„Við þurfum að vita hvað við erum að gera vel til að vita hvað við þurfum að gera betur,“ sagði Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu, á opnum fundi SÁÁ-klúbbsins um vímuefnavanda unga fólksins sem fram fór í gærkvöldi.
Fjöldi manns sótti fundinn, en auk Halldórs fór þar með framsögu Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs, áður en þau tóku svo bæði þátt í pallborðsumræðum.
Í framsögu sinni sagði Halldór mikilvægt að horfa á styrkleika þeirrar þjónustu og úrræða sem Barnaverndarstofa hefur yfir að ráða, og byggja ofan á, í stað þess að segja að allt sé ónýtt og að byggja þurfi þjónustuna upp að nýju. Einn af helstu styrkleikum þjónustunnar sagði hann vera fjölkerfameðferðina, eða MST, sem fram fer á heimili þess sem á þarf að halda til þess að yfirfærsla fari fram samhliða. 600 fjölskyldur hafa nýtt sér meðferðina á síðastliðnum tíu árum og af henni hlýst góður árangur, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.