Guðmundur Gíslason skrifar um fangelsismál

Guðmundur Gíslason skrifar:
 
Að gefnu tilefni langar mig til að leggja orð í belg vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um byggingu nýs fangelsis en sú staða virðist komin upp að útboð getur ekki hafist vegna ágreinings í ríkisstjórn um fjármögnun verksins.

Miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu, lögregla hefur verið efld, tollgæsla styrkst, refsingar hafa þyngst og dómstólar orðið skilvirkari. Fangelsismálastofnun á orðið erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu, fullnustu refsingar brotamanna sem dæmdir hafa verið til refsivistar. Í landinu eru sex fangelsi, þar af tvö á höfuðborgarsvæðinu, sem bæði hafa verið rekin á undanþágu heilbrigðisyfirvalda til margra ára enda svo komið að þar er erfitt að uppfylla nútímaskilyrði um mannúðlega refsivist fanga. Hegningarhúsið var byggt 1874 og getur hýst 16 fanga. Kópavogsfangelsið var tekið í notkun 1989 og getur hýst 12 fanga. Það er eina fangelsið fyrir konur. Af ýmsum ástæðum eru bæði þessi fangelsi óhæf undir þá starfsemi sem þar fer fram. Hegningarhúsið var reist á 19. öld þegar helstu samgöngutæki voru hestar og þjóðin var bændasamfélag. Allt frá miðri síðustu öld hefur verið rætt opinberlega um að Hegningarhúsið sé ekki heppilegur vistunarstaður fyrir fanga. Árið 1961 lét Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, vinna skýrslu um drög að nýju fangelsi í Reykjavík vegna þess að Hegningarhúsið uppfyllti ekki kröfur um aðbúnað. Þetta var fyrir 50 árum! Kópavogsfangelsið var ekki byggt sem fangelsi og hefur í raun hentað illa sem slíkt, sérstaklega til lengri tíma fangavistar. Húsnæðið er þröngt og lítið rými til athafna og útivistar fanga. Það er að mínu áliti óásættanlegt að konur þurfi að afplána langa refsingu þar. Bæði fangelsin standa auk þess of nærri byggð, Hegningarhúsið í miðju verslunar- og skemmtanahverfi og Kópavogsfangelsi í íbúðahverfi, 50 metra frá stórum leikskóla.

 

Það gleymist stundum í umræðunni að báðum fangelsunum þarf að loka til frambúðar en það er óhugsandi að kippa burt 28 fangaplássum í landinu án þess að byggja fyrst nýtt fangelsi. Í þessu samhengi er ekki úr vegi að rifja upp að CPT nefndin, Committee for the Prevention of Torture and inhuman or degrading treatment or punishment, sem er óháð eftirlitsnefnd á vegum Evrópuráðsins, hefur í þrígang gert þá kröfu til íslenskra stjórnvalda að þau geri bragarbót varðandi fangavist á höfuðborgarsvæðinu. Og þau hafa svo sannarlega tekið undir það í orði en ekki á borði. Gagnrýnin er réttmæt um aðstöðuleysi í fangelsunum og þann vanda sem við er að glíma bæði hvað varðar starfsmenn og fanga. Það er erfitt fyrir fangaverði að vinna árum saman í umhverfi sem uppfyllir ekki skilyrði um aðbúnað og hollustuhætti og bera að auki kvíðboga fyrir því að vinnustað þeirra verði lokað. Þeir hafa lagt sig fram um að starfa af fagmennsku við erfiðar aðstæður og það ber að þakka. Því má samt ekki gleyma að margt gott hefur verið gert í fangelsismálum á síðustu árum eins og endurbætur á Litla-Hrauni, Kvíabryggju, Akureyri og Bitru.

Kjarni málsins er að tímabundin fangavist einstaklings á ekki að hafa í för með sér þjáningu umfram það sem dómurinn sem slíkur felur í sér. Þrátt fyrir ófullnægjandi aðstæður í Hegningarhúsinu hefur oft verið sagt að fangar séu ánægðir þar vegna þess að þar sé góður andi. En það er ekki nóg því auk manngæsku þarf að koma til markvissara skipulag til að fangelsisvistin nýtist fanganum betur, t.d. við nám, meðferð og vinnu. Það verður ekki framför við óboðlegar aðstæður, það er erfitt að troða hugmyndafræði og úrræðum nútímans inn í 19. aldar húsaskipan og ætlast til að ná árangri meðan fangarnir verða nánast að borða af hnjánum á sér vegna plássleysis. Erfitt er að gera breytingar þar sem húsið er að stórum hluta friðað. Allir sem starfa innan geirans leggja sig fram við að gera það besta úr hlutunum. En við getum gert betur. Gleymum því ekki að fangi heldur aftur út í samfélagið að fangavist lokinni. Þess vegna er svo mikilvægt að í fangelsum fari fram uppbyggileg meðferð.

Að fjasað hafi verið um málið í 50 ár án þess að nýtt fangelsi í Reykjavík hafi orðið að veruleika er auðvitað ekkert annað en gallsúr brandari. Á undanförnum árum hef ég verið í mörgum starfshópum sem hafa unnið að þarfagreiningum vegna fangelsisbyggingar. Skoðum aðeins söguna um Fangelsið Hólmsheiði.

Hugmyndavinnan hófst 2001 í starfshópi, fram fór starf við þarfagreiningu, skipulag og fjármögnun en ekkert varð úr framkvæmdum. Á þeim 10 árum sem liðin eru hafa margar viljayfirlýsingar verið gefnar út og starfshópar unnið að mismunandi útfærslum. Ýmsar hugmyndir hafa verið í gangi: Byggja lítið fangelsi, breyta staðsetningu lóðar, sambyggja lögreglustöð og fangelsi, stækka Litla-Hraun o.s.frv. Fjöldi starfsmanna Fangelsismálastofnunar, dómsmála- og fjármálaráðuneytis, lögreglu, framkvæmdasýslu og verkfræði- og arkitektastofa hefur unnið að þessu. Og alltaf hafa stjórnvöld á einhverjum tímapunkti skipt um kúrs eða hætt við, t.d. vegna deilna um skipulag eða staðsetningu, hættu á ofþenslu í hagkerfinu, kreppu og fjárskorts og núna vegna ágreinings í ríkisstjórn um fjármögnun verksins.

Það er komið nóg af þessari vitleysu. Kjarni málsins er að væntanlega stendur áfram til að viðhalda skipulagi réttarríkis í landinu. Brotamenn munu eftir sem áður verða dæmdir til fangelsisvistar, sumir í langan tíma en aðrir skemur. Fangelsismálastofnun hefur lagt til rýmkun samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit en það breytir ekki þörfinni fyrir fangelsisrými og viðunandi aðstöðu.

Of löng bið er eftir fangelsisplássi og ef ekkert er að gert verða meiri vandræði vegna þess að tvö fangelsi verða lögð niður. Þeim þarf að loka vegna þess að þau eru óhæf og þá verður að koma til önnur fangelsisbygging á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins á eftir að bjóða út hönnun og framkvæmd verksins og hefjast handa. Markmiðið er að reisa nútíma fangelsi fyrir gæsluvarðhald, móttöku fanga og greiningu, auk sérstakrar álmu fyrir kvenfanga. Allt tal um að þessi samsetning geti ekki verið undir sama þaki er út í hött, það er aðeins spurning um sveigjanleika í hönnun og byggingu. Það ríður á að hefjast handa og byggja til framtíðar með réttsýni, mannúð og skynsemi að leiðarljósi.

Ég skora á stjórnvöld að skoða málið með opnum huga. Fangelsi á ekki að vera eitthvert óþurftarmál, fangar eru ekki óhreinu börnin hennar Evu.

Refsivörslukerfið, þar með talin fangelsin, er mál samfélagsins í heild, hluti þeirrar stjórnsýslu sem við viljum að haldi utan um það. Er ekki orðið tímabært að styrkja það svo sómi sé að?