsa sé sorgleg. Oft hefur staðið til að byggja fangelsi en einhverra hluta vegna hefur aldrei lánast að klára verkefnið.

Margt kemur til. Þensla í opinberum framkvæmdum, niðurskurður í opinberum framkvæmdum, „byggðapólitík" og almennt áhugaleysi um málaflokkinn. Nú er svo komið að tekin hefur verið ákvörðun um byggingu nýs fangelsis. Því ber að fagna. Því miður hefur nú komið upp „hefðbundin" byggðapólitík, deilur um staðsetningu og útúrsnúningar á alla bóga.

Umræðan hefur farið í marga hringi, rangar fullyrðingar settar fram, stjórnmálamenn sem áður hafa lítið eða ekki tjáð sig um málaflokkinn tekið að skrifa greinar og dregið ályktanir sem eru í engu samhengi við raunveruleikann. Þeir sem koma að ákvarðanatöku um staðsetningu fangelsis hafa jafnvel verið sakaðir um annarleg sjónarmið. Nauðsynlegt er að gera grein fyrir raunverulegri stöðu og hvað til stendur.
Ekki stendur til að framtíðaruppbygging öruggasta fangelsis landsins fari frá Fangelsinu Litla-Hrauni að Hólmsheiði. Fullyrðingar um slíkt eru rangar. Langtímaáætlanir gera þvert á móti ráð fyrir mikilli uppbyggingu á Litla-Hrauni og að fangarýmum þar verði fjölgað verulega. Það er mat þeirra sem að öryggismálum koma hjá Fangelsismálastofnun og öðrum að fyrst sé nauðsynlegt að byggja á Litla-Hrauni fullnægjandi aðstöðu fyrir starfsmenn, miðlæga varðstofu auk heimsóknar- og móttökuaðstöðu áður en rýmum verði fjölgað í fangelsinu um rúmlega 40 eins og ráð er fyrir gert. Þá er starfs- og námsaðstaða í Fangelsinu Litla-Hrauni ekki í stakk búin að bæta við 40 föngum án breytinga. Slíkt væri óábyrgt og óforsvaranlegt út frá mannréttinda- og öryggissjónarmiðum.

 

Fundur á Litla-Hrauni

Fundur um samvinnu Almannavarna og fangelsisyfirvalda vegna jarðskjálftans 29. maí 2008 var haldinn á Litla-Hrauni sl. miðvikudag. Jafnframt var í gær haldinn fundur með aðstoðarmönnum dóms- og menntamála um ýmis málefni m.a. afleiðingar jarðskjálftans, menntunarmál fanga, stöðu geðsjúkra sakhæfra fanga o.fl.
 
Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi fundaði á Litla-Hrauni sl. miðvikudag ásamt fulltrúum fangelsisyfirvalda. Fundurinn var haldinn að beiðni forstjóra Fangelsismálastofnunar en fundarefnið var samvinna Almannavarna og fangelsisyfirvalda vegna jarðskjálftans 29. maí sl. Fundinn sátu forstjóri Fangelsismálastofnunar, Páll E. Winkel, Halldór Valur Pálsson, fulltrúi Fangelsismálastofnunnar, Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður, Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, auk Margrétar Frímannsdóttur, forstöðumanns Litla-Hrauns og Jóns Sigurðssonar, deildarstjóra.

Heimsókn adstodarmanna dóms- og menntamalaradherra á Litla-Hraun 26. juni 2008. Þá var jafnframt haldinn fundur á Litla-Hrauni í gær þar sem mættu Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, Erlendur S. Baldursson aðstoðarmaður forstjóra Fangelsismálastofnunar, Þórir Hrafnsson aðstoðarmaður dómsmála-ráðherra, Skúli Gunnsteinsson lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Arna Hauksdóttir, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Örlygur Karlsson, skólastjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands og Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns. Gestir skoðuðu fangelsið og að því loknu var fundað um öryggismál, menntunarmál, stöðu geðsjúkra sakhæfra fanga, afleiðingar jarðskjálftans og önnur málefni fangelsiskerfisins